14.10.1986
Sameinað þing: 3. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 25 í B-deild Alþingistíðinda. (24)

20. mál, samningur milli Íslands og Bandaríkjanna

Haraldur Ólafsson:

Herra forseti. Það er sannfæring mín að sá samningur, sem hér hefur verið gerður, fullnægi í ýmsu þeim kröfum og þeim tillögum sem Íslendingar hafa komið fram með í þessu máli. Ég get alls ekki skilið hvernig hv. 5. þm. Austurl. tókst að gera hann að svo alvarlegu máli sem hann reyndi að gera. Ég held þvert á móti að þetta sé samningur sem sé mjög hagstæður Íslandi og íslenskum hagsmunum og allar umræður um stjörnustríð og annað af því tagi held ég að verði að bíða betri tíma. Það er gjörsamlega óskylt mál og ég tel að við eigum alls ekki að blanda saman alvarlegum hagsmunamálum íslenska ríkisins og slíkum stórpólitískum alþjóðamálum sem við vonandi fáum tækifæri til að ræða seinna af meiri alvöru og á meira viðeigandi hátt.

Á þessu ári hafa tvö mál orðið til þess að skapa óþægilegt andrúmsloft í samskiptum Íslands og Bandaríkjanna. Það er þetta svokallaða Rainbow-mál og það er hvalveiðimálið. Sú staðreynd að þau mál féllu að verulegu leyti saman gerði þau jafnvel enn þá erfiðari viðureignar. Ég held að það hafi verið full ástæða til þess fyrir Bandaríkin að sinna óskum Íslendinga og tillögum Íslendinga um lausn þeirra mála. Vissulega kom Bandaríkjastjórn fram af hroka og yfirgangi við Íslendinga. En ég held að þegar í ljós kom hve víðtæk samstaða var í landinu hafi Bandaríkjamönnum orðið ljóst að þeir komust ekki lengra. Ég tel mjög varhugavert að ala á því að hér sé veruleg andstaða gegn samningi sem Íslendingar hafa í hálft annað ár boðað og viljað fá fram.

Það er alveg sama hvernig ég les þennan samning, ég sé raunverulega ekkert nema jákvætt við hann nema eitt atriði. Ég kem að því síðar.

Það er svo að lög eru lög og við gátum ekki komist fram hjá hinum bandarísku lögum um einokun á flutningum til herstöðva Bandaríkjamanna erlendis. Allar ráðagerðir og tilraunir Bandaríkjastjórnar til þess að komast fram hjá þeim lögum reyndust vera fum og gerðar í ráðaleysi. Hins vegar voru flutningarnir til Íslands að mínu viti búnir að afla sér hefðar sem mjög erfitt var að hafna.

Það var furðuleg framkoma í garð okkar Íslendinga að svipta íslensk skipafélög þessum flutningum sem þau höfðu annast árum og áratugum saman athugasemdalaust. Ég er vissulega þeirrar skoðunar að Íslendingar eigi að vera sem minnst háðir herstöðinni í Keflavík. Það getur aldrei verið stefna okkar að byggja þjóðhagslega afkomu okkar á henni. Með þessum nýja samningi held ég að við séum meira að segja að draga úr hinum efnahagslegu áhrifum þar sem m.a. einungis hluti flutninganna kemur í okkar hendur en fyrir nokkrum árum voru þeir nær allir á íslenskum höndum.

Það er enginn vafi á því að herstöðin í Keflavík verður lögð niður í tímanna rás og vonandi fyrr en síðar. En ég vil eindregið vara við því að við förum að ræða óvarlega um endurskoðun eða uppsögn varnarsamningsins frá 1951. Við verðum að hafa ákveðna stefnu, við þurfum að hafa ákveðin atriði í huga, ekki bara einhverjar óljósar hótanir, ekki eitthvert tal um að það þurfi að endurskoða þetta með reglulegu millibili. Hvaða atriði? Höfðum við raunverulega nokkuð í höndum annað en það að við viljum fá Bandaríkjamenn í Keflavík til þess að éta meira ket? Hvaða atriði önnur vildum við hafa? Hv. 5. þm. Austurl. var ráðherra í fimm ár. Ég man ekki til þess að Alþb. hafi þá komið með eina einustu tillögu um endurskoðun á einu né neinu í sambandi við samskiptin við herinn. Hvað veldur því að allt í einu núna, þegar verið er að reyna að koma á samningum um eitt atriði, vissulega frá því sjónarmiði að hér var um atriði sem snertir forræði okkar að ræða og þar af leiðandi alvarlegt, fara menn að tala um endurskoðun á varnarsamningnum, jafnvel uppsögn hans? Líta menn svo á að aðstæður séu slíkar að það sé tímabært? Líta menn svo á að það sé hægt að ná einhverju fram með slíku? Til hvers væri það? Varnarsamningnum verður sagt upp og vonandi verður honum sagt upp með góðu samkomulagi beggja aðila þegar aðstæður bjóða upp á það og að það geti verið liður í víðtækari samdrætti á hernaði, herbúnaði og herstöðvum í heiminum.

Ég ætla ekki að fara lengra út í þessi atriði. Það er vissulega stórt skref sem hér hefur verið stigið. Ég færi utanrrh. sérstakar þakkir fyrir framgöngu hans í þessu máli. Ég tel að hann hafi unnið þar gott starf og að Íslendingar komi frá þessu máli með miklum sóma. Ég segi ekki að Bandaríkjamenn hafi komið með sömu virðingu út úr þessu, enda framkoma þeirra lengi vel þess eðlis að við gátum alls ekki talið að þeir kæmu fram með þeim hætti sem ætla mætti af bandalagsþjóð. En við verðum að gera okkur ljóst eins og ég hef margsagt að ríki á sér engan vin. Við verðum alltaf að byggja á okkur sjálfum og ég er sannfærður um að það voru ekki hótanir um uppsögn varnarsamnings eða annað slíkt sem ollu því að Bandaríkjamenn sáu loksins ljósið í þessu máli heldur samstaða íslensku þjóðarinnar. Og ég skora á þm. að rjúfa ekki þá samstöðu en samþykkja þennan samning. Og að mínu leyti vil ég stuðla að því að afgreiðslu hans verði flýtt í utanrmn. og á þingi.