23.10.1986
Sameinað þing: 7. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í B-deild Alþingistíðinda. (237)

16. mál, jöfnun húsnæðiskostnaðar

Flm. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Eins og þingheimi er kunnugt hefur ákveðinn fjöldi fólks lent í miklum hrakningum, ef ég má orða það svo, vegna þess hvernig kjaraskerðing og síhækkandi lánskjaravísitala lék þetta fólk eftir að það hafði aflað sér húsnæðis.

Ef við skoðum þessi mál í heild sinni kemur í ljós að þeir sem öfluðu sér húsnæðis fyrir árið 1980 nutu í rauninni þess sem við getum kallað „aðstoðar verðbólgu“ við að komast yfir þetta íbúðarhúsnæði. Þeir sem munu afla sér íbúðarhúsnæðis á þessu ári og næstu árum munu væntanlega njóta góðs af þeim endurbótum sem nú hefur verið ákveðið að gera á húsnæðislánakerfinu. Þá situr eftir hópur fólks, þ.e. sá hópur fólks sem aflaði sér íbúðarhúsnæðis á árunum 1980-1985. Þessi hópur fólks varð fyrir því að saman fór mikil kjaraskerðing og síhækkandi lánskjaravísitala. Afleiðingin af því varð sú að þetta fólk varð í rauninni meira og minna eignalaust fyrir þá sök eina að hafa aflað sér íbúðarhúsnæðis á þessum árum.

Ég tel og við flm. þessarar till. að það sé ótækt að hópum í þjóðfélaginu sé mismunað með þessum hætti, sem felst í því sem ég hef lýst, að einn hópur fólks, sá sem vann það eitt til óhelgis, ef ég má orða það svo, að afla sér húsnæðis á árunum 1980-1985, skuli í reynd verða verr staddur eignalega en aðrir þjóðfélagshópar. Vegna þess að þetta gerðist í raun fyrir tilstilli löggjafarvaldsins og ríkisstjórnarinnar vegna þeirrar efnahagsstefnu sem fylgt var teljum við að það sé hlutverk almannavaldsins, hlutverk þjóðfélagsins að jafna þennan mun.

Það hafa verið í gangi svokölluð neyðarlán og lánalengingar. En ef við hugsum þetta mál til enda dugar það ekki vegna þess að það sem þetta fólk lenti í var í rauninni alveg sérstök og einstök skuldasöfnun vegna þeirrar stefnu sem uppi var í þjóðfélagsmálum og efnahagsmálum. Við skulum ekki rífast um þá stefnu. Við skulum bara líta á staðreyndir. Og vegna þess að hér er um hreina skuldasöfnun að ræða hefur þetta fólk orðið meira og minna eignalaust og þá dugar heldur ekki að ætla sér að jafna muninn með lánalengingum. Það dugar ekki vegna þess að hjá mörgu þessu fólki eru ekki einu sinni til veð fyrir slíkum lánum og það dugar ekki vegna þess að eignarstaða þess hefur verið skert miðað við aðra þjóðfélagshópa. Það er af þessum orsökum sem sú tillaga er flutt sem ég mæli hér fyrir.

Samkvæmt henni er gert ráð fyrir því að sú mismunun sem hér um ræðir verði jöfnuð að hluta til með því að almannafé verði varið sérstaklega til þess. Við höfum ekki komið auga á önnur ráð og við teljum reyndar að það hljóti að hafa verið á ábyrgð almannavaldsins sem þetta kom fyrir og þess vegna sé ábyrgðin þess. Till. gerir þess vegna ráð fyrir því að hluti af þeirri skuldaaukningu sem þessi hópur fólks hefur orðið fyrir verði endurgreiddur. Auðvitað verður það ekki gert með því að skrifa til bankanna og lánastofnananna og segja: Nú lækkið þið lánin. Það verður að útvega sérstakt fé í þessu skyni og það verður að úthluta því beinlínis til að greiða niður þessi lán til að lækka þau. Við leggjum til að til viðmiðunar verði að 50% af skuldaaukningu viðkomandi persóna umfram almenna hækkun kaupgjalds verði endurgreidd og þessi endurgreiðsla fari þá beinlínis til að lækka skuldir þessara aðila eins og tilgreint er í till. Okkur er ljóst að þetta er vandasamt og flókið mál þannig að það þarfnast sérstaks undirbúnings og þess vegna er í till. gert ráð fyrir að félmrh. skipi nefnd til að setja reglur um framkvæmdina samkvæmt þeim meginlínum sem fram eru lagðar í till.

Það er hugmynd okkar að Húsnæðisstofnun annist framkvæmdina samkvæmt umsóknum frá þeim aðilum sem hér um ræðir, enda yrði hluta af ráðstöfunarfé Húsnæðisstofnunar varið til þessa verkefnis. Ályktunartillagan er sem sagt á þá leið að fela félmrh. að tilnefna fimm menn í nefnd til að setja reglur um þetta efni fyrir þann hóp fólks sem aflaði sér íbúðarhúsnæðis á árunum 1980-1985 og varð fyrir mikilli hækkun skulda af íbúðaröfluninni vegna ytri aðstæðna sem ekki voru á valdi þessara aðila.

Við setningu reglnanna um þennan endurgreiðsluhluta er gert ráð fyrir að það verði tekið mið af svofelldri meginstefnu. Að til grundvallar skuli leggja hækkun á skuldum sem sannanlega verði raktar til íbúðakaupa eða íbúðabygginga á þessu tímabili, að hámarksviðmiðun sé 2,5 millj. kr. skuld á verðlagi í des. 1985 þannig að þetta fari ekki ótakmarkað upp ef menn hafa keypt sér mjög dýrt húsnæði.

Í þriðja lagi, eins og ég rakti, nemi endurgreiðsluhluti 50% af þeirri hækkun viðkomandi skulda sem átt hefur sér stað fram til 31. des. 1985 umfram hækkun almenns kaupgjalds í landinu.

Í fjórða lagi renni þessi endurgreiðsluhluti til þess í fyrsta lagi að greiða vanskil, í öðru lagi að lækka skammtímaskuldir viðkomandi aðila og í þriðja lagi að lækka skuldir viðkomandi til langs tíma og að endurgreiðsluhlutanum verði þá varið í þeirri forgangsröð sem hér er upp talin og svo langt sem til hrekkur.

Í fimmta lagi er gert ráð fyrir að útreikningur endurgreiðsluhlutans sé gerður af Húsnæðisstofnun ríkisins í samráði við skattstofu hvers aðila og að sótt verði um endurgreiðsluhlutann til Húsnæðisstofnunar.

Í sjötta lagi er gert ráð fyrir að til þessa verði varið allt að 200 millj. kr. á þessu ári en afgangur sá sem verða kynni yrði reiddur af hendi á næsta ári.

Og í sjöunda lagi að Húsnæðisstofnun annist útgreiðslu endurgreiðsluhlutans og samninga við lánardrottna eftir því sem við ætti.

Herra forseti. Ég tel að hér sé um stórmál að ræða sem varði óheyrilega mismunun sem upp sé komin í þjóðfélaginu. Það sé nauðsynlegt að á þessu máli verði tekið. Flm. viðurkenna að hér sé um vandasamt verkefni að ræða og þess vegna er form þáltill. það sem ég hef hér rakið.

Að endingu, herra forseti, legg ég til að að lokinni umræðu verði þessari till. vísað til félmn.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.