27.01.1987
Sameinað þing: 41. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2553 í B-deild Alþingistíðinda. (2371)

268. mál, skýrsla OECD um íslenska menntastefnu

Menntamálaráðherra (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Skýrsla OECD um íslenska menntastefnu barst menntmrn. í lokahandriti um miðjan janúar. Hefur síðan verið unnið að því að fjölfalda hana til dreifingar á ensku til að byrja með. Unnið er að því að þýða skýrsluna þannig að unnt verði að fá umræðu á breiðari grundvelli um efni hennar.

Í síðari hluta skýrslunnar koma meðal annars fram viðbrögð íslensku sendinefndarinnar á fundi menntamálanefndar OECD í París. Af þeim má sjá að unnið er að lausn nokkurra þeirra vandamála sem sérfræðingar OECD benda á í íslenska menntakerfinu. Tilgangur könnunar OECD á menntastefnu Íslands er ekki að segja fyrir verkum heldur aðstoða okkur við að bæta menntakerfi okkar með ábendingum um hvað betur megi fara að mati gesta sem sjá stöðuna frá öðru sjónarhorni, að vísu í afar skamman tíma því hér mun viðdvöl þeirra hafa verið sex dagar.

Frá því að skýrslan barst 14. jan. í lokahandriti hefur sem fyrr segir verið unnið að fjölföldun hennar og að lokum má þess geta að skýrslunni hefur verið dreift til alþm.