29.01.1987
Sameinað þing: 42. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2622 í B-deild Alþingistíðinda. (2447)

138. mál, kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Í þessari þáltill. er að því vikið að þm. á Norðurlöndum hafa hist til að ræða hugmyndina um að Norðurlönd verði yfirlýst kjarnavopnalaust svæði. Enn fremur er sagt að það sé mikilvægt fyrir Íslendinga að eiga fulla aðild að þessum viðræðum á öllum stigum málsins því að þannig getum við best komið hugmyndum okkar og tillögum á framfæri.

Ég er sammála þessari athugasemd. Tillagan er afdrifarík fyrir íslenska öryggishagsmuni og þess vegna tel ég nauðsynlegt að Íslendingar fylgist með þessum umræðum og komi sínum sjónarmiðum á framfæri. A.m.k. allt fram undir það að komið verði til ákvörðunar. Þá getur það ráðist af því hvort ágreiningur er um þær tillögur sem meiri hlutinn kann að ná samstöðu um. Ég tel það þess vegna misráðið af fulltrúum þingflokks Sjálfstfl. að hafa tekið ákvörðun um að taka ekki þátt í þessu að svo stöddu.

Síðan segir hér, herra forseti, með leyfi:

„Í ráði er að skipa embættismannanefnd sem vinni að tillögugerð jafnframt starfi þingmannanefndarinnar.“

Þingflokkur Alþfl. hefur efasemdir um þau vinnubrögð af ýmsum ástæðum. Af sjálfu leiðir að það er ekkert athugavert við það þótt stjórnvöld, utanrrn. í hverju landi fyrir sig, setji niður embættismannanefnd til að velta fyrir sér ýmsum tæknilegum hliðum þessara mála enda hafa ýmis ráðuneyti gert það. Þar vitna ég t.d. í Colding-skýrsluna norsku, greinargerðir frá Finnum og reyndar ofurlitla samantekt úr íslenska utanrrn. Allt er það út af fyrir sig gagnlegt. Sérstaklega þykir mér Colding-skýrslan norska athyglisverð þar sem rætt er á hlutlægan máta um bæði rökfræðilegar veilur og tæknilega annmarka á framkvæmd hugmyndarinnar eins og hún hefur yfirleitt verið rædd.

Hitt er annað mál að við höfum efasemdir um að það séu góð vinnubrögð eða skynsamleg að þessi fimm ríki setji niður sameiginlega embættismannanefnd. Ástæðurnar eru ýmsar og þessar helstar:

1. Þetta er auðvitað hápólitískt mál, stórpólitískt mál. Þar af leiðir að það er ekki á færi embættismanna að fjalla um málið fyrr en búið er að taka veigamiklar pólitískar ákvarðanir. Það er ekki í þeirra verkahring, ekki á þeirra færi.

2. Öryggishagsmunum þessara fimm ríkja er ákaflega misjafnlega fyrir komið. Tvö þessara landa eru hlutlaus, þ.e. framfylgja öryggisstefnu sem byggist á vopnuðu hlutleysi. Þrjú þessara landa eru hins vegar aðilar að varnarbandalagi þannig að þau hafa farið ólíkar leiðir í öryggismálum. Mér er hulin ráðgáta hvernig sameiginleg embættismannanefnd ríkja, þriggja sem eru í varnarbandalögum og tveggja hlutlausra, ætti að geta starfað saman að einhverju gagni eða einhverju viti jafnhliða og áður en teknar hafa verið pólitískar ákvarðanir í málinu. Ég álykta hins vegar að það er ekkert við það að athuga og getur verið gagnlegt að embættismannanefndir hver í sínu landi reyni að skýra málið, upplýsa það og rannsaka það til að auðvelda um það skynsamlega umræðu og pólitíska ákvarðanatöku.

Herra forseti. Ég tel tímabært að gera Alþingi grein fyrir afstöðu þingflokks Alþfl. í þessu máli, kynna fyrir þingheimi álitsgerð þingflokksins um þessar hugmyndir um Norðurlönd sem kjarnorkuvopnalaust svæði. Rétt er að taka það fram að þessi greinargerð hefur þegar verið afhent formanni þingmannanefndarinnar. Það mun hafa verið gert í byrjun september trúi ég á s.l. hausti. Auk þess hefur þessi álitsgerð verið send utanríkis- og varnarmálaráðuneytum Norðurlanda og Atlantshafsbandalagsríkja og þess vegna tímabært og nú gefst tækifæri til þess að kynna hana rækilega fyrir þingheimi.

Áður en ég geri það vil ég vekja athygli á fréttatilkynningu sem þingflokkur Alþfl. birti um málið á s.l. hausti, en þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Þingflokkur Alþfl. telur nauðsynlegt að íslensk stjórnvöld og stjórnmálaflokkar taki þátt í umræðunni um þetta mál milli ríkisstjórna og stjórnmálaflokka á Norðurlöndum þar sem framkvæmd slíkra tillagna, ef til kemur, getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir íslenska öryggishagsmuni. Þingflokkur Alþfl. gerir það að tillögu sinni að ríkisstjórnir Norðurlandanna þriggja sem aðild eiga að Atlantshafsbandalaginu taki þessi mál sameiginlega til umræðu á samstarfsvettvangi Atlantshafsbandalagsins.“

Þetta er að mínu viti tillaga sem æskilegt væri að fá rædda og æskilegt væri að fá upplýst m.a. af hálfu hæstv. utanrrh. og ríkisstjórnar um undirtektir. Er utanrrh. Íslands reiðubúinn til þess að beita sér fyrir því að þetta mál verði tekið upp til sérstakrar umræðu og til sérstaks samráðs innan Atlantshafsbandalagsins áður en lengra er haldið í viðræðum við m.a. tvö hlutlaus ríki?

Í þessari fréttatilkynningu segir einnig, með leyfi forseta:

„Hingað til hafa engar fastmótaðar tillögur legið fyrir um framkvæmd þessa máls. Nú hefur hins vegar verið sett á laggirnar fjölmenn þingmannanefnd sem hyggst láta vinna drög að samkomulagi um framkvæmd málsins og leggja fyrir ríkisstjórnir landanna. Þar með er tímabært að ríkisstjórnir Noregs, Danmerkur og Íslands taki þetta mál upp innan Atlantshafsbandalagsins þar sem einhliða framkvæmd slíkra tillagna á að fara fram á landsvæði sem nú tilheyrir sameiginlegu varnarsvæði Atlantshafsbandalagsins auk þess sem slíkar einhliða aðgerðir samræmast ekki núverandi varnarstefnu bandalagsins. Af þessum ástæðum er ríkisstjórnum landanna þriggja beinlínis skylt að hafa samráð við aðrar bandalagsþjóðir sínar þar sem einhliða framkvæmd þessara hugmynda getur haft neikvæð áhrif á öryggishagsmuni þeirra.“

Ég árétta þá spurningu til hæstv. utanrrh.: Hver er afstaða hans til þessa máls? Hefur hann kannske þegar rætt þetta mál við samstarfsaðila sína, utanrrh. þeirra annarra Norðurlanda sem í Atlantshafsbandalaginu eru? Ef svo er, hverjar hafa verið undirtektirnar? Hafi svo hins vegar ekki verið, er hæstv. utanrrh. reiðubúinn til þess að beita sér fyrir. því, áður en lengra verðúr haldið í starfi þingmannanefnda, ég tala nú ekki um embættismannanefnda, taki hann þetta mál upp við utanrrh. annarra Norðurlanda í Atlantsbandalaginu og beiti sér fyrir því að þetta verði rætt sameiginlega innan bandalagsins?

Herra forseti. Ég tel ástæðu til að kynna þingheimi álitsgerð þingflokks Alþfl. um málið eins og hún hefur verið birt í heild sinni og send þingmannanefndinni sem um málið fjallar og eins og ég sagði áðan utanríkis- og varnarmálaráðuneytum Norðurlanda og Atlantshafsbandalagsins. Í þessari álitsgerð segir svo, með leyfi forseta:

„Eftir stríð hafa Norðurlönd verið sammála um að velja ólíkar leiðir til að tryggja öryggi sitt og sjálfstæði. Svíþjóð og Finnland eru utan bandalaga en treysta á eigin varnir. Noregur, Danmörk og Ísland hafa ekki treyst sér til að fara þessa leið. Þessi lönd eru fullgildir aðilar að sameiginlegu öryggis- og varnarkerfi lýðræðisríkjanna. Þetta öryggiskerfi hefur reynst vel í 40 ár í okkar heimshluta, bæði fyrir Norðurlöndin og Vestur-Evrópu í heild. Varnarbandalag lýðræðisríkja byggir á þeirri forsendu að um sameiginlegt varnarsvæði sé að ræða. Yfirburðir Sovétríkjanna á sviði venjulegra vopna valda því að öryggi Vestur-Evrópu hefur í allt of miklum mæli byggst á fælingarmætti kjarnorkuvopna með hótun um beitingu þeirra ef til innrásar eða vopnaðra átaka kemur. Þetta er veiki punkturinn í varnarstrategíu Atlantshafsbandalagsins, bæði hernaðarlega og pólitískt. Vilji ríki Vestur-Evrópu afsala sér kjarnavopnum er hinn kosturinn að óbreyttum ástæðum sá að stórauka varnarviðbúnað með venjulegum vopnum. Þykir það fjárhagslega og pólitískt ófýsilegt er aðeins ein leið eftir, að ná gagnkvæmu samkomulagi er taki til Evrópu allrar um allsherjarafvopnun, fjarlægingu og eyðileggingu kjarnavopna, fækkun og samdrátt herja og þá hugsanlega í kjölfarið um afvopnuð landsvæði milli bandalaga.

Ágreiningur virðist vera uppi um það hvernig eigi að ná þessum markmiðum. Almenningur hefur orðið fyrir miklum vonbrigðum með seinagang og árangursleysi í afvopnunarviðræðum stórvelda. Pólitískt gætir mikillar óþolinmæði. Þess vegna komu upp hugmyndir um að einstök ríki eigi að taka frumkvæði, taka sig út úr bandalögum og reyna að ná sérsamningum um takmörkuð svæði.

Hugmyndin um Norðurlönd sem kjarnavopnalaust svæði sem byggi á tryggingum annars hvors eða beggja stórveldanna um að samkomulagið verði virt er af þessum toga. Frumkvæðið að þessari hugmynd kemur frá Sovétríkjunum. Það er auðvitað í samræmi við meginmarkmið sovéskrar utanríkisstefnu sem er að rjúfa samstöðu lýðræðisríkjanna og sérstaklega varnarsamstarf Vestur-Evrópu og Bandaríkjanna. Það sem er hagkvæmt út frá sovéskum markmiðum er að öðru jöfnu ekki endilega í samræmi við öryggishagsmuni lýðræðisríkjanna. Varnarsamstarf lýðræðisríkjanna eftir stríð, sem gefið hefur svo góða raun, byggir á mörgum forsendum. Þær eru sögulegar, pólitískar og hernaðarlegar. Ein forsendan er sú að ekkert þessara ríkja getur séð öryggishagsmunum sínum gagnvart Sovétríkjunum borgið á eigin spýtur. Við erum þess vegna allir háðir hver öðrum.

Einhliða aðgerðir eins ríkis eða nokkurra í hóp geta haft mjög neikvæð áhrif á öryggishagsmuni annarra. Aðildin að sameiginlegu öryggiskerfi veitir ekkí aðeins réttindi heldur leggur líka skyldur á herðar. Frumskyldan er sú að rjúfa ekki þetta sameiginlega öryggiskerfi með einhliða aðgerðum án undangengins samráðs við bandalagsþjóðir og án þess að vita nákvæmlega hvað komi í staðinn. Einhliða aðgerðir sem raska þessu öryggiskerfi samrýmast einfaldlega ekki þeim skyldum sem bandalagsþjóðirnar hafa sameiginlega tekið á sig. Þess vegna er nú tímabært áður en lengra er haldið umræðum um kjarnavopnalaus svæði á Norðurlöndum milli þjóðþinga og ríkisstjórna að bandalagsríkin þrjú, Noregur, Danmörk og Ísland, taki þessi mál sameiginlega upp til umræðu á samstarfsvettvangi Atlantshafsbandalagsins. Ef við sættum okkur ekki við óbreytta varnarstefnu bandalagsins ber okkur skylda til að reyna fyrst til þrautar að fá henni breytt í samstarfi og samráði við bandalagsþjóðir. Okkur ber skylda til að kanna hvaða afleiðingar einhliða aðgerðir af okkar hálfu hafa að þeirra mati á öryggishagsmuni annarra ríkja innan bandalagsins. Í þessu felst ekkert afsal á pólitískum sjálfsákvörðunarrétti. Í þessu felst ekki að ríkin líti á sig sem peð í stórveldatafli. Í þessu felst aðeins viðurkenning á de facto samstarfsnauðsyn bandalagsþjóðanna og vilji til að standa við skuldbindingar um heiðarleg og sjálfsögð vinnubrögð milli bandalagsríkja.

Sérstaða Íslendinga í öryggismálum er mikil. Hún markast af legu landsins, hernaðarlegu mikilvægi, varnarleysi þjóðarinnar sjálfrar. Þessar aðstæður valda því að Íslendingar treysta sér ekki til að byggja öryggi sitt á óvopnuðu hlutleysi og voninni um að það verði virt. Þess vegna á hugmyndin um sameiginlegt öryggiskerfi lýðræðisríkjanna djúpan hljómgrunn meðal Íslendinga. Þess vegna er það ekki í samræmi við íslenska öryggishagsmuni að standa að einhliða aðgerðum sem raska ríkjandi öryggisjafnvægi og auka spennu. Þannig erum við algerlega sammála yfirlýsingu af hálfu norsku ríkisstjórnarinnar þar sem segir:

„Það skal tekið skýrt fram að af hálfu norskra stjórnvalda kemur ekki til greina þátttaka í einangruðu og sérstöku kjarnavopnalausu svæði milli Norðurlandanna og Sovétríkjanna einna.“

Þetta kemur fram í skjali frá norska utanrrn. og þessa tilvitnun má reyndar finna í erindi sem forseti norska Stórþingsins flutti á ráðstefnu þingmanna á Norðurlöndum í Kaupmannahöfn og tilvitnunin er höfð í hans erindi. Þess vegna var það forsendan fyrir ályktun Alþingis um kjarnavopnalaus svæði frá 23. maí 1985 að svæðið er skilgreint landfræðilega sem Norður-Evrópa, allt frá Grænlandi til Úralfjalla og tekur til kjarnorkuvopna jafnt á landi, í lofti sem og á hafinu eða í því. Af þessu getur augljóslega ekki orðið nema til komi samkomulagsvilji beggja hernaðarbandalaga í þessum heimshluta. Þetta þýðir að Sovétríkin, sem eru eina ríkið í okkar heimshluta sem beinir kjarnavopnum gegn Norðurlöndum, verði að vinna það til að fjarlægja kjarnavopn úr Eystrasalti og frá Kolaskaga og að vesturveldin gerðu slíkt hið sama, að fjarlægja kjarnavopn á meginlandi Evrópu og umferð kjarnorkuvopnaðra kafbáta í Norður-Atlantshafi. Svo stórpólitískar breytingar á skipan öryggismála í Evrópu gerast ekki með einhliða yfirlýsingum heldur geta þær aðeins orðið sem niðurstaða gagnkvæmra samninga.

Norðurlönd eru eins og allir vita kjarnorkuvopnalaus: Það hefur því enga hernaðarlega merkingu að þau lýsi yfir svo augljósum hlut. Slík einhliða yfirlýsing dugar ekki til að fjarlægja kjarnorkuvopnahótun sem beint er gegn Norðurlöndum. Einhliðá trygging Sovétríkjanna um að virða kjarnorkuvopnaleysi slíks svæðis er ekki nóg. Afgönum reyndist ekkert hald í tryggingu sovétstjórnarinnar gegn beitingu vopnavalds sem gefin var í samningi í desember 1978 sem forsenda svokallaðs vináttusamnings þjóðanna. Fjarlæging skammdrægra kjarnorkuvopna sem beint er að Norðurlöndum er heldur ekki nóg. Staðsetning kjarnorkuvopna er ekki aðalatriðið heldur fjöldi þeirra, langdrægni og eyðileggingarmáttur. Vandamálin við eftirlit stórveldanna með kjarnavopnalausu svæði eru óleyst. Skerðing á pólitísku fullveldi sem gæti hlotist af pólitískum þrýstingi og hótunum stórveldisins í austri gagnvart Norðurlöndum er óaðlaðandi framtíðarsýn. Neikvæð áhrif slíkrar einhliða yfirlýsingar á samningsstöðu lýðræðisríkjanna um gagnkvæma afvopnum eru óæskileg. Niðurstöðurnar eru þessar:

Hugsanlegar einhliða aðgerðir ríkisstjórna á Norðurlöndum, um Norðurlönd sem kjarnorkuvopnalaus svæði geta haft neikvæð áhrif á öryggi Íslands. T.d. getur það haft í för með sér fjölgun kjarnavopna í kafbátum á Atlantshafi. Við höfum því hagsmuna að gæta að taka þátt í umræðunni um hugsanlegt kjarnorkuvopnalaust svæði í Norður-Evrópu. Samkvæmt okkar hugmyndum verður slíkt kjarnavopnalaust svæði að ná landfræðilega yfir miklu stærra svæði en Norðurlöndin ein. Það felur í sér nauðsyn gagnkvæmra samninga beggja varnarbandalaga um útfærslu slíkra hugmyndar. Við treystum okkur ekki til að vera aðilar að einhliða yfirlýsingu sem nær aðeins til Norðurlandanna fimm og byggir aðeins á sovéskum tryggingum. Við teljum að ræða eigi þessa hugmynd í breiðara evrópsku og pólitísku samhengi. Við teljum að Atlantshafsbandalagsríkjunum þremur beri skylda til áður en lengra er haldið að taka þetta mál upp til ítarlegrar umræðu við bandalagsþjóðirnar innan Atlantshafsbandalagsins. Við vekjum athygli á að málið er stórpólitískt í eðli sínu. Við teljum því óframkvæmanlegt að setja upp sameiginlega embættismannanefnd fimm ríkisstjórna til þess að fjalla um málið sem er hápólitískt og á að vera í höndum stjórnmálamanna. Fagleg rannsókn á vegum utanríkis- og varnarmálaráðuneyta landanna á ótal vandamálum óleystum sem upp munu koma við framkvæmd kjarnavopnalauss svæðis í Norður-Evrópu er hins vegar af hinu góða.“

Herra forseti. Þetta er sá texti sem þingflokkur Alþfl. hefur sent þingmannanefndinni sem nú fjallar um þetta mál. Og áður en ég lýk máli mínu legg ég enn áherslu á það að fyrir utan almenna greinargerð um afstöðu og rökstuðning fyrir henni felst í þessari greinargerð ákveðin tillaga og tilmæli til utanríkisráðherra Íslendinga að hann beiti sér fyrir því, áður en lengra er haldið umræðum um þetta mál við m.a. hin hlutlausu ríki á Norðurlöndum, að þetta mál verði tekið upp til sameiginlegrar umræðu og athugunar innan Atlantshafsbandalagsins. Ég vænti þess að hæstv. utanrrh. svari því hér á eftir.