28.01.1987
Efri deild: 35. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2601 í B-deild Alþingistíðinda. (2424)

181. mál, Kennaraháskóli Íslands

Frsm. menntmn. (Salome Þorkelsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. hv. menntmn. um frv. til l. um breytingu á lögum nr. 38 frá 16. apríl 1971, um Kennaraháskóla Íslands. Þessar breytingar, sem lagt er til að gerðar verði á lögunum, felast í því að orðunum „að jafnaði“ er bætt inn í 2. tölul. 15. gr. laganna annars vegar og hins vegar að í stað „fastra kennara við heimspekideild Háskóla Íslands, í sálarfræði, uppeldisfræði og félagsfræði“ komi orðin: fastra kennara í félagsvísindadeild Háskóla Íslands o.s.frv. Er þetta gert til samræmis við þá breytingu sem orðið hefur á deildaskipun Háskólans frá því að lög nr. 38/1971 voru sett, en ástæðan til þessara brtt. mun vera sú að það geti reynst óheppilegt að hafa jafnfortakslaust ákvæði um kjör forstjóra og er í gildandi lögum. Þær ástæður geta skapast að heppilegra sé að hafa svigrúm til þess að framlengja ráðningu forstjóra Rannsóknarstofnunar uppeldismála, enda séu þeir aðilar sem standa eiga að kjöri forstjóra sammála um það.

Þessi breyting nú mun vera gerð af gefnu tilefni þar sem ekki er hægt að endurráða forstöðumann, sem allir eru sammála um að vilja endurráða, nema þessi breyting laganna komi til. Hér er um að ræða prófessor Sigríði Valgeirsdóttur.

Nefndin hefur fjallað um þetta frv. og mælir einróma með að það verði samþykkt. Árni Johnsen var fjarstaddur þegar málið var afgreitt.