26.01.1987
Neðri deild: 37. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2516 í B-deild Alþingistíðinda. (2327)

174. mál, stjórnarskipunarlög

Flm. (Ólafur Þ. Þórðarson) (frh.):

Herra forseti. Ég mun nú reyna að vekja athygli á þeirri viðleitni sem átt hefur sér stað hér innanlands til að dreifa valdi aftur út til héraðanna. Það má segja að þetta hafi verið gert eftir tveimur leiðum, annars vegar þeirri leið að ríkisreknar stofnanir kæmu þar upp útibúum og þessi útibú störfuðu, að vísu missjálfstætt eftir stofnunum. Vegagerðin er nokkuð gott dæmi um þetta. Vissulega eru þessi útibú til mikilla bóta, en þau eru engu að síður í miklu tengslaleysi, ef svo mætti komast að orði, við sveitarstjórnir þessara svæða og mjög misjafnt viðhorf þeirra sem þar starfa hvort taka beri eitthvert tillit til sveitarstjórna.

En við erum einnig með í okkar fræðslulögum dálítið sérstætt kerfi. Þar höfum við komið upp útibúum samkvæmt grunnskólalöggjöfinni sem eru með þeim hætti að það er starfandi stjórn yfir hverju umdæmi, yfir hverju útibúi ef svo mætti komast að orði, en framkvæmdastjórinn aftur á móti er embættismaður ríkisins. Þetta kerfi gengur aldrei upp einfaldlega vegna þess að enginn getur þjónað tveimur herrum og það má segja að þær umræður sem hafa verið í þinginu að undanförnu staðfesti þetta. Að vera annars vegar með stjórn yfir sér sem er skipuð af sveitarfélögunum og eiga hins vegar að lúta forsjá ráðuneytisins hlýtur að leiða til þess að það verði átök hjá viðkomandi starfsmanni um það hvorum beri að fylgja að málum ef þessir aðilar eru ekki samstíga. Ég held að það sé umhugsunarefni fyrir þá sem hafa hlýtt á þá umræðu hvort það sé ekki rétt hjá þeim að gera að tillögu sinni það sem hæstv. menntmrh. lagði til þegar hann var hér á Alþingi og þessi lög voru til umfjöllunar á sínum tíma, en það var að fræðslustjórinn væri starfsmaður sveitarfélaganna. Það var hans skoðun þá og hlýtur að vera rökrétt að fyrst stjórnin er í því tilfelli heimamanna sé eðlilegt að fræðslustjórinn sé starfsmaður þeirrar stjórnar.

Ég get um þetta hér vegna þess að það eru margir sem segja í dag að þriðja stjórnsýslustigið sé ekki nauðsynlegt. Það sé hægt að koma a fót valddreifingu í gegnum sveitarfélögin eða með því að koma upp útibúum. En þeim mun meir sem við skoðum þær leiðir, þeim mun augljósara virðist það vera að þær rekast á þau markmið sem við erum að setja okkur. Ef á að færa meiri fjármunalega ábyrgð til þeirra sem eiga að bera ábyrgð á stjórnuninni hlýtur það að vera nokkuð viðurkennt að þriðja stjórnsýslustigið þurfi að koma til sögunnar. Ef fræðslustjórinn t.d. væri ráðinn starfsmaður stjórnar fræðsluskrifstofanna má segja sem svo að fræðsluskrifstofurnar væru að taka fjármálalegar ákvarðanir meira og minna sem menntmrn. ætti fyrst og fremst að sjá um að útvega peninga til og ekki neitt samræmi á milli ákvörðunarvaldsins um fjármálalega ákvörðun og stjórnunarinnar.

Ég tel að þeir sem nú hika við að styðja þriðja stjórnsýslustigið verði að fara að gera sér grein fyrir því og m.a. þeir sem setið hafa lengi á þingi og fylgst með undanhaldi hinna dreifðu byggða svona langan tíma og gera það upp við sig að taka þessa ákvörðun ekki. Það er líka ákvörðun. Hvort sú ákvörðun er byggð á því að menn nenni ekki að hugleiða þessa hluti, vilji koma sér undan því að vera bendlaðir við einhverja ákvörðun, má deila um, en það er ekkert minni ákvörðun að taka ákvörðun um að gera ekkert. Það er hægt að setja það upp í línurit og það er hægt að sýna fram á að slík ákvörðun þýðir í framkvæmd að landsbyggðin mun ekki á næstu árum halda þeim mannafla sem hún hefur í dag og því síður að hún muni halda því hlutfalli af mannaflanum sem hún heldur í dag.

Ég veit ekki hvort Alþingi Íslendinga hefur áhuga á því að iðka þá sjálfsgagnrýni, ef svo mætti komast að orði, að meta hve mikið af þessum ákvörðunum beinlínis stuðlar að því að auka hraðann í þessari þróun. Við höfum vissulega Byggðastofnun og það fer ekkert á milli mála að hún vinnur gegn því að allt safnist saman á einum stað, en flestar ákvarðanir sem miða að því að koma nýjum stofnunum á fót vinna þveröfugt.

Það var eitt frv. strand á Alþingi Íslendinga í fyrravetur, náðist ekki samstaða í þinginu um að fjölga stofnunum. Hvað haldið þið að hafi gerst? Ríkisstjórnin afgreiddi það eftir að þingið var farið heim vegna þess að það verður kjarnorkuslys í Rússlandi. Og ég er ekki búinn að sjá að með því kerfi sem við búum við geti nokkur þm. landsbyggðarinnar komið í veg fyrir að þessi þróun haldi áfram. „Það er sama þótt þú sért góður maður og gegn og gangir í hlé eins og drengur, saklaus og feiminn“, sagði Steinn Steinarr og kannske á þetta við hv. ritara sem nú gengur úr salnum, ágætan dreng, þm. Norðurl. e. Ég efa ekki að viljinn er til staðar að verja það að Norðurl. e. haldi velli, þar eflist byggð og mannfjöldi verði svipaður í hlutfalli af þjóðinni og verið hefur. Spurningin er aðeins sú: Er möguleiki samkvæmt þeim leikreglum sem við höfum sett upp að koma í veg fyrir þessa þróun? Ég held að það verði ekki stöðvað nema menn sameinist um að koma á þriðja stjórnsýslustiginu. (HBl: Hver sagði að þm. hefði verið að fara út úr salnum?) Það gerist ekki alltaf en stundum gerist það að þeir sem eru í ræðustól hafa þau áhrif á háttalag manna hér að þeir hætti við að yfirgefa salinn og það gerðist í þessu tilfelli.

En hvað sem því líður og þó að við blöndum gamni saman við þá alvöru sem hér er á dagskrá vænti ég þess að mönnum sé ljós sú mikla alvara sem liggur á bak við þá vinnu sem gerði kleift að þetta frv. er lagt fram. Menn settust niður og hugleiddu hvað það var sem lýðræðisþjóðir í Evrópu og Bandaríkjunum höfðu sem mótvægi gegn miðstýringunni. Hvað höfðu þessar þjóðir sem mótvægi gegn miðstýringunni? Það kemur í ljós, ef þetta er skoðað, að þær þjóðir höfðu þriðja stjórnsýslustigið sem mótvægi gegn miðstýringunni og þó að við séum fámennir standast þau rök ekki að vegna fámennisins eigi ekki að vera hér þriðja stjórnsýslustigið. Þetta voru nefnilega rökin sem voru notuð á okkur í sjálfstæðisbaráttunni: Þessi þjóð er of fámenn til að geta verið sjálfstæð. Það breytir engu um leikreglurnar hvort þjóðin er fjölmenn eða fámenn. Við getum rekið hér lýðræðisþjóðfélag þó að við séum fámenn. En ef við teljum að við þurfum ekki að taka kerfið allt upp, teljum að við sleppum með því að hafa bara sveitarfélög og ríkisvald, erum við að neita því að taka tillit til sögulegra staðreynda um uppbyggingu lýðræðisþjóðfélaganna í kringum okkur. Þá erum við að reyna að koma okkur undan því að bera ábyrgð á byggðaþróuninni í landinu.

Ég vil minna á að í skýrslu Byggðanefndar, sem dreift hefur verið til þm., kemur fram að fulltrúar allra flokka sem þar sátu sjá á því ýmsar ljósar hliðar að Reykjavíkurborg hafi náð þeirri stærð sem hún hefur náð og geti þess vegna í dag þjónað vel sínu hlutverki. En ef þróunin heldur áfram á þann veg að ýmis landsvæði tapi fólki í miklum mæli, eins og allt bendir til, horfir illa. Þá horfir í það, hvort sem mönnum líkar betur eða verr, að svo gæti farið að þetta land ætti enga höfuðborg. Og hvers vegna ætti það enga höfuðborg? Vegna þess að rökfræðilega séð getur aðeins verið til höfuðborg ef til eru fleiri borgir. Verði hún eina borg Íslands er hún þar með ekki lengur höfuðborgin. Hún er borgin. Og borgríki sögunnar hafa fæst staðist. Þau hafa flest liðið undir lok. Það geta menn einnig kynnt sér með því að lesa spjöld sögunnar.

Nú vil ég ekki, herra forseti, hafa þetta mál lengra. Ég vona að þetta mál fari til nefndar sem fyrst. Það er búið að vera lengi á dagskrá. Og ég vona að sú nefnd, allshn. Nd., sjái sér fært að afgreiða málið til þingdeildarinnar á þessu þingi og þar sé hægt að taka ákvörðun um hvort menn vilja gera þá veigamiklu breytingu sem hér er verið að leggja til og hvort menn almennt vilja taka ákvörðun um að breyta íslensku stjórnarskránni. En svo vel vill til að formaður allshn. Nd., hv. 2. þm. Reykn., hefur sennilega unnið meira að stjórnarskrármáli en aðrir Íslendingar fyrir þá stjórnarskrárnefnd sem hefur starfað lengi með ýmsum formönnum og mætti satt best að segja fara að skila endanlegu áliti.

Umræðu frestað.