27.01.1987
Sameinað þing: 42. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2586 í B-deild Alþingistíðinda. (2396)

218. mál, efling atvinnu og byggðar í sveitum

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég vil fyrst leiðrétta þann misskilning að ég vék ekki að störfum nefndarinnar sem samdi frv. varðandi það atriði að þar hefði komið fram afdráttarlaust ágreiningur um á hve löngum tíma aðlögunin þyrfti að eiga sér stað varðandi innlendan markað. Hins vegar vék ég að því í máli mínu að hv. 3. þm. Norðurl. e., formaður landbn. Nd., hefði á ótvíræðan hátt í sinni framsöguræðu fyrir nál. gert grein fyrir að aðlögunartíminn væri of stuttur og hann hefði í þeim málflutningi undirstrikað það sem væri vilji þeirra sem nú flyttu þessa þáltill. Ég vil leiða nokkur rök að þessu og vekja athygli á töflu á bls. 8 þar sem kemur fram að samdrátturinn er nú samkvæmt gögnum sem hér eru sett niður orðinn 393 ársverk, mundi fara í 819 ársverk ef farið yrði algerlega í að samræma innanlandsframleiðsluna við þann markað sem hér er.

En það sem okkur hefur tekist að skapa af ársverkum í sveitunum í loðdýraræktinni eru 202 ársverk eins og kemur fram á bls. 14 í þessu skjali, en á bls. 16 segir aftur á móti varðandi álit þeirra og eflingu byggðar:

„Nýjar búgreinar verði stórefldar, m.a. lögð áhersla á eftirfarandi:

Miðað verði við að aukinn fjöldi í landbúnaði leggi til a.m.k. tvöfalt fleiri ný störf en tapast vegna samdráttar í hefðbundnum búgreinum.“

Þetta undirstrikar það svo að ekki fer á milli mála að flm. þáltill. er ljóst að til að ná þessu markmiði verður að lengja aðlögunartímann. Það fer ekki á milli mála. Ég tel þess vegna og tek undir það að það er af hinu góða þegar lagt er til að búvörusamningur milli bænda og ríkisvalds verði framlengdur um tvö ár. Það er af hinu góða. Það er tillaga um að gengið verði frá því í tíð núv. landbrh., hrein traustsyfirlýsing á hann hvað það snertir að framlengja þessa búvörusamninga þannig að búið sé að ganga frá samningum í það heila fyrir um fimm ára tímabil miðað við það sem áður hefur verið samið. Ég tel að það séu nokkuð stór tíðindi í þingsölum, megi treysta því að flm. hafi Sjálfstfl. á bak við sig í þessum efnum þannig að þessi till. fari í gegnum þingið, en það hef ég lagt áherslu á að gerist vegna þess einfaldlega að ég er sannfærður um að það er grundvallaratriði svo að hægt sé að koma í veg fyrir verulega og varanlega byggðaröskun að menn flýti sér hægt í þeirri stöðu sem þessi mál eru.

Á Vestfjörðum hefur tekist að skapa 13 ársverk í loðdýrarækt, en samdrátturinn í hinum hefðbundnu búgreinum er nú þegar orðinn 33 ársverk og það fer ekki á milli mála að þar hallar verulega. Þau svæði sem hafa tekið best við sér í að hefja upp tapið og taka nýjar búgreinar í sína þjónustu eru Norðurland eystra og Norðurland vestra. Norðurland eystra hefur náð 65 nýjum ársverkum í loðdýrarækt en þar hefur samdrátturinn orðið 77 ársverk. Þarna er sáralítil skekkja búin að eiga sér stað og það er vel.

Ég held að flm. eigi ekki að kvarta undan því þegar lýst er yfir stuðningi við þessa till. þó að það sé vissulega hárrétt athugað hjá hv. 3. þm. Norðurl. e. að lagasetning og breyting á lögunum væri betri kostur þar sem það væri skýrt fram tekið að menn vildu lengja þennan aðlögunartíma. Hitt er engu að síður til bóta að þingið lýsi yfir vilja sínum og framkvæmdarvaldið, innan þess rýmis sem er í lögunum, taki tillit til þess.

Ég tel að menn þurfi að gera sér grein fyrir því og leiða umræðuna meira yfir á það svið að hver starfsmaður í frumatvinnugrein skapar níu störf í þjónustu. Verði mönnum þetta ekki ljóst í þeirri stefnu sem mörkuð verður um hinar dreifðu byggðir þá verða það ekki aðeins sveitirnar sem verða fyrir þessum skell, heldur má slá því föstu að þeir byggðakjarnar sem þjóna þessum svæðum verði fyrir miklum og varanlegum áföllum.