23.10.1986
Sameinað þing: 7. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í B-deild Alþingistíðinda. (239)

38. mál, staðgreiðsla opinberra gjalda

Flm. (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Á þskj. 38 flyt ég till. til þál. um staðgreiðslu opinberra gjalda sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að taka beri upp staðgreiðslu opinberra gjalda einstaklinga og felur ríkisstjórninni að sjá til þess að svo verði gert í ársbyrjun 1988.“

Flm. auk mín eru hv. þm. Málmfríður Sigurðardóttir og Sigríður Dúna Kristmundsdóttir.

Í sjálfu sér er kannske ekki ástæða til þess að hafa mjög mörg orð um efni till. Hv. þm. er kunnugt um hvernig það mál hefur gengið. Árið 1965 lýsti þáv. ríkisstjórn því yfir að hún vildi taka upp staðgreiðslukerfi skatta og allar götur síðan, með hléum þó, hefur talsverð vinna farið í undirbúning þess að taka upp slíkt kerfi og á þessum rúmlega tveimur áratugum hafa margar ríkisstjórnir haft staðgreiðslukerfi skatta á stefnuskrá sinni.

Tvisvar sinnum hafa verið lögð fram frumvörp um þetta efni, árin 1978 og 1981, án þess að hljóta endanlega afgreiðslu á þingi. Í sáttmála núv. ríkisstjórnar., sem birtur var við upphaf ferils hennar, er ekki minnst á staðgreiðslukerfi skatta og fjármálaráðherrar hennar hafa ekki sýnt því máli áhuga þótt eftir væri leitað fyrr en nýverið eða nú á s.l. sumri að hæstv. fjmrh. Þorsteinn Pálsson lýsti því yfir að hann vildi láta kanna möguleika á því að taka upp slíkt kerfi.

Kvennalistinn flutti um það till. á haustþingi árið 1984 að ríkisstjórninni yrði falið að koma á staðgreiðslukerfi skatta. Við töldum þá að tveggja ára fyrirvari væri nægur til þess verks og hefði því staðgreiðsla skatta getað orðið staðreynd um næstu áramót ef sú tillaga hefði verið samþykkt. Svo varð ekki, en samkvæmt því sem haft hefur verið eftir hæstv. fjmrh. í fjölmiðlum ætti að vera hugsanlegt að taka upp slíkt kerfi eftir rúmt ár og má það rétt vera, enda mikið búið að vinna að undirbúningi þess eins og áður segir.

Afstaða Kvennalistans mótast af hagsmunum almenns launafólks og þá fyrst og fremst þeirra sem hafa sveiflukenndar tekjur og þeirra sem af einhverjum ástæðum þurfa að minnka við sig launuð störf. Við getum nefnt fólk sem vill minnka við sig vegna sjúkleika eða aldurs. Við getum nefnt konur sem kjósa að hverfa af vinnumarkaði og helga sig heimili og barnauppeldi um skeið. Kannske er ekki ástæða til þess að nefna konur sérstaklega. Það gæti hent karla. Við getum nefnt fólk sem fer til náms eftir að hafa stundað launuð störf um lengri eða skemmri tíma. Við getum nefnt fólk sem stundar ígripavinnu, t.d. við sjávarútveg, sem gefur sveiflukenndar tekjur og oft miklar tekjur sem viðkomandi hafa ekki alltaf möguleika eða forsjálni til að geyma hluta af til greiðslu á sköttum síðar meir. Og við getum nefnt fólk sem af einhverjum ástæðum þarfnast aukatekna um skeið, t.d. vegna öflunar húsnæðis, en eins og við öll þekkjum er oft erfitt að brjótast út úr þeim vítahring og mörg tilvik kunn, þar sem viðkomandi hefði skipt miklu máli að sitja ekki uppi með skuldabagga vegna vangoldinna skatta. Meginkostur staðgreiðslukerfisins er sem sagt sá að í slíku kerfi myndast ekki skattskuld hjá skattgreiðanda eins og í núverandi kerfi.

Í öðru lagi hefur staðgreiðslukerfið þann kost að það fylgir hagsveiflunni, þ.e. innheimtir mikla skatta á velgengnistímum og aftur minni á þeim tímum þegar illa árar. Í núverandi kerfi kemur innheimta af tekjum veltiárs næsta ár á eftir þegar aðstæður geta verið aðrar og verri.

Í þriðja lagi má ætla að innheimta skatta verði betri þegar greitt er strax af tekjunum en þegar gera þarf grein fyrir tekjum allt að ári síðar en þeirra er aflað og greiða síðan skatta af þeim. Í millitíðinni vilja oft myndast tækifæri til að láta tekjur „gleymast'" og gefa þær ekki upp. Slík tækifæri verða helst hjá sjálfstæðum tekjuaðilum og þeim sem betur eru settir, en almennt launafólk fær venjulegast allt gefið upp á sig. Þannig má ætta að staðgreiðslukerfið mundi skapa betri heimtur sem óbeint kæmu almennu launafólki til góða.

En staðgreiðslukerfinu fylgja vissulega einnig ókostir, einkum fyrir hið opinbera, og þar er líklega að finna meginástæðu þess að staðgreiðslu skatta hefur enn ekki verið komið á. Staðgreiðslukerfið verður eitthvað mannfrekara og dýrara í rekstri auk þess sem það kostar nokkra fyrirhöfn að koma því á. Þessi atriði hafa þó líklega verið ofmetin og eru raunar harla léttvæg miðað við ýmislegt annað sem við höfum látið okkur til hugar koma til breytinga á skattakerfinu svo sem eins og að taka upp virðisaukaskattinn.

Þá hefur upptaka staðgreiðslukerfis það í för með sér að einu tekjuári þarf að sleppa úr. Ef taka ætti upp staðgreiðslu skatta á næsta ári væru tekjur þessa árs í raun skattfrjálsar og gefur auga leið að allir mundu reyna að hnika sem mestu af tekjum sínum yfir á skattfrjálsa árið. Til slíks er óneitanlega nokkurt svigrúm, einkum hjá þeim sem eru með sjálfstæðan rekstur. Svigrúm hins almenna launafólks er hins vegar ekkert fremur en venjulega. Rétt er að hafa þetta í huga við samningu laga um staðgreiðslu opinberra gjalda og leita leiða til að minnka möguleika manna til að komast hjá eðlilegum skattgreiðslum af þessum sökum.

Hins vegar þarf einnig að gæta þess mjög vel að stjórnvöld freistist ekki til þess að þyngja greiðslubyrðina um leið og staðgreiðslu er komið á, en að sjálfsögðu væri rangt að nota sömu skattprósentu og þegar um eftirágreiðslu er að ræða. 10% útsvar af fyrra árs tekjum greitt með þessa árs tekjum er í flestum tilvikum léttbærara en 10% greiðsla af samtímatekjum. Einmitt þetta atriði setja margir fyrir sig og eru andvígir staðgreiðslu skatta af þessum sökum þar eð þeir efast um góðvilja stjórnvalda, kannske ekki að ástæðulausu.

Kostir staðgreiðslukerfisins vega þó mun þyngra að okkar mati en ókostirnir og því vill Kvennalistinn ýta á framkvæmd þessa máls. Hins vegar er það vitanlega engin allsherjarlausn og margt fleira sem gera þarf til úrbóta á skattakerfinu. Það hefur allt of lengi dregist að endurskoða skattakerfið frá grunni og orðið mjög brýnt að vinna það verk til fulls. Árum saman hefur verið talað um að skipta þurfi tekjustofnum milli ríkis og sveitarfélaga með nýjum hætti þannig að sveitarfélögin fái aukna tekjumöguleika jafnhliða meiri ábyrgð í eigin málefnum. Slíkar breytingar eru löngu tímabærar. Sveitarfélögin vilja aukið forræði í eigin málum og það eiga þau að fá, bæði hvað varðar öflun tekna og eyðslu þeirra. Það er mín skoðun að eðlilegast væri að ætla þeim allar tekjur af beinum sköttum en að auki hluta af tolla og söluskattstekjum sem væru eftir sem áður aðaltekjustofnar ríkisins. En það er nú svolítið önnur hlið á þessu máli.

Kvennalistinn tók þá ákvörðun að leggja fram þessa tillögu um staðgreiðslu opinberra gjalda á allfjölmennum fundi á s.l. vori. Í sumar gerðist það svo að hæstv. fjmrh. lýsti vilja sínum til að láta kanna hvernig koma mætti slíku kerfi á og þetta mál er nú á málalista hæstv. ríkisstjórnar. Hefði þetta verið minn fyrsti vetur á þingi hefði ég sennilega látið vera að flytja þessa till. í trausti þess að við það fyrirheit yrði staðið. En svo mikið lærist nú þm. á þremur árum að slík fyrirheit eru engin trygging.

Kvennalistinn telur þetta mikið hagsmunamál og telur ástæðu til að ætla að meiri hluti manna í öllum þingflokkum sé hlynntur staðgreiðslukerfi skatta. Afgreiðsla þessa máls og samþykkt Alþingis þar um ætti að tryggja framkvæmd þess.

Herra forseti. Að lokinni umræðu um þetta mál legg ég til að því verði vísað til hv. allshn.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.