26.01.1987
Neðri deild: 37. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2523 í B-deild Alþingistíðinda. (2330)

293. mál, stjórnsýslulög

Gunnar G. Schram:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls langar mig til að segja nokkur orð í framhaldi af ræðu forsrh. um það frv. til stjórnsýslulaga, 293. mál, sem hér er á dagskrá.

Ég fagna því að ríkisstjórnin hefur lagt fram þetta frv. og forsrh. af hennar hálfu mælt fyrir því á fundi hér í deildinni í dag. Það er vegna þess að hér er um mjög tímabært, nauðsynlegt og gagnlegt mál að ræða sem er setning almennrar stjórnsýslulöggjafar hér á landi. Slík löggjöf hefur fram að þessu ekki verið á okkar lögbókum og má segja að í því hafi falist skortur á eðlilegu og sjálfsögðu réttaröryggi fyrir hinn almenna borgara þessa lands. Með því frv. sem liggur fyrir er bætt úr því.

Eins og fram kemur í grg. sem fylgir þessu frv. hefur málinu verið hreyft tvisvar sinnum á Alþingi áður. Á þinginu 1980-1981 flutti Ragnhildur Helgadóttir þáltill. um undirbúning almennra stjórnsýslulaga og á fyrsta þingi eftir síðustu kosningar, á þinginu 1983 flutti ég ásamt nokkrum þm. öðrum frá öllum stjórnmálaflokkum þáltill. sem var þá 112. mál þess þings, 107. löggjafarþingsins, um undirbúning að setningu almennrar stjórnsýslulöggjafar.

Eins og fram kemur í grg. með þessu frv. var sú þáltill. samþykkt hér á hinu háa Alþingi þann 20. júní 1985.

Það ber að fagna því að ríkisstjórnin hefur í samræmi við þessar viljayfirlýsingar Alþingis í þingsályktunarformi fengið sérfræðinga til þess að undirbúa þá löggjöf og semja það frv. sem hér liggur frammi. Þar er að minni hyggju farin alveg rétt leið. Hér er um tiltölulega fáar grundvallarreglur um framkvæmd mála í stjórnsýslunni að ræða en ekki mjög ítarleg ákvæði um einstaka málaþætti í því efni. Aðalatriðið er að við höfum í íslenskri löggjöf skýrar grundvallarreglur um meginatriðin, um meginefnisþættina sem marka hér stefnuna.

Það er vitanlega ljóst að nauðsynlegar eru skýrar og ótvíræðar reglur um stjórnsýslu ríkisins til þess að tryggja réttaröryggi borgaranna í samskiptum þeirra við yfirvöld. Fram til þessa hefur skort í löggjöf, eins og ég sagði áðan, reglur um málsmeðferð í stjórnsýslunni, bæði form- og efnisreglur, varðandi undirbúning mála og úrlausn þeirra, þar á meðal um rétt þegnanna til þess að fylgjast með meðferð mála hjá stjórnvöldum og koma sjónarmiðum sínum á framfæri og þá andmælum við meðferð og ákvörðunum stjórnvalda eftir því sem þeim hefur þótt efni standa til.

Íslenskur stjórnarfarsréttur hefur m.ö.o. byggst hingað til að mjög miklu leyti á óskráðum reglum og viðurkenndar stjórnsýslureglur varðandi málsmeðferð hafa verið tiltölulega fáar. Af þessu hefur leitt að þeir sem hafa þurft að leita réttar síns hjá stjórnvöldum, hvort sem það er í ráðuneytum eða hjá hinum ýmsu embættismönnum ríkisins, hafa oft staðið höllum fæti. Þeim hefur iðulega ekki verið ljóst hver réttur þeirra er við málsmeðferðina, m.a. hvort þeir megi koma á framfæri skoðunum sínum og sjónarmiðum við meðferð þeirra eigin mála í ráðuneytum eða hjá opinberum embættismönnum og þá ekki síður hvort þeir megi koma fram sjónarmiðum sínum við ákvarðanatöku og þá í hve ríkum mæli. Þetta hefur verið mikill galli í okkar réttarfari og gefur auga leið að öll réttarstaða borgaranna gagnvart ríkisvaldinu, gagnvart hinu máttuga ríkisvaldi, hefur orðið mun lakari en æskilegt væri.

Það eru þessi grundvallarsjónarmið sem lágu að baki þeirri þáltill. sem flutt var af okkur nokkrum þm. á þinginu 1983-1984 og samþykkt var.

Það eru einmitt þessi sjónarmið sem fram koma þar og það er tekið á þessum málum í því frv. sem hér liggur fyrir. Ég ætla ekki að rekja það efnislega. Það er ekki við hæfi hér við 1. umr. Til þess gefst tækifæri eftir að frv. hefur verið kannað í allshn. Nd. en það fer nú þangað til meðferðar. Í megindráttum má segja að hér sé um mikið framfaraspor að ræða og, eins og ég gat um í upphafi máls míns, ástæða til þess að fagna því að þetta frv. skuli vera komið fram sem hér var kynnt af forsrh. Ég tek síðan undir þá von að af því verði að þetta frv. verði samþykkt sem lög á þessu Alþingi, áður en því verður slitið.