27.01.1987
Sameinað þing: 41. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2555 í B-deild Alþingistíðinda. (2376)

290. mál, áfengissölubúðir

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 519 hef ég leyft mér að bera fram svohljóðandi fsp. til hæstv. fjmrh.:

„1. Hvert er álit fjmrh. á yfirlýsingum forstjóra Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins um að fyrirtækið muni taka upp þann hátt að selja áfengi í almennum verslunum?

2. Telur ráðherra slíkt samræmast anda áfengislaganna?

3. Sé svo, mun ráðherra þá stuðla að þeirri breytingu á áfengismálastefnu sem í því felst að leyfa áfengissölu í almennum verslunum þar sem seld er nauðsynjavara og þar sem börn og unglingar koma tíðum, bæði með foreldrum og án fylgdar þeirra?"

Hér er spurt vegna yfirlýsinga þess annars ágæta manns sem stýrir nú Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins og mér hafa þótt nokkuð undarlegar og glannafengnar í raun og veru miðað við það hvernig ég skil núverandi áfengislög. Hann vill greinilega freista þess að leysa mál Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á þeim stöðum þar sem samþykkt hefur verið áfengisútsala með þeim hætti að þar verði komið á einhverjum bás í almennum verslunum, einhverjum bás í kaupfélaginu þar trúlegast þá, sem er venjulega stærsta verslunin á þessum stöðum. Þar er um mikla breytingu að ræða frá því sem verið hefur og frá því sem ég tel áfengislög segja til um.

Ég tel því að við þessu verði að fást skýr svör. Það má reyndar segja að fyrirhugaðar áfengisútsölur í verslunarmiðstöðvum hér í Reykjavík séu nokkur prófsteinn á þetta mál einnig og þyrfti eflaust athugunar við sömuleiðis, en hér er þó um það að ræða að enn lengra verði gengið og einhver tiltekin deild í þessum verslunum verði með áfengisútsölu sem gengur þvert á það sem ég vil kalla anda áfengislaganna og ég tala nú ekki um þær ályktanir sem sjálf ríkisstjórnin hefur í raun og veru staðið að um takmarkaðra aðgengi að áfengi en nú er og er meginmál Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar sem hún hefur lagt til að framfylgt verði fram til ársins 2000.