27.01.1987
Sameinað þing: 42. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2560 í B-deild Alþingistíðinda. (2383)

218. mál, efling atvinnu og byggðar í sveitum

Flm. (Egill Jónsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. á þskj. 233 um eflingu byggðar og atvinnu í sveitum. Flm. auk mín eru þm. Halldór Blöndal og Árni Johnsen.

Þegar litið er til löggjafar sem tengd er íslenskum landbúnaði má með vissum hætti segja að þar beri hæst fimm lagagerðir. Hér á ég við jarðræktarlögin frá 1923, afurðasölulögin frá 1934, framleiðsluráðslögin frá 1947, lög um Stofnlánadeild landbúnaðarins 1962 og svo lögin um framleiðslu og sölu á búvörum frá árinu 1985, búvörulögin eins og þau eru oftast nefnd.

Setningu þessara laga fylgdi jafnan mikil umræða og í sumum tilvikum grundvallarágreiningur og harðar deilur. Fræg er t.d. sú umræða sem átti sér stað vegna jarðræktarlaganna og kennd er við 17. gr. þeirra laga. Samkvæmt henni var eignarréttur bænda á þeim framkvæmdum sem nutu framlags takmarkaður þannig að við eignaskipti áttu framlögin að dragast frá söluverði.

Þá eru ekki síður í minnum hafðar þær hatrömmu deilur sem urðu við setningu afurðasölulaganna frá 1934. Þá var stundaður blómlegur landbúnaður í Reykjavík og nágrannabyggðum. Þessir bændur undu því illa að nálægð þeirra við markaðinn væri í engu virt þeim til hagsbóta og húsmæður í Reykjavík voru einnig óánægðar þar sem sölustöðum með mjólkurvörur var fækkað.

Um miðjan fimmta áratuginn fór fram mikil umræða um málefni landbúnaðarins. Um þær mundir urðu miklar breytingar í sveitum landsins. Atvinnulíf í þéttbýlinu varð fjölbreyttara, atvinnan meiri og stöðugri. Þeir voru því margir sem sáu kjörum sínum betur borgið í þéttbýli en í sveitum landsins þar sem mikilla átaka var þörf í endurnýjun húsakosts og ræktun ef tryggja átti bærilega afkomu.

Segja má að stofnun Stéttarsambands bænda og setning framleiðsluráðslaganna hafi orðið niðurstaða þessarar víðtæku umræðu og bundið enda á þann ágreining sem var um þessar mundir um málefni landbúnaðarins.

Árið 1962 fara öldurnar svo enn að rísa. Sjóðir landbúnaðarins, Byggingar- og Ræktunarsjóður, voru vanbúnir til að mæta þeirri öru uppbyggingu sem átti sér stað á sjötta áratugnum. Ný lög voru sett um Stofnlánadeild landbúnaðarins.

Bændasamtökin mótmæltu af mikilli hörku framleiðendagjaldinu sem innheimt var af öllum búvörum, en m.a. vegna þess að innan samtakanna var pólitískur ágreiningur um málið voru ekki hafðar í frammi neinar aðgerðir gegn málinu af hendi heildarsamtaka landbúnaðarins. Hins vegar var að tilhlutan nokkurra búnaðarsambanda leitað til dómstólanna til að ógilda ákvæði laganna um framleiðendagjaldið og voru þar í forsvari nokkrir af fremstu bændum landsins á þeirri tíð.

Þær lagasetningar sem hér hefur verið minnst á og raunar margar fleiri á vettvangi búnaðarmála hafa átt það sameiginlegt að miða að umbótum í sölumálum og þó sérstaklega að skapa grundvöll fyrir aukna framleiðslu í landbúnaði til að bæta kjör þeirra er þann atvinnuveg stunda. Ein ákvörðunin tók við af annarri sem áttu það sameiginlegt að efla íslenskar sveitabyggðir með nýrri tækni, bættum húsakosti og aukinni ræktun. Þetta var hin opinbera pólitíska stefna sem bændur landsins féllust á. Ágreiningur innan þeirra raða var ekki um markmið, raunar ekki heldur um leiðir þótt stundum hafi úfar risið þegar viðkvæmar ákvarðanir voru teknar til umfjöllunar.

Upp úr miðjum síðasta áratug fóru mál að skipast með öðrum hætti. Verðlag innanlands fór hækkandi og útflutningsbótarétturinn dugði nú ekki lengur til að verðbæta þá framleiðslu sem var umfram innanlandsneysluna. Þess vegna þurfti að huga að nýjum leiðum, breyta stefnunni í landbúnaði til samræmis við breytt viðhorf í markaðsmálum.

Árið 1979 rann svo upp stund hinna stóru atburða í landbúnaði. Með breytingu á framleiðsluráðslögum og jarðræktarlögum var mótuð ný stefna að sögn þeirra sem þá voru í fyrirsvari.

Ákvæði um framleiðsluviðmiðun, búmark, var sett í lög, heimild var tekin upp til álagningar kjarnfóðurgjalds, framlög samkvæmt jarðræktarlögum voru skert, en jafnframt ákveðið að heildarframlag samkvæmt þeim lögum skyldi vera að meðaltali það sama og var árin 1978 og 1979. Þannig átti að fá fjármagn til uppbyggingar nýrra atvinnuhátta í sveitum landsins.

Um þessar breytingar varð ekki mikill ágreiningur innan bændasamtakanna. Eina andstaðan sem ég minnist kom fram frá sjálfstæðismönnum á búnaðarþingi sem töldu þessar aðgerðir ómarkvissar og voru þeim andvígir. Óþarft er að fjölyrða það hér að þessi áform mistókust.

Enda þótt offramleiðsla væri áfram viðvarandi og færi vaxandi er á leið var það ekki nema hluti af þeim vanda sem landbúnaðurinn stóð nú frammi fyrir. Þannig fóru rekstrarskilyrði mjög versnandi á þessum árum. Hlutdeild launaliðar í verðlagsgrundvellinum lækkaði á árunum 1978-1983 úr 42% í 27% eða um 36%. Á sama tíma hækkaði hlutdeild vinnslu og dreifingar úr ca. 22% í tæp 27% og jókst því um 23% á sama tíma. Niðurstaðan varð þannig vaxandi fjármagn til atvinnuvegarins en minni laun til bændanna í landinu.

Þessi verðlagsþróun gekk þvert á öll hugsanleg markmið um samdrátt í framleiðslunni. Þannig útheimti lækkandi hlutdeild launa í búvöruframleiðslunni fleiri framleiðslueiningar ef afkoman átti ekki að versna og ekki var heldur staðið við yfirlýsingar um eflingu nýrra búgreina til að auðvelda samdráttinn í þeim hefðbundnu. Á árunum 1980-1983 áttu þessar fjárveitingar að nema alls 122,6 millj. miðað við verðlag ársins 1985. Hins vegar komu einungis til skila 55,1 millj. kr. eða 45% af því fjármagni sem loforð voru gefin út um árið 1979. Þegar upp var staðið frá þessari veislu var rekstrarhalli, sem bundinn var í lausaskuldum bænda, orðinn 1/2 milljarður kr. Sá halli varð aðeins til á þremur árum.

Niðurstaðan varð því sú að hvort tveggja brást, stefnan og stjórnin. A bændastéttinni buldi áróður um kostnaðarsaman og jafnvel óþjóðhollan atvinnuveg. Bændastéttin var því bæði svikin og særð þegar svikamyllan var loksins stöðvuð.

Frá setningu búvörulaganna eru liðin tæp tvö ár. Því má ætla að sá tími sé of stuttur til að unnt sé að meta áhrif þessarar löggjafar til hlítar.

Í greinargerð fyrir tillögunni um eflingu atvinnu og byggðar í sveitum landsins eru áhrif búvörulaganna þó skýrð að nokkru og mat lagt á þróun þessara mála. Ég fullyrði að jafnskýr stefnubreyting hefur tæpast átt sér stað á jafnstuttum tíma.

Eins og fram kemur í 1. gr. búvörulaganna er eitt aðalmarkmið þeirra að færa framleiðsluna sem næst innanlandsmarkaðnum. Svo sem kunnugt er á að ná þessu markmiði með samningi milli ríkisvalds og bænda um tiltekið framleiðslumagn sem tryggi bændum fullt verð fyrir þá framleiðslu.

Fyrir liggur að hér hefur náðst mikilvægur árangur. Framleiðslan tekur nú í vaxandi mæli mið af búvörusamningi og bilið á milli framleiðslu og innanlandsmarkaðar færist stöðugt til meira samræmis.

Það sem athygli vekur er að þessi samræming á sér stað með tvennum hætti, þ.e. samdrætti í framleiðslu og aukningu markaðar. Þetta á þó sérstaklega við um mjólkurframleiðsluna.

Mikið hefur verið talað um samdrátt í neyslu mjólkur og mjólkurvara og þær voru ófáar fréttasendingarnar sem út gengu frá Framleiðsluráði landbúnaðarins um minnkandi neyslu mjólkur og mjólkurvara. Auðvitað hafði þessi umræða neikvæð áhrif á markaðinn og viðhorf til landbúnaðarins. M.a. þess vegna er óskiljanlegt hvað hún lét forustumönnum landbúnaðarins blítt og létt í munni. En nú bregður svo við um nokkurt skeið að ekkert heyrist um ástand mjólkurmarkaðarins.

Á árinu 1986 var innanlandssala á mjólkurvörum samsvarandi ca. 100 millj. lítra af mjólk og jókst frá árinu áður um ca. 3,5%. Athygli vekur hversu salan er jöfn yfir árið og að ekki gætir þeirra sveifluáhrifa sem áður áttu sér stað. Er þetta góðs viti og bendir til að mjólkurvörur séu að treysta stöðu sína á markaðnum.

Það ár sem nú er nýbyrjað tekur við ca. 3,5% stærri mjólkurmarkaði en síðasta ár gerði. Þetta þýðir í raun að ef verðlag verður stöðugt má fullyrða að mjólkurmarkaðurinn innanlands samsvari 102-105 millj. lítra af mjólk sem er svipað og núverandi búvörusamningur gerir ráð fyrir.

Öllu erfiðara er að meta markaðsaðstæður í kindakjötssölu, m.a. vegna þess að þar grípa tímabundin verðlækkunaráhrif inn í. Þannig varð t.d. mikil söluaukning á dilkakjöti á tveimur síðustu mánuðum ársins 1985 sem dró að sama skapi úr sölu síðasta árs.

Augljóst er hins vegar að sala á kindakjöti síðar á árinu var mun betri og ekki er fjarri að ætla megi að mánaðarleg sala kindakjöts nemi um 800 tonnum, þ.e. 9500 tonnum á ári.

Þegar mat er lagt á aðstæður í sauðfjárbúskap verður að hafa í huga að þar eru búin smærri en t.d. í nautgriparækt og afkoman þar af leiðandi lakari. Þá má það ekki heldur gleymast að sauðfjárbúskapur er dreifðari um landið og að jaðarbyggðir í heilum landshlutum byggja afkomu sína að stórum hluta á sauðfjárrækt. Hér fer því saman styrkur eða veikleiki byggðar og búskapar. Þessar staðreyndir verða menn að hafa í huga þegar aðstæður í landbúnaði eru metnar.

Sá árangur í markaðsmálum landbúnaðarins er m.a. til orðinn vegna áhrifa búvörusamningsins og þannig mikilvæg sönnun þess hve það ákvæði búvörulaganna er mikilvægt þar sem með búvörusamningnum eru tvinnaðir saman hagsmunir ríkisvalds og landbúnaðar um að sala á framleiðsluvörum í hefðbundnum búvörum haldi markaðshlutdeild sinni. Að þessari reynslu fenginni er unnt að taka nýjar ákvarðanir varðandi nýjan búvörusamning eins og tillagan á þskj. 233 kveður á um.

Ef að því ráði yrði horfið mundi það hafa mikilvæg áhrif til að auðvelda þá breyttu hætti sem nú eru að eiga sér stað í landbúnaðinum. Þeirri óvissu í framleiðslumálum sem bændur hafa staðið frammi fyrir væri vikið til hliðar en það auðveldaði þeim stórlega að meta afkomu og möguleika til úrbóta þar sem sérstakra aðgerða er þörf. Jafnframt mundi það auðvelda þá margháttuðu umfjöllun og um leið aðgerðir þeirra aðila sem um málefni landbúnaðarins fjalla og taka mið af þeim breytingum sem nú eiga sér stað í landbúnaðinum.

Þær ákvarðanir sem teknar hafa verið um skiptingu á búvöruframleiðslunni milli bænda hafa vissulega valdið mikilli umræðu og margháttuð gagnrýni komið þar fram. Þess vegna væri afar traustvekjandi fyrir bændur að búvörusamningurinn yrði framlengdur út aðlögunartímabilið.

Vert er að íhuga hvernig eitt aðalmarkmið búvörulaganna um aukna nýtingu heimaafla og sparnað í rekstri hefur orðið í reynd. Samkvæmt bestu fáanlegum upplýsingum hafa áburðarkaup dregist saman að magni frá árinu 1984 um 15% sem jafngildir ca. 109 millj. kr. sparnaði. Þessi áhrif til sparnaðar koma enn skýrar fram í kjarnfóðurkaupum. Þannig má ætla að kjarnfóðurnotkun í mjólkurframleiðslu hafi dregist saman um ca. 23% að magni og að sparnaður í kjarnfóðurnotkun í hefðbundnum búgreinum muni nema um 160 millj. kr.

Til að auðvelda bændum aðlögun að breyttum framleiðslumarkmiðum hefur ríkisstjórnin gert ráðstafanir til að draga úr tilkostnaði við landbúnaðinn.

Ég hef fengið upplýsingar hjá Búnaðarfélagi Íslands um hverjar breytingar hafa orðið á jarðræktarframkvæmdum á milli áranna 1984 og 1986. Á árinu 1986 námu framlög til framkvæmda í landbúnaði samkvæmt jarðræktarlögum 162 millj. kr. Miðað við sömu verðlagsforsendur hafa þessar greiðslur minnkað frá árinu 1984 um 108 millj. kr. eða um 60%.

Þá er ekki síður athyglisvert að íhuga hvernig framlögin hafa færst á milli framkvæmdaliða og taka þannig mið af breyttum áherslum í landbúnaði.

Svipaðrar þróunar gætir í útlánum Stofnlánadeildar landbúnaðarins. Þannig hafa lán til fjárhús- og fjósbygginga dregist stórlega saman. Lán til hlöðubygginga hafa staðið í stað, en aftur á móti til nýbúgreina hækkað um 153% frá árinu 1984.

Í stuttu máli sagt eru áhrif búvörulaganna þessi: Tilkostnaður landbúnaðarins hefur minnkað, framkvæmdir eru í samræmi við markaðsaðstæður, kjör í landbúnaði hafa batnað. Hér hafa bændur enn einu sinni sýnt að þeir eru tilbúnir að færa störf sín til þeirra viðhorfa sem mörkuð stefna ákvarðar. Til viðbótar við aðra þjóðfélagslega hagsmuni skapar þetta landbúnaðinum ný sóknarfæri til eflingar byggðar og bættra kjara í sveitum landsins.

Til frekari skýringa vísa ég til till. okkar þremenninganna á þskj. 233, en þar kemur m.a. fram að fækkun starfa í sveitum landsins á sér langan aðdraganda. Áhersla er lögð á skipulagða atvinnusókn í sveitum á grundvelli þeirra markmiða er búvörulögin ákvarða.

Hún vekur athygli á aðstöðu þeirra bænda er framkvæmdu á óðaverðbólguárunum og við takmarkaða framleiðslu búa en skulda mikið. Hún vekur athygli á þeirri staðreynd að vandi eins verður ekki leystur með því að færa hann til þess næsta. Þess í stað verði gerðar ráðstafanir til áð treysta afkomu þessara manna með nýrri framleiðslu.

Till. bendir á að aðild Útflutningsráðs sé nauðsynleg til að skipuleggja markaðssókn fyrir dilkakjöt svo að það starf verði trúverðugt. Lögð er áhersla á endurhæfingu leiðbeiningarþjónustunnar og rannsóknir í þágu landbúnaðarins og að búvörusamningurinn verði framlengdur.

Með till. okkar um eflingu byggðar og atvinnu í sveitum landsins höfum við flm. sett fram þá staðföstu skoðun okkar að íslenskur landbúnaður standi traustum fótum og miklir möguleikar séu þar enn ónýttir. Till. okkar leggur fram skýrari áherslur í framfaramálum landbúnaðarins en áður hafa komið til umfjöllunar á Alþingi upp á síðkastið. Þess vegna er hún mikilvægt innlegg til jákvæðrar umræðu og ákvarðana um málefni landbúnaðarins og því vel við hæfi að Alþingi afgreiði hana með jákvæðum hætti.

Ég hef lokið máli mínu, forseti, en geri það að tillögu minni að að lokinni umræðunni verði till. vísað til atvmn.