28.01.1987
Efri deild: 35. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2594 í B-deild Alþingistíðinda. (2413)

125. mál, opinber innkaup

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég var því miður ekki viðstödd lokaafgreiðslu þessa máls í hv. fjh.- og viðskn. Eins og fram kom við 1. umr. málsins hér í deildinni hef ég ýmislegt við það að athuga.

Það eru einkum þrjú til fjögur atriði sem ég er ekki alls kostar sátt við í þessu frv. Það fyrsta er að finna í 2. gr. frv. þar sem segir að yfirstjórn opinberra innkaupa skuli vera falin þremur mönnum. Mér finnst það heldur fámenn stjórn þegar um jafnumfangsmikil og fjármagnsfrek innkaup er að ræða eins og opinber innkaup eru. Þarna hefði ég viljað sjá heldur fleiri aðila.

Í öðru lagi þá finnst mér síðasta setningin í 5. gr. frv. heldur óvarlega orðuð. Þar segir: „Stofnunin ráðstafar eigum ríkisins sem ekki er lengur þörf fyrir.“ Ég hef ekki trú á að þetta eigi eftir að valda vandræðum en betra orðalag hefði að sjálfsögðu verið hægt að hafa þarna.

Það sem ég hef einkum við frv. að athuga er þó að finna í 6. gr. þess. Þar stendur: „Þeirri meginreglu skal fylgt að bjóða út kaup á vörum og þjónustu til rekstrar og fjárfestingar.“ Ekki hef ég á móti því að kaup á vörum og þjónustu séu boðin út en mér finnst fráleitt að binda hendur Innkaupastofnunar með þessum hætti. Ég tel að hún þurfi á hverjum tíma að hafa nægilegt svigrúm til að hafa það verklag sem hagkvæmast er hverju sinni og þess vegna hefði ég talið að heppilegra hefði verið að þarna hefði staðið: Sé sú leið farin að bjóða út kaup á vörum og þjónustu skal o.s.frv.

Að síðustu hefði ég viljað sjá eitthvert ákvæði í þessu frv. um að áherslu skuli leggja á það að kaupa innlendar framleiðsluvörur þegar ríkið gerir sín innkaup. Hér er ekkert slíkt að finna og tel ég það miður. Af þessum ástæðum mun ég sitja hjá við afgreiðslu málsins.