29.01.1987
Sameinað þing: 42. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2634 í B-deild Alþingistíðinda. (2451)

138. mál, kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum

Flm. (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að minnast á orð hæstv. utanrrh. sem mér fannst í raun ekki gefa afdráttarlausa yfirlýsingu um efni þessarar till. Ég vil gera athugasemdir við mál hans og mun minnast á nokkur atriði.

Hann byrjaði á því að segja að það væri verið að kanna af skrifstofustjórum utanríkisráðuneyta Norðurlandanna hver grundvöllur væri fyrir stofnun slíkrar embættismannanefndar. Hvað á hæstv. utanrrh. við þegar hann talar um hver sé grundvöllur fyrir stofnun slíkrar embættismannanefndar?

Í öðru lagi sagði hann að þessi könnun stæði yfir og henni væri ekki lokið og þar af leiðandi gæti hann ekki svarað því að ekkert væri komið út úr könnuninni. Hvenær lýkur þá þessari könnun? Það er ekki langt eftir þangað til fundur utanríkisráðherranna verður haldinn, 25. mars n.k., né heldur er langur tími eftir af þessu þingi. Og ég vil ítreka þá fsp. sem þegar hefur verið beint til hæstv. utanrrh.: Hvenær má vænta skýrslu um utanríkismál? Því að það er mikilvægt að geta undirbúið sig undir þá umræðu, það eru mörg mál í brennidepli nú sem þarf að ræða og taka afstöðu til í öryggis- og varnarmálum og friðarmálum almennt.

Ráðherra gaf engar persónulegar upplýsingar, þ.e. um sína eigin afstöðu, en ef ég man rétt þá var haldinn fundur utanríkisráðherra Norðurlandanna í Stokkhólmi á s.l. ári og þar tók utanrrh. afstöðu gegn því að slík nefnd væri skipuð minnir mig. Hann studdi alla vega ekki hugmyndina. Og ég vil ítreka fsp. til hans: Hver er afstaða hans til þessarar hugmyndar, þ.e. þeirrar hugmyndar sem rakin er í efni till.?

Ég vil ítreka það sem ég sagði áðan, það er ekki búið að afmarka það svæði sem um verður að ræða. Það hefur engin ákvörðun verið tekin um það. Því vill ekki hæstv. utanrrh. koma sjónarmiðum sínum og ríkisstjórnar sinnar á framfæri í þessum umræðum? Hvað er það sem hann og hinir þm. Sjálfstfl. og hv. 5. þm. Reykv., sem genginn er úr salnum, hvað er það sem þeir hræðast? Hvað óttast þeir við þessa embættismenn? - Ég vil ítreka fsp. mína vegna þess að nú er genginn í salinn hv. 5. þm. Reykv.: Hvað er það sem hann og sjálfstæðismennirnir óttast ef þessi embættismannanefnd verður skipuð? Það er engin pólitísk ákvarðanataka í höndum nefndarinnar, þetta er vinnunefnd fyrst og fremst sem skipuð er til þess að afgreiða ákveðin atriði fyrir þingmannanefndina og vinna jafnframt og meðfram vinnu hennar. Og ég leyfi mér að spyrja: Tíðkast það ekki í samstarfi Norðurlandanna á öðrum vettvangi, t.d. á vettvangi Norðurlandaráðs, að skipaðar séu embættismannanefndir til þess að útfæra ákveðna vinnu fyrir t.d. þingmennina og þingin? Er almennur ótti við embættismenn á Norðurlöndum? Óttast menn skipun embættismannanefndar? Af hverju stafar þessi hræðsla og hver hefur sagt þessum mönnum að ráðin yrðu tekin úr höndum þeirra, að þeir yrðu sviptir pólitískum ákvörðunarrétti? Ég skil ekki þessa hræðslu. Mér er það alveg óskiljanlegt. Þeir hafa kannske meiri reynslu af Norðurlandasamstarfi sem hefur gefið þeim tilefni til að óttast þetta.

Það var ekkert rætt um mikilvægi þess að einhvers staðar í heiminum væru lýst kjarnorkuvopnalaus svæði. Hér er auðvitað um að ræða ákveðið frumkvæði, ákveðið sjálfstætt frumkvæði, ákveðið lítið skref í átt að afvopnun. Skref til þess að knýja á stórveldin til að lýsa yfir vilja sínum til afvopnunar, til að reyna að opna þá læsingu sem verið hefur milli stórveldanna. Og alls ekki, og ég vitna aftur í mál hæstv. utanrrh., alls ekki til þess að rjúfa samstöðu sem náðist með samþykkt þál. um stefnu Íslendinga í afvopnunarmálum, miklu fremur til þess að útfæra hana, til þess að framkvæma hana.

Ég vil víkja í nokkru að máli hv. 5. þm. Reykv. Ég er búin að minnast á þetta með embættismennina, að það er ekki verið að taka ráðin úr höndum stjórnmálamanna, miklu frekar að fá þeim aðstoðarmenn, að fá þeim sérfræðinga til að hjálpa sér til að vinna þetta mál. Íslendingar hafa fyrir sitt leyti ákveðið að lýsa sitt land kjarnorkuvopnalaust. Sama hafa önnur Norðurlönd gert, t.d. Danmörk. Og þetta hafa þau gert án þess að það breyti nokkru um veru þeirra í Atlantshafsbandalaginu því að hv. þm. kom einmitt með þá röksemd í yfirlýsingu frá Alþfl. að fyrirkomulag þessara landa hvað varðar öryggismál væri svo ólíkt að þau gætu ekki unnið saman. En þau hafa samt sitt í hvoru lagi lýst þessu yfir. Því skyldu þessar friðsömu smáþjóðir, sem njóta virðingar á alþjóðavettvangi, ekki einmitt geta rætt saman um þessar yfirlýsingar sínar sem allar eiga við lönd hvers fyrir sig og sýnt frumkvæði sitt og vilja til afvopnunar með því að ræða þessi mál saman?

Ég vil ekki eyða miklum tíma í að svara hefðbundinni ræðu hv. 5. þm. Reykv., sem einkennist sífellt af anda kaldastríðs, hræðslupólitík og óvinaímyndum og er undarleg úr huga félagshyggjumanns og jafnaðarmanns, ég hef svo oft komið með mótrök gegn þessu tali. En þó vil ég ítreka og endurtaka einu sinni enn að kjarnorkuvopn tryggja ekki öryggi neins. Það getur engin þjóð bjargað sér eða sínum með því að svara fyrir sig með kjarnorkuvopnum. Til þess eru áhrif þeirra of víðtæk og afdrifarík og þess vegna er heldur ekki hægt að nota neina rökleiðslu sem gengur út frá þessari forsendu vegna þess að forsendan er ekki brúkleg, hún er ekki nothæf og þess vegna er ekki hægt að rökleiða út frá forsendu sem stenst ekki. Það eru falsrök.

Hann talaði einnig um að hann vildi ekki ræða hugmynd sem væri í svona víðu pólitísku samhengi. En hvernig vill hann byrja að ræða hugmyndina? Veit hann ekki að löng ganga byrjar með einu skrefi? Einhvers staðar verður að byrja. Það kann að vera að hann vilji ekki byrja og ég vil ítreka fsp. sem áður var borin til hans: Ætlar hann í raun að beita sér fyrir því að fulltrúi Alþfl. á Íslandi verði ekki áfram með í þessum viðræðum? Ætlar hann að beita sér gegn því að þessi till. verði samþykkt hér á þinginu?

Hv. 3. þm. Reykv. hélt því fram að þm. Alþfl. og þm. Sjálfstfl. kynnu e.t.v. að beita sér gegn þessari till. og greiða atkvæði gegn henni. Ég neita að trúa því. Ég neita að trúa því að þeir muni taka svo örlagaríkt skref, og í mínum huga svo hættulegt og fáránlegt skref. Ég bið menn að hugleiða hve örlagarík sú ákvörðun væri að skilja Ísland frá hinum Norðurlöndunum í þessu máli. Ef hin Norðurlöndin ná einhverri sameiningu um það að lýsa svæði sín kjarnorkuvopnalaus þá verður Ísland eitt eftir staðsett í Norður-Atlantshafinu, þar sem aukist hefur vígbúnaður á s.l. árum, það verður eitt eftir af Norðurlöndunum sem ekki yrði yfirlýst kjarnorkuvopnalaust svæði sem hluti af heild. Verður þá hlustað á yfirlýsingu Íslendinga sem þegar liggur fyrir um að þeir vilji ekki kjarnorkuvopn á sínu landsvæði? Verður sú yfirlýsing virt þegar þeir hafa enga samstöðu með öðrum þjóðum í þeim efnum?

Hv. 4. þm. Reykv. taldi að þessi umræða væri of smá í sniðum, það yrði að setja hana strax í stærra samhengi, þ.e. hún ætti betur heima innan Atlantshafsbandalagsins en innan Norðurlandanna sjálfra. Hafa þm. Sjálfstfl. eða hæstv. utanrrh. rætt þessa hugmynd á vettvangi Atlantshafsbandalagsins? Hafa þeir tekið þessa hugmynd upp í umræðum þar, því að þar finnst þeim hún eiga heima? Og þeir hafa aðgang að Atlantshafsbandalaginu. Því vil ég spyrja. Enn vil ég ítreka að hugmyndin er ómótuð því að hv. 4. þm. Reykv. vísaði henni frá á þeim forsendum að hún væri svo óljós. En hvenær er það ekki á byrjunarstigi umræðna að hugmyndirnar eru einmitt ómótaðar og óljósar? Í því liggur einmitt styrkur umræðunnar að svo margir geta komið sínum hugmyndum að til þess að móta þá ákvörðun sem endanlega verður tekin. Og ég sé ekki neinn tilgang eða ég sé bara ekki meininguna með því að ganga frá umræðum af því að hugmyndir í umræðum á byrjunarstigi eru ekki fullmótaðar. Ég sé eiginlega ekki samhengið í því. Lítum bara á þá þál. sem var samþykkt hér á þinginu um stefnu Íslendinga í afvopnunarmálum. Ef ég man rétt þá tók umræðan um þá till. marga fundi og það var svo langt frá því að hugmyndirnar væru fullmótaðar í byrjun. Þær voru ekki bara óljósar, það var ágreiningur um þær, en það tókst að ná samstöðu um þessar hugmyndir sem voru óljósar og margar.

Hv. þm. minntist líka á hegðun manna í eða utan stjórnar. Þá vil ég svara því til að það sem skiptir auðvitað máli er ekki ein grein eftir einhvern mann sem er orðinn ráðherra, það sem skiptir máli er ákvarðanataka þeirrar stjórnar sem hann er aðili að og þess þings þar sem þessi stjórn ríkir. Og ég vil benda honum á að bæði ríkisstjórnin norska og norska þingið samþykktu skipun embættismannanefndarinnar. Mér fundust það reyndar haldlítil rök hjá hv. 5. þm. Reykv. að vitna til yfirlýsingar frá fyrrv. stjórn Norðmanna. Þau rök geta varla dugað lengur í þessari umræðu. Það hljóta allir að sjá.

Varðandi orð hv. 4. þm. Norðurl. v. þá vil ég segja að þó mikið hafi verið rætt um Kaupmannahafnarfundinn, þá hafa verið fleiri fundir síðan, þeir eru orðnir allmargir. Og ég held að það hafi aldrei verið talað um einhliða yfirlýsingar eingöngu. Alls ekki. Ég er ekki viss um einu sinni að það sé samstaða um slíkt, ég held að um það séu talsvert skiptar skoðanir. Þess vegna er ekki hægt hjá þeim þm. sem það hafa sagt að halda þessu fram af því að það er ekki rétt. Það er engin samstaða um einhliða yfirlýsingar. Það er samstaða um það að ræða málin.

Og ég spyr enn: Hvers vegna í ósköpunum óttast menn það að tala við aðra, jafnvel þó þeir séu ekki sammála þeim í byrjun? Ég hræðist svona útnesjamennsku. Mér finnst hún bera vitni um fordóma, mér finnst hún bera vitni um einangrunarhyggju manna sem búa í litlu landi sem er efst á norðurhjara en verður að hafa samskipti við aðra, ekki síst frændþjóðir sínar. Og gleymið því ekki að í skoðanakönnun, sem ég gat um áðan, þá lýstu Íslendingar einnig yfir því að þeir vildu frekast af öllu hafa samskipti við Norðurlandaþjóðirnar. Svo hvaða ákvarðanir eru menn að taka hérna og í umboði hverra? Ég bara spyr.

Svo vil ég ítreka þessar fsp. sem ég hef borið fram og ég vil alveg sérstaklega biðja hæstv. utanrrh. að lýsa yfir skoðun sinni í málinu.