28.01.1987
Neðri deild: 38. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2615 í B-deild Alþingistíðinda. (2432)

174. mál, stjórnarskipunarlög

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Þannig háttar til að hv. 5. þm. Austurl. talaði í þessari umræðu fyrir nokkrum dögum, eins og rækilega hefur komið fram í ræðu hv. síðasta ræðumanns. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson var á mælendaskrá, trúi ég, en mun hafa veikindaforföll og hefur því ekki haft aðstöðu til að taka þátt í þessari umræðu í dag. Ég tel það nú sanngirnismál að fara fram á það við hæstv. forseta að þessari umræðu verði frestað þannig að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hafi aðstöðu til þess að svara þeim vísindum sem hv. 5. þm. Norðurl. v. flutti áðan, svo að ekki komi nú annað til, auk þess sem þetta er hin merkasta umræða og sjálfsagt að reyna að ræða þessi mál ofan í kjölinn þó að maður hefði nú getað haldið af ræðu hv. síðasta ræðumanns að það væri búið að leysa öll vandamál landsbyggðarinnar í eitt skipti fyrir öll vegna skeleggrar forustu Framsfl. Ég hygg að það sé misskilningur þannig að það er full ástæða til að ræða málið áfram. Ég fer fram á það við virðulegan forseta að umræðunni verði frestað ef nokkur kostur er þangað til hv. þm. Hjörleifur Guttormsson getur verið hér á staðnum.