22.01.1987
Sameinað þing: 39. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2495 í B-deild Alþingistíðinda. (2313)

Brottvikning fræðslustjóra í Norðurlandsumd. e.

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Hæstv. menntmrh. hefur ýmist haldið því fram við þessar umræður að menn séu ekki með réttu ráði eða ósannindamenn þegar þeir andmæla einstökum ásökunum sem ráðherra hefur borið á fræðslustjórann eða einstökum málsatvikum í þessu máli. Ég held að það sýni ekkert betur hroka hæstv. ráðh. en að grípa til þess að segja menn annaðhvort ekki með réttu ráði eða ósannindamenn þegar þeir hafa aðrar skoðanir á þessum málum og eru að leiða fram rök fyrir sínu máli.

Málsvörn hæstv. menntmrh. s.l. þriðjudag, þegar hann reyndi að verja hvernig hann stóð að brottvikningu Sturlu Kristjánssonar fræðslustjóra og þær ástæður sem að baki brottrekstrinum lágu, voru í reynd allsérstæðar. Málsvörn hans fólst einkum í því að vitna í bréf eða greinargerð sem Sturla Kristjánsson skrifaði fyrir sex eða sjö árum, en meginefni þeirra skrifa var lýsing fræðslustjórans á því að erfitt væri að halda uppi eðlilegu skólahaldi miðað við áætlanir ráðuneyta og svigrúm fjárlaga. Ég sé ekki, þó hér fari embættismaður, fulltrúi menntmrn., hvernig hægt er að bera fram þá greinargerð sem aðalmálsvörn og vitnisburð menntmrh. fyrir brottvikningu Sturlu þó vissulega megi finna ýmislegt að því orðavali sem fræðslustjórinn viðhafði í þeirri greinargerð. Maður skyldi halda að fræðslustjórinn hafi eins og aðrir í þessu landi ritfrelsi og skoðanafrelsi, ekki síst þegar honum skv. 2. gr. reglugerðar um störf fræðslustjóra frá apríl 1976 er gert að fylgjast með því að lögum og reglum um fræðslumál í skólum sé fylgt. Geti fræðslustjórinn ekki fylgt lögum og reglum um fræðslumál í skólum eins og honum ber samkvæmt þessari reglugerð hlýtur það að vera hans skylda að greina frá því og láta menntmrn. vita hvers vegna það sé ekki hægt.

Samkvæmt þeirri reglugerð sem ég nefndi er ábyrgð fræðslustjóra allmikil á því að hægt sé að halda uppi eðlilegu skólahaldi. Ég vitna til að mynda í 24. gr. þessarar reglugerðar um störf fræðslustjóra, en þar segir m.a. að verkefni fræðslustjóra sé m.a. að sjá svo um að farið sé að gildandi námsskrám. Þar stendur einnig í 32. gr.:

„Fræðslustjóri skal safna upplýsingum um skólamál fræðsluumdæmisins að því er varðar skólahúsnæði, aðbúnað skóla og aðstöðu til skólahalds, enn fremur um kennsluhætti, svo og“, hæstv. menntmrh., „örðugleika við að framfylgja ákvæðum námsskrár um kennslu í grunnskóla. Hann skal og samkvæmt þeirri reglugerð sem fyrrv. menntmrh. hefur sett hafa umsjón með og leiðbeina við gerð áætlana einstakra skólahverfa fyrir komandi rekstur grunnskóla og hann skal samkvæmt 34. gr. endurskoða áætlanir og gera áætlun fyrir fræðsluumdæmið í heild og úrskurða jafnframt um kostnaðarþátttöku ríkissjóðs innan ramma gildandi laga og reglugerðar.“

Hér er um að ræða reglugerð í 52 greinum. Sú reglugerð leggur fræðslustjóranum ákveðnar skyldur á herðar og ábyrgð um að hægt sé að halda uppi eðlilegu skólahaldi í hans fræðsluumdæmi. Ég hygg að það sé brýnt að skýrari skil verði gerð á milli valdsviðs fræðslustjóra og fræðsluráða annars vegar og ráðuneytisins hins vegar þannig að ekki komi til þeir samskiptaörðugleikar sem greinilega hafa átt sér stað í þessu efni. Menntmrn. og ráðherra verða einnig að gera sér ljóst að ábyrgð fræðsluráðanna og fræðslustjóranna er mikil og skyldur þeirra og ábyrgð býsna umfangsmikil samkvæmt grunnskólalögum, reglugerð um sérkennslu og reglugerð um fræðslustjóra og fræðsluráð þannig að það er ekki svo einsýnt sem menntmrh. vildi vera láta í fyrradag hér í ræðustól að þeim bæri skylda til að bukka sig og beygja við hvaða fyrirmælum sem frá ráðuneytinu komi.

Á fræðslustjórana eru lagðar ýmsar skyldur samkvæmt ákvæðum laga og reglugerða og ég tel að í ýmsum atriðum sé þeirra valdsvið rýmra og meira en ráðherra vill vera láta í sínu máli.

Auk þess að leiða fram til vitnis sínu máli greinargerð Sturlu Kristjánssonar frá 1980 var greinargerð fjármálaskrifstofu menntmrn. ein helsta uppistaðan í málsvörn ráðherrans. Þó ekki væri nema fyrir þær ásakanir sem þar koma fram tel ég brýnt að sérstaklega verði rannsakað sannleiksgildi þess sem þar kom fram, auk þess að sjálfsögðu hvort rétt og eðlilega var staðið að brottrekstri fræðslustjórans.

Ég hef ekki haft tækifæri að kynna mér til hlítar allar þær ásakanir sem fram komu hjá fjármálaskrifstofu menntmrn., en ég tel þó af því sem ég best hef kynnt mér hæpið að allar þær fullyrðingar standist svo að ekki sé meira sagt. (Menntmrh.: Talaðu við Örlyg Geirsson flokksbróður þinn. Hann er yfirmaður fjármáladeildarinnar og stutt til hans.) Það gildir mig einu. Þetta er sú greinargerð sem hæstv. ráðh. bar fyrir sig sem málsvörn í þessu máli og mig gildir einu hvort hún er samin af Örlygi Geirssyni eða einhverjum öðrum. (Gripið fram í.) Hef ég orðið eða hæstv. menntmrh.?

Hæstv. menntmrh. bar fyrir sig sem málsvörn í þessu máli þær ásakanir sem koma fram hjá fjármáladeild menntmrn. hver svo sem hefur samið þær, en ég tel að það sé hæpið að þær standist að fullu. (Menntmrh.: Hvað er að? Bendi þm. á eitthvert atriði strax.) Ég held að hæstv. menntmrh. hljóti að vera ljóst að ég er enn í ræðustól og hef ekki lokið máli mínu þannig að ég mun koma að einstökum atriðum í þessu máli, ef hæstv. ráðh. vill láta svo vel að vera rólegur eitt augnablik.

Ég held að það hljóti að vera eðlileg og réttmæt krafa, sem fram hefur komið t. d. frá fræðsluráðinu á Norðurlandi eystra, að þessar sakargiftir verði allar rannsakaðar og sannleiksgildi þeirra kannað. Og ég trúi því ekki að menntmrh. ætli að standa gegn því að rannsókn fari fram í þessu máli eða Sjálfstfl., rannsókn með þeim hætti sem krafa hefur verið gerð um. Ég tel það eðlilegri leið á þessu stigi málsins a.m.k. að rannsóknarnefnd fái þetta verkefni fremur en fara seinvirka dómstólaleið í málinu eins og menntmrh. hefur gert tillögu um. Fjármálaskrifstofa menntmrn. tekur fyrir til að mynda rekstur fræðsluskrifstofu sem eitt sakarefni og ég vitna í ræðu menntmrh, þar sem kemur fram fyrsta sakargiftin, rekstur fræðsluskrifstofu:

„Húsnæði var tekið á leigu og innréttað án vitundar ráðuneytisins“, segir hér. (Menntmrh.: Varaðu þig nú.)

Í þessu sambandi er rétt að spyrja: Ber fræðslustjórum eða fræðsluráðum skylda til að leita samráðs við menntmrn. eða fá leyfi til að taka á leigu húsnæði fyrir fræðsluskrifstofu? (Menntmrh.: Og fjárfesta upp á 4 millj.) Hvernig hafa fræðsluskrifstofur almennt staðið að málum í þessu efni? (Menntmrh.: Alltaf haft samráð við ráðuneytið.) Er það svo víst? (Menntmrh.: Já.) Eftir þeim upplýsingum sem ég hef ber þeim einungis að leita samráðs við ráðuneytið um staðsetningu fræðsluskrifstofunnar. Ég nefni sem dæmi að framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Reykjanesi fól t.d. fræðslustjóranum að finna húsnæði fyrir starfsemi fræðsluskrifstofunnar í því umdæmi. Ég veit ekki til þess að þar hafi þurft að koma til leyfi frá menntmrn. eða ráðherra, en þar var tekið á leigu húsnæði fyrir fræðsluskrifstofu. Vill hæstv. menntmrh. upplýsa hvort í þessu tilfelli hafi t.d. verið leitað samráðs við menntmrn. þegar það húsnæði var tekið á leigu? Og ég vil einnig spyrja að öðru. A.m.k. ein fræðsluskrifstofa á Vestfjörðum er með eigið húsnæði sem keypt var 1983. Og ég spyr: Hvernig var staðið þá að kaupunum? Var aflað heimilda t.d. í fjárlögum eða leyfis fyrir þeim kaupum?

Hæstv. ráðh. taldi fræðslustjóra hafa unnið til saka með því að ráða starfsmenn á fræðsluskrifstofu án vitundar ráðuneytis. Samkvæmt reglugerð um störf fræðslustjóra kemur fram í 8. gr. að fræðslustjóri geri tillögu til fræðsluráðs um ráðningu starfsfólks fræðsluskrifstofa þannig að í raun er það á verksviði fræðsluráðs að ráða starfsfólk fræðsluskrifstofa og sé ég ekki að það þurfi að leita til ráðuneytisins með slíkt.

Af orðum ráðherra hefur einnig mátt skilja að fræðslustjórinn hafi ráðstafað 22 stöðugildum kennara umfram heimildir. Þetta er vitaskuld villandi framsetning hjá ráðherra því ráðning kennara er í verkahring ráðherra og framkvæmd af ráðuneytinu og ég hygg að fræðslustjórinn hafi ekki staðið að slíkum ráðningum. Ég hygg að þetta eigi sér aðra skýringu. Það er vitaskuld rétt, sem fram kom einnig hjá hæstv. ráðh. hér um daginn, að það er í verkahring fræðslustjóra að skipuleggja kennslu. En þeim hefur verið það óhægt um vik mörgum hverjum að skipuleggja kennsluna í sínu umdæmi, til að mynda vegna þess að lítið tillit hefur verið tekið til raunverulegrar þarfar t.d. að því er sérkennslu varðar í fræðsluumdæmi Norðurlands eystra. Hæstv. ráðh. vitnar oft til þess þegar hann talar um sérkennsluna og niðurskurð á henni: „Ja, ég get raunverulega ekkert að þessu gert. Það er fjárveitingavaldið. Það er Alþingi.“ En hvað kemur í ljós? Er það Alþingi sem hefur skert áætlaða þörf sem fræðslustjórarnir og fræðsluráðin hafa sett fram? Er það Alþingi, er það Fjárlaga- og hagsýslustofnun eða er það menntmrn.? Ég hygg að það hafi komið í ljós og þar er vitnað til hagsýslustjóra, Magnúsar Péturssonar, að Fjárlaga- og hagsýslustofnunin hafi ekki skert áætlanir frá menntmrn. um grunnskóla. Þær hafa ekki verið skornar niður hjá hagsýslu s.l. 2-3 ár. Þetta segir okkur að áætlanirnar eru skornar niður í sjálfu menntmrn. og það þýðir lítið fyrir hæstv. menntmrh. að vísa á Fjárlaga- og hagsýslustofnun, fjárveitingavaldið eða Alþingi að því er þennan niðurskurð varðar. Þetta hlýtur að vera ákvörðun hæstv. menntmrh., að hann telji að þörfin fyrir sérkennsluna sé ekki meiri en þær áætlanir sem hann og hans ráðuneyti leggja fyrir Fjárlaga- og hagsýslustofnun.

Í ræðu sinni á þriðjudag taldi ráðherra á engan hátt forsvaranlegt að láta það endurtaka sig óátalið ár eftir ár að launagreiðslur séu meiri en ráðuneytið reiknaði með, það verði til þess að akstur og annar kostnaður, sem er fullkomlega innan áætlunar, verði ekki greiddur. Lítum nánar á þetta.

Ég hygg, herra forseti, að sé svo sé ekki hægt að skrifa slíkt alfarið á reikning fræðslustjórans. Hann hefur skyldum að gegna samkvæmt til að mynda ákvæðum reglugerðar um störf fræðslustjóra í því efni sem ég vitnaði í. Í 43. gr. þeirrar reglugerðar stendur að fræðslustjóri skuli fylgjast með því að vinnuframlag starfsmanna skóla og launauppgjör við þá sé í samræmi við gildandi kjarasamninga. Ég tel að fræðslustjóranum beri að láta slíkt hafa ákveðinn forgang að standa skil á greiðslum til starfsmanna samkvæmt gildandi kjarasamningi. Ef fjármagn er svo naumt skammtað að það rúmast ekki innan þess fjármagns sem til ráðstöfunar er samkvæmt fjárlögum er niðurstaðan sú að það bitnar á öðrum þáttum skólastarfsins eins og skólaakstri því að launin eiga að hafa forgang. Og hann hefur skyldum að gegna samkvæmt ákvæðum í reglugerð sem menntmrh. hefur sett að launin skuli greidd samkvæmt ákvæðum kjarasamninga. Ég hygg að hér sé a.m.k. um eina skýringu að ræða á því hvers vegna fræðsluumdæmið hefur ekki getað haldið sér við ramma fjárlaga.

Fleira mætti til taka sem fram kom í máli ráðherrans, en þetta ætti að nægja til að sýna fram á að það er ærið tilefni til að málið allt verði rannsakað sérstaklega því það er óviðeigandi með öllu að engin niðurstaða fáist. Fullyrðing standi gegn fullyrðingu og fræðslustjórinn þurfi með réttu eða röngu að sitja uppi með allar þær ásakanir sem menntmrh. hefur borið á hann í þessu máli.

Að því er varðar grunnskólana og sérkennsluna, sem hér hefur mikið verið rætt og framkvæmd hennar, lét hæstv. menntmrh. allsérkennileg orð falla hér um daginn og ég verð að segja að mér komu þau mjög á óvart. Þar ræddi hæstv. menntmrh. um sálfræðing á hverjum fingri hjá fræðsluumdæmunum. Hann virðist, ef marka má orð hans, hafa horn í síðu þeirra norðanmanna þegar hann orðar það svo, með leyfi forseta, að „þeir hafi svo snarplega leitað að börnum með sérþarfir á Norðurlandi eystra að þeir eru búnir að finna helmingi fleiri börn sem þann veg stendur á um en í Reykjanesi“. Hvað er nú athugavert við það, hæstv. menntmrh., að fræðslustjóri og fræðsluráð sinni skyldum sínum og leiti uppi börn sem þurfa á sérkennslu eða stuðningskennslu að halda? Þeir eiga frekar að fá hrós fyrir það en hitt.

Hæstv. ráðh. hefur tvívegis vitnað í orð fyrrv. ráðuneytisstjóra og talið það til stuðnings sínu máli. Hann vitnaði með þessum hætti í ráðuneytisstjórann fyrrv., með leyfi forseta:

„Sá ósiður Alþingis er orðinn býsna gamall að marka stefnu með setningu laga sem það síðan treystist ekki til að standa við þegar kemur til fjárveitinga. Af þessari tegund þykjustulaga er orðinn urmull og ein þeirra eru grunnskólalögin.“

Síðan heldur ráðherrann áfram og vitnar áfram í orð ráðuneytisstjórans, en segir þegar hann hefur lokið upplestrinum: „Þessi orð vil ég öll gera að mínum.“ Hann undanskildi þar ekkert. Hann vildi gera öll þessi orð ráðuneytisstjórans að sínum og þar á meðal líka þau orð ráðuneytisstjórans að grunnskólalögin væru bara þykjustulög. Og er það ekki eitt af því sem t.d. fræðslustjórinn hefur verið að halda fram, að í raun séu þetta þykjustulög af því að það er ekki hægt að framkvæma þau?

Ég hygg að þetta mál allt staðfesti að það sé nauðsynlegt að framkvæmd sérkennslunnar verði brotin til mergjar, en um það hafa þm. Alþfl. lagt fram skýrslu hér á Alþingi. Ég nefni sem dæmi um nauðsyn þess að slík úttekt verði gerð að ég tel að það hafi verið lagt fram hér mjög villandi þingskjal sem svar við fsp. Steingríms Sigfússonar um sérkennsluna. Þar er blandað saman stuðningskennslu og sérkennslu innan almenna grunnskólans sem skekkir alla myndina um hvernig sérkennslumagni er skipt innan hvers fræðsluumdæmis.

Herra forseti. Ég skal fara að ljúka máli mínu. Hæstv. menntmrh. hefur mikið talað um erfið samskipti við fræðslustjórann, en ég hygg að það sé ekki alfarið hægt að skrifa samskiptaörðugleika á reikning fræðslustjórans. Hæstv. ráðh. hefur til að mynda talað um það í ræðu sinni að fræðslustjórinn og fræðsluráðið hafi ákveðið að slíta öllu samstarfi og samvinnu við menntmrh. og þeir hafi lokað öllum leiðum. En á nú ekki hæstv. menntmrh. svolítið sök á þessu sjálfur? Hefur hann ekki sjálfur lokað leiðum? Hefur hann til að mynda svarað öllum bréfum og erindum sem frá fræðsluráðinu fyrir norðan hafa komið eða fræðslustjóranum þar sem þeir eru að greina honum frá ástandi mála, skólamála fyrir norðan? Hefur hann þar allt á hreinu, hæstv. ráðh., að hann hafi svarað öllum bréfum sem þar hafa komið fram? Hefur ekki hæstv. ráðh. sjálfur lokað einhverjum leiðum?

Hæstv. menntmrh. viðhafði nokkur orð áðan sem ég tel nokkuð athyglisverð. Hann telur sig hafa borið fram sættir í þessu máli og ef ég heyrði rétt til hans áðan sagði hann að hann væri tilbúinn að sættast ef menn væru tilbúnir að draga til baka orð um valdníðslu eða að ráðherra væri að brjóta lög. Ef ég hef skilið þessi orð rétt finnst mér að ráðherrann verði að skýra nánar hvað hann á við. Á ráðherra við að hann sé tilbúinn að sættast á rannsóknarnefnd ef menn eru tilbúnir til að draga til baka orð um valdníðslu og að ráðherrann hafi brotið lög? Er hann tilbúinn að sættast á það að víkja fræðslustjóranum aðeins úr embætti um stundarsakir meðan mál hans er rannsakað ef menn eru tilbúnir að draga til baka orð um valdníðslu eða að ráðherra hafi brotið lög? Eða eru sættir hans fólgnar í því að hann sé alfarið tilbúinn að draga uppsögn sína til baka? Ég tel að ráðherra þurfi að skýra þessi orð nokkru nánar, hvað hann meinar með sáttum.

Og í lokin þetta: Steingrímur J. Sigfússon vitnaði til bréfs menntmrn. frá 1984. Árið 1984, þremur árum eftir að skýrsla sú var skrifuð sem menntmrh. ber helst fyrir sig nú sem málsvörn í þessu máli. Það kemur fram hjá menntmrn., undirskrifað af Knúti Hallssyni og Sólveigu Ólafsdóttur, væntanlega fyrir hönd þáv. menntmrh., að ráðuneytið beri fullt traust til Sturlu Kristjánssonar sem fræðslustjóra Norðurlandsumdæmis eystra. Auðvitað hlýtur þáv. menntmrh. að hafa vitað um þá skýrslu sem ráðherra ber helst fyrir sig sem málsvörn í þessu máli. Eigi að síður kemur hér fram að ráðuneytið og þá væntanlega þáv. menntmrh. líka ber fullt traust til Sturlu sem fræðslustjóra Norðurlandsumdæmis eystra. Ég tel að það sem fram kemur í þessu bréfi menntmrn. frá 1984 sanni hvað best að málatilbúnaður ráðherrans er allur á helst til ótraustum grunni byggður.