26.01.1987
Efri deild: 34. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2513 í B-deild Alþingistíðinda. (2317)

291. mál, leigunám gistiherbergja

Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):

Virðulegi forseti. Þegar ákveðið var að halda hinn svonefnda leiðtogafund hér á landi kom fljótlega í ljós að erfiðleikar mundu verða með gistirými. Var haft samband við öll helstu hótelin og þau beðin að rýma eins mikið af gistiherbergjum og frekast væri kostur. Fljótlega varð þó ljóst að þau áttu í verulegum erfiðleikum með slíkt og kom fram ósk þess efnis að til að auðvelda að rýma hótelin yrðu sett bráðabirgðalög um leigunám gistiherbergja á eftirgreindum hótelum: Hótel Esju, Hótel Holti, Hótel Loftleiðum og Hótel Sögu. Ákveðið var af ríkisstjórninni að verða við þessu, enda ljóst þá eftir allítarlega athugun að hjá því yrði ekki komist ef hýsa þyrfti þann fjölda sem til fundarins var talið að mundi koma. Reyndar var þetta gistirými ekki nema brot að því sem þörf var fyrir og eingöngu ætlað fyrir þá aðila sem væru í fylgdarliði leiðtoganna.

Hér er því flutt frv. til laga um leigunám gistiherbergja o.fl. vegna fundar leiðtoga Bandaríkja Ameríku og Sovétríkjanna og er þar um að ræða staðfestingu á bráðabirgðalögum.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. allshn.