27.01.1987
Sameinað þing: 42. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2587 í B-deild Alþingistíðinda. (2398)

218. mál, efling atvinnu og byggðar í sveitum

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það varð naumast ráðið annað af orðum hv. síðasta ræðumanns en að alþingiskosningar væru orðnar óþarfar því það væri sjálfgefið og sjálfsagður hlutur að Sjálfstfl. yrði í ríkisstjórn um aldur og ævi. En ég vil gera hér athugasemdir vegna, ég vil segja, virðulegur forseti, hlálegra tilburða hv. 11. þm. til að falsa söguna svo að segja jafnóðum og hún gerist. Hann hélt því fram hér áðan að niðurgreiðslur hefðu lækkað stórlega í tíð Ragnars Arnalds sem fyrrv. fjmrh. Hér er um furðulega fullyrðingu að ræða þar sem það liggur fyrir skjalfest í skriflegu svari við fsp. hér á Alþingi að niðurgreiðslur hækkuðu ár frá ári í tíð Ragnars Arnalds sem fjmrh. en snarlækkuðu svo á fyrsta heila árinu sem núverandi hæstv. ríkisstjórn bar ábyrgð á fjárlögum frá því að vera 1864 millj. kr. árið 1982 á verðlagi ársins 1985, 1306 millj. kr. árið 1983 og niður í 770 millj. fyrsta heila árið sem núverandi ríkisstjórn sat að völdum árið 1984. Árin 1985 og 1986 hefur þarna verið um svipaða upphæð að ræða og í fjárlögum ársins 1987, yfirstandandi árs, er um 1 milljarður og 90 millj. undir þessum lið á verðlagi yfirstandandi fjárlaga, sem er svipuð upphæð að raungildi og var árið 1984. Þannig að hér hefur orðið um geysilegt fall að ræða í niðurgreiðslum, þær hafa hrapað niður um rúman helming frá því sem þær voru í tíð fyrri ríkisstjórnar og verið allan tímann sem þessi ríkisstjórn hefur verið að völdum. Þetta liggur fyrir skjalfest og það þýðir ekki fyrir hv. 11. landsk. þm. að koma hér upp og ljúga þegar gögnin liggja fyrir og það er hægt að sækja þau hér í næsta herbergi til skjalavarðar Alþingis. Ég mótmæli svona fjarstæðukenndum málflutningi hér og tel hann hv. þm. til skammar.

Að lokum, herra forseti, þeir geta naumast ætlast til þess hæstv. landbrh. og hv. 11. landsk. þm. að við umræður um annað dagskrármál sé gerð tæmandi grein fyrir stefnu stjórnmálaflokka í landbúnaðarmálum, enda geri ég ekki ráð fyrir því að þeir séu svo barnalegir að ætlast til þess að það sé hægt. Ég nefndi nokkur atriði sem ég teldi að þyrfti að leggja áherslu á í sambandi við stjórnun landbúnaðarframleiðslunnar, ekki vegna þess, herra forseti, að ég teldi þau tæmandi og einhlít, heldur til að gefa dæmi um það sem við höfum lagt áherslu á. Ef hv. þm. geta ekki tekið mark á slíkum málflutningi og tekið orð manna gild fyrir því að hér sé verið að gefa dæmi en ekki að lýsa stefnunni í heild sinni, þá er ekki hægt að eiga orðastað við þá hvort sem er og þýðir þá ekki að ræða það frekar.