27.01.1987
Sameinað þing: 41. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2536 í B-deild Alþingistíðinda. (2344)

Fjarvistir þingmanna

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Þegar 1/5 þm. er kominn með fjarvistarleyfi hlýtur það að vera umræðuefni hér á þinginu hvort forseti hafi kynnt sér 34. gr. fundarskapa, en þar segir svo, með leyfi forseta:

„Skylt er þingmönnum að sækja alla þingfundi nema nauðsyn banni. Forföll skal tilkynna forseta svo fljótt sem unnt er og metur hann nauðsynina.“

Það hlýtur að vera eðlilegt að þeir sem fara af landi brott um lengri tíma kalli inn varamenn. Geri þeir það ekki skapa þeir erfiðleika við nefndarstörf í þinginu þar sem svo er ákveðið að ákveðinn fjöldi þm. þurfi að mæta svo að nefnd geti haldið fund og í sumum tilfellum gerist það að það eru tvær nefndir samtímis að störfum sem viðkomandi þm. á sæti í. Ég tel að það sé mikil nauðsyn að einhver heildarregla sé sett um hversu lengi þm. geta verið með fjarvistarleyfi án þess að kalla inn varamann. Og ég vil beina þeim orðum mínum til forseta að hann upplýsi hve stór hópur þeirra sem hér eiga hlut að máli er erlendis og hve lengi þeir aðilar munu verða því að vissulega hlýtur á það að reyna þegar jafnstór hópur er orðinn fjarverandi og 1/5, hvort það sé forsvaranlegt að standa þannig að málum að ekki séu kallaðir inn varamenn.