26.01.1987
Neðri deild: 37. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2534 í B-deild Alþingistíðinda. (2337)

294. mál, umboðsmaður Alþingis

Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):

Virðulegi forseti. Mér þykir rétt að koma á framfæri fáeinum skýringum til viðbótar því sem ég sagði áðan, sérstaklega með tilvísun til þess að það liggja fyrir tvö frv.

Frv. það sem hv. þm. vísaði til og ég rakti reyndar nokkuð var flutt af Ólafi Jóhannessyni 1973-1974. Ég held að ég fari rétt með að það sé óbreytt flutt nú af hv. þm. Það er rétt að meginmunur á þessum tveimur frv. felst í því sem ég lýsti áðan og fram kemur í 1. gr., um kjör umboðsmanns, en það er einnig annað sem felur í sér nokkurn mun. Í frv. því sem ég mælti fyrir er gert ráð fyrir að sameinað Alþingi setji reglur um störf umboðsmanns, en í eldra frv. er gert ráð fyrir að sameinað þing kjósi fimm manna nefnd til að fjalla um málefni umboðsmanns.

Ég tek undir að þetta eru ekki mjög miklar breytingar. En til viðbótar þessu er ýmis framsetning nokkuð frábrugðin, kannske orðalagsmunur og fleira þess háttar sem eru ekki efnislegar breytingar. Þó vil ég geta þess að þegar vinna að þessu máli hófst fyrir þremur árum eða rúmlega það kom mjög til tals að flytja stjfrv. frá 1973-1974 nánast óbreytt, en horfið var frá því. Þeir sérfræðingar sem til voru kvaddir töldu að þar þyrfti að breyta ýmsum atriðum, eins og nú hefur verið rakið, og alveg sérstaklega lögðu þeir áherslu á að frv. til stjórnsýslulaga fylgdi. Það er raunar sú vinna sem fyrst og fremst hefur tafið að þetta frv. um umboðsmann væri flutt. Það var niðurstaða þeirra að hann væri, eins og ég sagði áðan, nánast á flæðiskeri staddur ef ekki yrðu sett lög um meðferð mála í stjórnkerfinu.

En ég tek undir það með hv. þm. um leið og ég læt þessar frekari skýringar koma fram, sem skýra jafnframt hvers vegna fyrra frv. var ekki flutt, að það er einlæg von mín að allshn. fjalli nú um þetta mál. Hún hefur þegar haft nokkuð lengi til meðferðar það frv. sem legið hefur fyrir þinginu og ég vænti þess að það sé þegar komið í skoðun. Ætti það að flýta fyrir meðferð málsins.