28.01.1987
Efri deild: 35. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2596 í B-deild Alþingistíðinda. (2416)

296. mál, vitamál

Samgönguráðherra (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Í 4. gr. hafnalaga sem afgreidd voru 1984 segir svo: „Hafnamálastjóri skal að fenginni umsögn hafnaráðs skipaður af samgrh. til fimm ára í senn. Hann veitir Hafnamálastofnun ríkisins forstöðu, jafnframt því sem hann gegnir starfi vitamálastjóra og annast framkvæmd laga um leiðsögu skipa. Heimilt er að endurskipa hafnamálastjóra svo oft sem verða vill.“

Þessi breyting á hafnalögum var gerð í samræmi við þá þróun sem hefur verið undanfarin ár í ríkisstofnunum að forsetaskipun forstöðumanns hefur verið felld niður og þar með æviráðning en þeir í þess stað skipaðir af viðkomandi ráðherra til ákveðins tíma. Það sást yfir að gera breytingu á lögunum um vitamál í samræmi við þessa breytingu hafnalaga og því er þetta frv. flutt. Þar er ákvæði um það að vitamálastjóri sé skipaður af samgrh. til fimm ára eins og er með Hafnamálastofnun. En þó að embættin séu tvö lögum samkvæmt er það sami maður sem gegnir þessum embættum og því er þetta frv. flutt.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. samgn.