29.01.1987
Sameinað þing: 42. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2618 í B-deild Alþingistíðinda. (2444)

138. mál, kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum

Flm. (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um skipun embættismannanefndar til að fjalla um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum sem er 138. mál þessa þings á þskj. 144. Meðflutningsmenn mínir eru hv. þm. Haraldur Ólafsson og hv. þm. Svavar Gestsson. Mig langar til þess að lesa tillgr., með leyfi forseta:

„Um leið og Alþingi áréttar þá stefnu íslenskra stjórnvalda að kjarnorkuvopn skuli aldrei leyfð í íslenskri lögsögu felur það utanríkisráðherra að beita sér fyrir því á fundi utanríkisráðherra Norðurlanda að sett verði á laggirnar embættismannanefnd á vegum Norðurlanda sem kanni möguleika á og geri tillögur um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum.“

Ekkert ríki á Norðurlöndum hefur nú kjarnorkuvopn á yfirráðasvæði sínu og öll löndin hafa með aðild að samningnum um að dreifa ekki kjarnorkuvopnum (Non-Proliferation Treaty) skuldbundið sig til þess að taka ekki við né framleiða slík vopn.

Skoðanakannanir meðal fólks á Norðurlöndum hafa sýnteindregna andstöðu gegn kjarnorkuvopnum og vaxandi fylgi við hugmyndir um kjarnorkuvopnalaus svæði. Í könnun Ólafs Þ. Harðarsonar um „Viðhorf Íslendinga til öryggis- og utanríkismála“, sem gerð var sumarið 1983 og gefin út af öryggismálanefnd 1984, kom fram að 86% þeirra sem tóku afstöðu voru fylgjandi hugmyndum um kjarnorkuvopnalaus svæði.

Íslensk stjórnvöld hafa hingað til fylgt þeirri stefnu að kjarnorkuvopn skuli aldrei leyfð í íslenskri lögsögu og hefur hún verið í samræmi við þann vilja þjóðarinnar sem kemur fram í ofangreindri könnun.

Þessi stefna var áréttuð í þingsályktun um stefnu Íslendinga í afvopnunarmálum 23. maí 1985, en þar segir, með leyfi forseta:

„Um leið og Alþingi áréttar þá stefnu Íslendinga að á Íslandi verði ekki staðsett kjarnorkuvopn hvetur það til þess að könnuð verði samstaða um og grundvöllur fyrir samningum um kjarnorkuvopnalaust svæði í Norður-Evrópu, jafnt á landi, í lofti sem á hafinu eða í því, sem liður í samkomulagi til að draga úr vígbúnaði og minnka spennu. Því felur Alþingi utanríkismálanefnd að kanna í samráði við utanríkisráðherra hugsanlega þátttöku Íslands í frekari umræðu um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum og skili nefndin um það áliti til Alþingis fyrir 15. nóv. 1985.“

Í framsögu fyrir þessari till. túlkaði formaður utanríkismálanefndar þann landfræðilega skilning á kjarnorkuvopnalausu svæði í Norður-Evrópu að um væri að ræða svæði í Norður-Evrópu sem næði að minnsta kosti yfir Norðurlönd, eyjar á norðanverðu Atlantshafi og Norður-Þýskaland, þ.e. Norður-Evrópusléttuna og allt frá Grænlandi til Úralfjalla. Þetta er afarstórt svæði. Hins vegar stendur einnig í till., eins og ég áður nefndi, með leyfi forseta:

„Því felur Alþingi utanríkismálanefnd að kanna í samráði við utanrrh. hugsanlega þátttöku Íslands í frekari umræðu um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum og skili nefndin um það áliti til Alþingis fyrir 15. nóv. 1985.“

Á s.l. ári hafa þingmenn á Norðurlöndum hist til að ræða þá hugmynd að Norðurlönd verði yfirlýst kjarnorkuvopnalaust svæði.

Þá er fyrst til að taka að engin ákvörðun um skilgreiningu á landsvæði hefur enn verið tekin í þingmannahópnum, þ.e. í þeirri þingmannanefnd sem hist hefur til að ræða hugmyndina um Norðurlönd sem kjarnorkuvopnalaust svæði. En margt hefur verið rætt í því sambandi, t.d. Kolaskagi og Eystrasalt og mörg önnur svæði. Umræðan er því á engan hátt takmörkuð en í fullum gangi jafnt um skilgreiningar landsvæða sem um annað er að málinu lýtur.

Í annan stað fóru fulltrúar allra flokka og samtaka á Alþingi og voru flestir reyndar meðlimir í utanrmn. á fund þingmanna frá Norðurlöndunum sem haldinn var í Kaupmannahöfn um mánaðamótin nóv.-des. 1985 til að ræða hugmyndina um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndunum. Það var í samræmi við samþykkt Alþingis.

Þarna voru mættir fulltrúar frá öllum stjórnmálaflokkum og samtökum á þingum Norðurlandanna og sóttu fundinn um hundrað manns. Það kom í ljós á fundinum að skoðanir manna voru nokkuð skiptar um máletni, en samt var ákveðið að halda umræðunum áfram og var mikill meiri hluti fylgjandi því.

Í þriðja lagi ber að taka fram að því áliti sem átti að skila til Alþingis um þetta mál náðist reyndar ekki að skila fyrir þau tímamörk sem gefin voru. Því var skilað síðar og það var í raun mjög ófullburða og var áfangaálit eingöngu.

Nú hefur verið skipuð þingmannanefnd þar sem fulltrúar 15 þingflokka á Norðurlöndum eiga fulltrúa. Þeir hafa þegar haldið fundi og viðræður um þessi mál halda áfram af fullum krafti. Formaður þingmannanefndarinnar, Anker Jörgensen, sendi samhljóða bréf til forsætisráðherra allra Norðurlandanna, þ.e. þeirra Gro Harlem Brundtland, Ingvars Carlssonar, Steingríms Hermannssonar, Poul Schlüter og Kalevi Sorsa, þann 26. ágúst 1986. Efni bréfsins var að tilkynna um áformaða embættismannanefnd sem væri til umfjöllunar hjá utanrrh. landanna og jafnframt um ósk þingmannanefndarinnar að embættismannanefndin yrði skipuð sem fyrst.

Ég hef hér í höndunum afrit af svarbréfum frá Gro Harlem Brundtland, Ingvari Carlssyni og Poul Schlüter sem öll eru samþykk því að nefndin verði skipuð. Ég veit reyndar að Kalevi Sorsa er þessu einnig samþykkur, en hef ekki svarbréf í höndunum eða afrit af því frá honum. Sömuleiðis hef ég ekki í höndum svar hæstv. forsrh. Steingríms Hermannssonar, en þætti vænt um að hann svaraði fyrir sig ef hann væri hér á fundinum.

Gro Harlem Brundtland nefnir reyndar í þessu svarbréfi að hún vilji tryggja ríkisstjórn sinni sem breiðastan stuðning í norska þinginu við hugmyndina um skipun embættismannanefndarinnar. Nú er sá stuðningur fenginn.

Fulltrúar frá Færeyjum, Álandseyjum og Grænlandi eiga líka sæti í þessari þingmannanefnd. Og það ber að geta þess að það er ótvíræður þingmeirihluti fyrir þessari hugmynd á öllum þjóðþingum hinna Norðurlandanna.

Þessar umræður eru í fullum gangi og það er áætlað að taka ákvörðun um skipan þessarar embættismannanefndar á fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna sem haldinn verður í Reykjavík, þessari borg afdrifaríkra stefnumóta, þann 25.-26. mars n.k. Sú ákvörðun að leyfa skipun embættismannanefndarinnar sem kanni þetta mál jafnframt starfi þingnefndarinnar, og ég vil taka það afar skýrt fram að það er skilningur allra þeirra sem skipa þessa þingmannanefnd að það sé mjög nauðsynlegt að starf embættismannanefndarinnar þýði ekki eða innifeli að starfið verði tekið úr höndum þingmanna eða að þeir fylgist ekki með heldur verði það samhliða og jafnframt þannig að það starfi bæði þingmannanefnd og embættismannanefnd. Ég tel þessa ráðstöfun bæði sjálfsagða og brýna og ekki fela á neinn hátt í sér stefnubreytingu í utanríkismálum.

Engar ákvarðanir hafa enn verið teknar um þetta mál í þessum umræðum. Málið er enn fyrst og fremst á umræðustigi. Ég tel það vera mjög mikilvægt að Íslendingar eigi fulla aðild að þessum viðræðum á öllum stigum málsins því að þannig getum við best komið hugmyndum okkar og tillögum á framfæri. Ég tel jafnframt að það mundi vera ekki bara misráðið heldur afar hættulegt ef Íslendingar yrðu einir viðskila við hinar Norðurlandaþjóðirnar í svo mikilvægum umræðum um utanríkis- og afvopnunarmál. Þessi till. er flutt til að tryggja að svo verði ekki. Og ég treysti því að hæstv. utanrrh. sjái sóma sinn í því að bera hag íslensku þjóðarinnar fyrir brjósti í þessu máli.