26.01.1987
Efri deild: 34. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2514 í B-deild Alþingistíðinda. (2321)

295. mál, fjáröflun til vegagerðar

Fjármálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um fjáröflun til vegagerðar. Frv. felur í sér að gjalddagar verða tveir á innheimtu þungaskatts að því er tekur til bifreiða sem eru léttari en fjögur tonn og greiða ekki kílómetragjald samkvæmt mæli. Eins og nú háttar til samkvæmt þeim lögum sem í gildi eru er þungaskattur á þessum bifreiðum innheimtur í einu lagi. Gjalddaginn er 1. janúar ár hvert, en eindaginn 1. apríl.

Mikillar óánægju hefur gætt meðal gjaldenda með að ekki skuli vera mögulegt að greiða skattinn a.m.k. í tveimur eða jafnvel fleiri áföngum á ári hverju. Í því frv. sem hér liggur fyrir er gert ráð fyrir að fjölga gjalddögum í tvo þannig að gjaldtímabilin á hverju ári verði framvegis tvö. Hið fyrra frá 1. jan. til 30. júní með gjalddaga 1. jan. ár hvert og hið síðara 1. júlí til 31. des. með gjalddaga 1. júlí ár hvert. Á þennan hátt er að því stefnt að dreifa greiðslubyrði vegna þungaskattsins á sanngjarnari hátt en verið hefur.

Frv. felur ekki í sér neina breytingu á heildartekjum af þungaskatti á þessu ári, en þær eru áætlaðar 160 millj. kr. samkvæmt fjárlögum þessa árs af þeim bifreiðum sem greiða árgjald þungaskattsins. Frv. gerir enn fremur ráð fyrir því að það komi, verði það samþykkt á hinu háa Alþingi, til framkvæmda þegar á þessu ári. Fyrir því mælist ég til þess að hv. þin deild hraði svo sem kostur er afgreiðslu málsins.

Ég tel að ekki þurfi að fara fleiri orðum hér um. Hér er um að ræða veigamikinn tekjustofn og eðlilegt að mínu mati að skipta innheimtu skattsins á tvo gjalddaga til að jafna greiðslubyrðinni með eðlilegum hætti á þá sem skattinn greiða. Ég legg því til, frú forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.