27.01.1987
Sameinað þing: 41. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2549 í B-deild Alþingistíðinda. (2364)

263. mál, aðstoð við foreldra veikra barna

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Mig langaði í þessu mikilvæga máli að biðja ráðherra að svara aðeins ítarlegar. Hún benti á tvo kosti. Annar er húsnæði á Leifsgötu sem hefur verið gefið. Mig langaði að spyrja nánar um hvenær það húsnæði kemst í gagnið og hverjum ber það hlutverk að innrétta eða fullgera það húsnæði þannig að það verði íbúðarhæft. Í öðru lagi nefndi hún þær umbreytingar sem eiga að verða á því húsi sem áður var Hótel Hof og Rauðakrossheimilinu er ætlað að flytja í. Hvenær er áætlað að það hús verði tilbúið?