27.01.1987
Sameinað þing: 41. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2556 í B-deild Alþingistíðinda. (2377)

290. mál, áfengissölubúðir

Fjármálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Í tilefni af þeirri fsp. sem hér hefur verið borin fram vil ég taka fram að af hálfu fjmrn. eru ekki á döfinni neinar tillögur um breytingar á þeim lögum og reglum sem gilt hafa um skipan á sölu áfengis sem viðhöfð hefur verið um langan tíma. Í raun réttri tel ég mig með þessu hafa svarað öllum liðum þessarar fsp.

Fsp. byggir á tilvitnun í ummæli forstjóra Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins. Þau ummæli eru ekki tilgreind orðrétt í fsp. sjálfri. Ég hef ekki heyrt þau eða séð þau á prenti og óskaði því eftir því að forstjóri Áfengisverslunarinnar gerði grein fyrir málinu af sinni hálfu. Í bréfi sem hann hefur skrifað af því tilefni segir þetta:

„Ráðuneytið hefur sent forstjóra Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins fsp. Helga Seljans um áfengissölubúðir til umsagnar.

Um 1. liðinn: Forstjóri Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins hefur aldrei lýst því yfir að fyrirtækið muni taka upp þann hátt að selja áfengi í almennum verslunum.

Um 2. liðinn: Það er mat forstjóra Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins að tilhögun sú sem felst í meintum yfirlýsingum forstjórans hafi ekki lagastoð.“

Þá segir enn fremur í þessu bréfi:

„Á s.l. ári samþykktu íbúar fimm kaupstaða fyrir sitt leyti að leyfa opnun vínbúða í heimabyggð sinni. Stjórnir þessara sveitarfélaga hafa beint þeim tilmælum til fjmrh. að opna vínbúðir. Fjmrn. hefur ekki talið til þess líkur að nýjar útsölur verði opnaðar í ár, m.a. af fjárhagsástæðum. Áfengis- og tóbaksverslunin rekur nú tólf vínbúðir. Reynslan er sú að lágmarksfjöldi afgreiðslumanna í vínbúð er þrír, jafnvel þar sem minnst er umleikis. Það þjónar ekki hagsmunum ríkissjóðs og því meginmarkmiði Áfengisverslunarinnar að afla ríkissjóði tekna að opna útsölur í fámennum byggðarlögum verði það gert með þeim hætti sem tíðkast hefur.

Um mitt sumar verður vínbúð opnuð í svonefndri Kringlu í Reykjavík ásamt 80 öðrum verslunum. Innangengt er milli verslunar ÁTVR og stærstu matvöruverslunar landsins. Við Laugarás í Reykjavík er vínbúð í sömu verslunarsamstæðu og matvörubúð og svo var einnig á Snorrabraut til skamms tíma. Með hliðsjón af þessu hefur forstjóri ÁTVR látið í ljós þá skoðun að leita ætti samstarfs við verslanir sem reknar eru í kaupstöðum þar sem opna má vínbúð. Samstarf væri í því fólgið að ÁTVR ætti og ræki vínbúð sem hýst væri í nánum tengslum við aðra verslun. Yrði um það samið að afgreiðslumenn þeirrar verslunar gætu hlaupið undir bagga í Áfengisversluninni, t.d. í þeim tilvikum að afgreiðslumaður þar veiktist eða yrði að fara bæjarleið af einhverjum ástæðum.

Forstjóri ÁTVR hefur einnig látið þá skoðun í ljós að heppilegra væri að leita samstarfs við t.d. veiðarfæraverslun eða byggingarvöruverslun en matvöruverslun. Þessi skoðun er studd þeim rökum að börn og unglingar eiga sjaldnar leið í þessar verslanir en í matvöruverslanir. Enn fremur má benda á það að óheppilegra gæti verið að raska samkeppni matvöruverslana með tengingu einnar þeirra við vínbúð en semja við sérverslun sem ekki ætti sér keppinaut í byggðarlaginu.“

Tilvitnun lýkur í bréf forstjóra Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins þar sem hann gerir grein fyrir þeim ummælum sem vitnað er til í fsp. Ég ítreka að lokum að það eru ekki á döfinni af hálfu fjmrn. neinar tillögur um breytingar á þeirri skipan sem staðið hefur varðandi sölu á áfengi.