27.01.1987
Sameinað þing: 42. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2573 í B-deild Alþingistíðinda. (2389)

218. mál, efling atvinnu og byggðar í sveitum

Björn Dagbjartsson:

Herra forseti. Ég kem hér fyrst og fremst til þess að taka undir þessa till. Mér finnst hún og sérstaklega þó grg. góð. Það eru miklar upplýsingar í grg. sem eru mjög þarflegar að fletta upp á fyrir þá sem vilja bændum vel. Mér finnst miklu fremur að þeir sem saka flm. um sýndarmennsku ættu að líta í eigin barm því það hlýtur að vera nokkur sýndarmennska í því fólgin að geta verið á móti þessari till. ef menn á annað borð vilja bændastéttinni vel.

Það má svo sem segja að þessi búvörulög og þær reglugerðir sem settar hafa verið samkvæmt þeim hafi valdið nokkrum úlfaþyt og upphlaupum á fundum víða um land. Við öðru var kannske vart að búast. Menn þurfa vissan aðlögunartíma til að átta sig á því hvað er að ske og auðvitað er skerðing á frjálsræði í atvinnugreinum aldrei neitt sérstakt fagnaðarefni. Það var það heldur ekki í sjávarútvegi, þó svo að bændur og samtök þeirra, eins og reyndar allir helstu hagsmunaaðilar í sjávarútvegi, kæmust að þeirri niðurstöðu að skást viðmiðun, skást viðmiðun eða kvótakerfi var það þar sem miðað var við frammistöðu manna einhver undanfarin ár. Hinu get ég svo sem ekkert neitað að af landfræðilegum ástæðum hefði kannske verið heppilegra fyrir Norðlendinga að þriggja ára viðmiðun hefði gilt en ekki tveggja ára, en það er annað mál. Þetta var samkomulag meðal bændasamtakanna og er alveg sjálfsagt að fylgja því eftir og raunar ekkert annað hægt.

Ég get vel skilið það að hæstv. landbrh. hafi ekki átt sjö dagana sæla undanfarið við að sannfæra bændur um nauðsyn þeirra aðgerða sem gripið hefur verið til, en það er því miður algjör óskhyggja og óraunsæ óskhyggja að einhverjir markaðir finnist t.d. fyrir okkar dilkakjöt, þar sem við getum flutt út dilkakjöt í einhverjum mæli á verði sem nokkur leið er að sætta sig við. Auðvitað skilja þetta margir og flestir ábyrgir bændur. Á þessum fundum, sem haldnir hafa verið og ályktunum frá þeim bændafundum þar sem mótmæli hafa verið uppi höfð, skortir tillöguflutning um raunhæfar aðgerðir sem tryggja sama markmið, þ.e. að búvöruframleiðslan verði sem næst innanlandsneyslunni.

Ég get ómögulega tekið undir það sem kom hér fram hjá einhverjum hv. þm. áður að afkoma bænda árið 1986 hafi verið léleg. Ég held einmitt að hún hafi verið frekar góð. Ég hef að vísu ekki beinharðar tölur en eftir því sem mér hefur heyrst á því landsvæði sem ég þekki best til held ég að afkoman hafi verið góð. Jafnvel þó að tekjur hafi á einhvern hátt verið örlítið minni þá hefur tilkostnaður á mjög mörgum búum orðið miklu minni. Það stafar að einhverju leyti af góðu árferði, en með tilkomu þessara nýju laga og reglugerða hafa menn virkilega reynt að draga saman tilkostnað í áburðarkaupum og fóðurbætiskaupum. Þetta eru nú þeir tónar sem ég heyri. Það getur vel verið að menn tali öðruvísi upp í mín eyru en annarra félaga minna úr Norðurl. e. sem hér hafa talað.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri en ef þessi till. kemur til hv. atvmn. þá vonast ég til þess að ég geti lagt henni lið þar.