27.01.1987
Sameinað þing: 42. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2583 í B-deild Alþingistíðinda. (2394)

218. mál, efling atvinnu og byggðar í sveitum

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Herra forseti. Það er rétt, sem kom fram hjá einhverjum ræðumanni, að það var dálítið annar tónn í síðari ræðu hv. 4. þm. Norðurl. e. þar sem hann sagði að það þyrfti vitanlega að hafa stjórn á framleiðslunni og það ætti að gera það einhvern veginn öðruvísi. Ein ábending kom fram hjá honum, að það ætti að fækka fé á Suðurlandi og í Eyjafirði.

Ég verð að segja að í fyrstu umferð finnst mér ólíkt aðgengilegra að kanna hverjir telja sér ávinning að því að draga úr framleiðslu og gefa sig fram til þess. Sérstaklega hafði ég þá í huga svæði þar sem riðuveiki geisaði, en ég hef áður látið það koma fram á Alþingi að ég teldi að það væri mjög mikilvægt mál. Og á það yrði látið reyna áður en farið væri að koma til manna og segja: Nú skalt þú fyrirvaralaust hætta þínum búskap og hverfa að öðru. Þar sem ekki eru sérstakar aðstæður þarf nokkurn aðlögunartíma til að breyta svo um atvinnuhætti eins og sveitabúskapurinn er.

En þróunin hefur verið í þá átt síðustu árin að fækka fé á mestu þéttbýlisstöðunum, en hins vegar nokkurn veginn eða alveg haldið í horfinu þar sem sauðfjárræktin er mikilvægust. Ég lýsi því yfir hér að ég tel að gengið sé lengra í þessa átt, en ég tel rétt að byrja á þann hátt sem gert var.

Þegar eftir að Byggðastofnun tók til starfa óskaði ég eftir samstarfi við hana um þessi mál og aðstoð. Það varð þá niðurstaðan að byrja á að gera úttekt á loðdýraræktinni og tillögur um hana þar sem það er sú nýja búgreinin sem menn telja vera mikilvægasta. En ég verð því miður að viðurkenna að það starf Byggðastofnunar hefur gengið miklu hægar en ég vonaðist eftir þó að nú sé lofað skýrslu um þetta hvern dag sem líður. En ég hef ítrekað oft síðan að ég vildi að Byggðastofnun hæfi störf á öðrum sviðum og það hefur reyndar verið gert með samstarfi við hana, til dæmis nefndarskipun um skipulagningu sauðfjárræktarinnar sem sérstök nefnd er að störfum um og væntanlega gerir þá tillögur í þá átt sem hv. 4. þm. Norðurl. e. var að tala um áðan.

Ég skal ekki fara í miklar deilur um afkomu bænda því að ég tel að ég þurfi að hafa einhverjar tölur í höndunum til að geta fullyrt mikið um það þó að hv. 4. þm. Norðurl. e. segist ekki þurfa neinar tölur. Ég vil þó mótmæla því að það séu 80-90% bænda nú verr staddir en áður og undirstrika það, sem hér hefur verið bent á, að breytingin á lánakjörum stofnlánadeildarinnar kom sér að sjálfsögðu best fyrir þá sem lakasta hafa aðstöðuna, þá sem eru skuldugir. En það er svo því miður í landbúnaðinum eins og öðrum atvinnuvegum að mönnum búnast misjafnlega vel af ýmsum ástæðum og hjá því er aldrei hægt að komast.

Hv. 4. þm. Norðurl. e. kallaði fram í og spurði um niðurgreiðslur. Ég tel þá að það sé rétt að ég að lokum láti það koma fram að fyrsta verk núv. ríkisstjórnar í landbúnaðarmálum var að ákveða aukningu á niðurgreiðslum sem nam á þriðja hundrað millj. kr. til að halda niðri verði á kindakjöti. Miðað við núgildandi verðlag er það rúmlega tvöföld sú upphæð. Þannig skildi fjmrh. Alþb. við fjárlögin þegar hann lét af störfum.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta. Ég held að sú staðreynd hafi komið fram í þessum umræðum að það var og er við mikinn vanda að etja í landbúnaðarmálum. Staðan var þröng og því urðu menn að leggja út í úrræði sem að öðrum kosti hefði ekki verið farið í. Það er af þeim sökum sem ég benti á að mótmæli Alþb. við ákvörðunina frá s.l. hausti um að gefa mönnum tækifæri til að leigja eða selja búmark væri eyðibýlastefna því að það væri hægt að láta 4-5 bændur hafa laun á meðan þeir væru að vinna að uppbyggingu með sama fjármagni og það kostaði að greiða með afurðum frá einum bónda. Ég tel hiklaust að sú ráðstöfun hafi verið rétt og ef sú leið hefði ekki verið farin hefðu fleiri bændur hlotið að verða að hætta búskap eða þá að orðið hefði í enn þá ríkara mæli, en vegna lagaákvarðananna í framleiðsluráðslögunum gömlu, að halda áfram að þjappa öllum niður. Og hefði það verið betri kostur?