29.01.1987
Sameinað þing: 42. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2641 í B-deild Alþingistíðinda. (2454)

138. mál, kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Til mín var beint fáeinum spurningum í framhaldi af þessum umræðum. Fyrsta spurningin var frá 3. þm. Reykv. og hún var þessi: Ætlar Alþfl. að draga til baka fulltrúa sinn í þessari þingmannanefnd sem nú ræðir málin? Svarið er nei, þvert á móti. Ég lét þess getið í minni framsögu að ég teldi það misráðið af Sjálfstfl. hér að hafa ekki fulltrúa í þessari nefnd af þeirri einföldu ástæðu að hér er verið að ræða mál sem varðar mjög íslenska öryggishagsmuni. Mér finnst því eðlilegt að við notum tækifærið þar sem annars staðar til þess að koma á framfæri okkar sjónarmiðum og gæta okkar hagsmuna almennt. Að vísu er hugsanlegt, þó að ég telji ekki á því miklar líkur, að þessi nefnd komist að einhverri sameiginlegri niðurstöðu og það er ekki fyrr en ef málið kemst á það stig, að þá er tímabært að taka afstöðu til þess hvort við eigum erindi í áframhaldandi nefndarstarfi. En meðan málið er á umræðustigi þykir mér einsýnt að við eigum að gæta okkar hagsmuna, kynna okkar sjónarmið hvort sem þau eru í einu og öllu samhljóða sjónarmiðum einhverra annarra.

Oft hefur það heyrst sem gagnrýnisatriði á meðferð íslenskra utanrrh. á þessum mikilvæga málaflokki að þeir gæti þess ekki nægilega að reka það sem menn kalla „sjálfstæða íslenska utanríkispólitík“. Hvað svo sem um þá gagnrýni má segja, þá er það sjálfsagður hlutur að við eigum að reka sjálfstæða utanríkispólitík sem markast af hagsmunum Íslendinga og tekur mið af sérstöðu Íslands og það er þáttur þessa máls.

Eins og fram kom í álitsgerð þingflokks Alþfl. hefur það ekki valdið miklum ágreiningi meðal Norðurlandaþjóða hingað til, sú sögulega staðreynd að þær hafa farið ólíkar leiðir í sínum utanríkismálum, sínum öryggismálum og verið býsna ásáttar við það að vera ósáttar, að vera ósammála. Það er alveg óþarfi af okkar hálfu að gagnrýna þær þjóðir sem talið hafa sér fært að tryggja sína öryggishagsmuni með því að lýsa yfir vopnuðu hlutleysi. Finnar eru hlutlaus þjóð utan bandalaga, en styðja það hlutleysi sitt eigin vörnum. Sér í lagi á það þó við um Svía sem hafa lengi kosið að vera utan hernaðarbandalaga en reka hins vegar mjög öflugan her og verja mjög háum upphæðum sem hlutfalli af sinni þjóðarframleiðslu til varnarmála. Sænskt hlutleysi er vopnað hlutleysi og fulltrúar sænskrar utanríkisstefnu hafa ævinlega lagt á það áherslu að sjálfstæði sænskrar utanríkisstefnu sé bundið því að Svíar telji sig geta annast eigin varnir sjálfir og leggja á sig miklar fórnir til þess að gera það.

Hin ríkin þrjú hafa ásamt með flestum öðrum Vestur-Evrópuríkjum komist að þeirri niðurstöðu af biturri reynslu að þau sjái sér ekki fært að tryggja öryggishagsmuni sína á eigin spýtur og hafa því kosið að leita samstarfs við lýðræðisríkin og hafa tryggt öryggi sitt með varnarbandalagi lýðræðisríkja. Þannig að þegar spurt er: Ætla Íslendingar að skilja sig þannig frá Norðurlöndum? eins og hv. 3. þm. Reykv. spurði, þá er það kannske fyrst og fremst röng spurning. Norðurlandaþjóðirnar eru ekki ein heild út frá varnarsjónarmiðum. Þær hafa farið ólíkar leiðir. Engu að síður er samstarf þessara þjóða mikið, náið og gott á mörgum sviðum og það er ekkert sem kemur í veg fyrir að það geti orðið það áfram þótt þær kjósi að fara ólíkar leiðir í öryggismálum.

Síðan er spurt um efnisatriði þessarar till., þ.e. um að sett verði á laggirnar embættismannanefnd. Hv. 3. landsk. þm. spurði: Eru menn hræddir við embættismenn? Er eitthvað að óttast? Nei, það er ekkert að óttast. Það er sauðmeinlaust lið. Hv. 3. landsk. þm. hafði líka stór orð um að það væri óskaplega örlagaríkt skref ef þessi nefnd kæmist nú ekki á koppinn. Ég verð því miður að valda hv. þm. vonbrigðum. Ég held að það sé frekar smátt mál.

Eins og fram kom í mínu máli, þá er þetta spurning um vinnubrögð. Rökin fyrir því að það sé til lítils og reyndar óviðeigandi að setja upp slíka sameiginlega embættismannanefnd eru mörg og ég nefndi nokkur þeirra.

Í fyrsta lagi. Embættismenn eru til þess að þjóna stjórnvöldum í hverju landi fyrir sig. Þeir endurspegla óhjákvæmilega ríkjandi víðhorf ríkisstjórna í sínum ráðuneytum. Þeir hafa ekki umboð frá neinum til þess að móta sjálfstæða utanríkisstefnu. Það er ekki þeirra verksvið. Þeir geta gert gagn sem sérfróðir menn um öryggismál og ég tók það fram í mínu máli áðan að það væri sjálfsagður hlutur, það væri partur af starfi utanríkis- og varnarmálaráðuneyta, að tryggja sér þjónustu sérfræðinga og embættismanna til þess að rannsaka mál, kanna þau, greina þau, reyna að finna einhvern grundvöll. Það gera þau að sjálfsögðu undir verkstjórn utanrrh., pólitísku yfirvaldi í sínum löndum og það er gagnlegt og ekkert við það að athuga, m.a.s. æskilegt. Í því efni nefni ég alveg sérstaklega Colding-skýrsluna norsku sem var mjög þarft framlag til þessarar umræðu. Hún er ákaflega óljós, lopakennd, en Colding-skýrslan kom henni svona ögn nær jarðneskum viðfangsefnum, skilgreindi svolítið vandamál og var að því leyti þarft framlag.

Það sem ég er að segja er ósköp einfaldlega að þetta er spurning um vinnubrögð og sjónarmiðið er þetta: Tvö þessara ríkja eru hlutlaus, þau eru utan bandalaga. Þrjú þeirra eru innan bandalaga. Það að vera í varnarsamtökum leggur þessum ríkjum ákveðnar skyldur á herðar og ég legg á það megináherslu að það er heimsins eðlilegasti hlutur að þau ríki sem eru í varnarbandalagi ræði um varnarmál við bandalagsríki sín. Það eiga þau að sjálfsögðu að gera sameiginlega vegna þess að ákvarðanir um einhliða aðgerðir geta skaðað hagsmuni annarra ríkja. Þess vegna er það að ég lít svo á að það sé óeðlilegur hlutur að bandalagsríki og síðan tiltekin tvö ríki utan bandalaga setji niður einhverja nefnd embættismanna til þess að fjalla um hápólitískt mál sem pólitískar ákvarðanir hafa ekki verið teknar um. Það er einfalt mál.

Á það hefur verið minnst að samkvæmt skoðanakönnunum sé meiri hluti fyrir því að Norðurlönd séu kjarnorkuvopnalaust svæði. Það er alveg tvímælalaust. Ég gæti trúað að í reynd væri sá meiri hluti 100%, ég gæti trúað að það væri algjörlega ágreiningslaust. Ég þekki ekki einn einasta mann, ekki einn einasta einstakling, ekki einn einasta stjórnmálamann, engan pólitískan hóp sem er andvígur því að Norðurlöndin verði það sem þau eru, kjarnorkuvopnalaust svæði. Þannig að ekki kemur manni á óvart að það liggi fyrir að það væru 99,9% íbúa Norðurlandanna sem vildu að Norðurlöndin væru kjarnorkuvopnalaust svæði. Þau eru það og það er út af fyrir sig ánægjulegt að það liggur fyrir að það er yfirgnæfandi stuðningur við óbreytt ástand að því leyti.

En það er líka staðreynd að skoðanakönnun hér á landi hefur leitt til þeirrar niðurstöðu að yfirgnæfandi meiri hluti Íslendinga er fylgjandi aðild Íslands að varnarsamtökum vestrænna lýðræðisríkja. Mig minnir að í þeirri könnun Félagsvísindastofnunar sem á því var gerð hafi niðurstaðan orðið sú að um 85% aðspurðra væru fylgjandi því.

Nú er ekkert sem kemur í veg fyrir það að Ísland sé aðili að Atlantshafsbandalaginu en sé um leið kjarnorkuvopnalaust í reynd. Hitt er svo annað mál að það er líka staðreynd að varnarstefna Atlantshafsbandalagsins í okkar heimshluta byggir á því að ef til innrásar á þetta landsvæði kemur, þá liggur fyrir hótun um beitingu kjarnorkuvopna. Kjarnorkuvopn eru ekki vopn í venjulegum skilningi en varnir Vestur-Evrópu og reyndar hins vestræna bandalags hafa á tímabilinu eftir stríð m.a. byggst á þessari hótun. Þetta er hvimleið staðreynd og veldur mönnum áhyggjum en er engu að síður staðreynd. Bandalagið byggist á því að um sé að ræða sameiginlegt varnarsvæði og ef einstök ríki innan bandalagsins geta ekki sætt sig við þá varnarstefnu sem bandalagið byggir á, þá tel ég að þau standi frammi fyrir þeirri spurningu í fyrsta lagi: Hvað vilja þau gera til þess að fá þessari varnarstefnu breytt? Og mættu gjarnan gera það sameiginlega, þau sem vildu beita sér fyrir því, eða í annan stað: Ef þau m.a.s. telja að hafandi gert þá tilraun hafi það ekki leitt til árangurs, þá standa þau auðvitað frammi fyrir þeirri spurningu hvort þau vilji segja sig úr þessu bandalagi og reyna að tryggja sér sérfrið eða reyna að sjá öryggishagsmunum sínum borgið með öðrum hætti.

Þegar menn leggja áherslu á það að líta verði á þetta mál í víðara samhengi, landfræðilega, pólitískt, hernaðarlega, þá þýðir það ósköp einfaldlega að allir vita að það stafar engum hernaðarleg ógn frá Norðurlöndum, jafnvel þrátt fyrir þá staðreynd að þeim er búin ákveðin hernaðarleg ógn frá grannríki sínu. Spurningin er: Fá þau einhverju áorkað ein og sér með einhliða yfirlýsingum eða geta menn gert sér vonir um árangur í afvopnunarmálum með því að lýðræðisríkin komi fram sameiginlega og hafi sameiginlega stefnu í afvopnunarmálum? Það er ekki nóg t.d. að segja: Við óttumst kjarnorkuvopn. Við viljum afnema kjarnorkuvopn. Það er ekki nóg að segja það. Það verður að leita pólitískra leiða til þess að koma því í framkvæmd. Geta menn gert það? Geta einstök ríki sem skipta litlu máli að því er varðar varnarmálefni eða hernaðarleg málefni almennt, geta þau gert það einhliða með einhverju frumkvæði eða geta þau aðeins gert það með því að treysta samstöðu sína og leita eftir gagnkvæmum samningum? Um þetta er ágreiningur. Ég fyrir mína parta lýsi því yfir að það er grundvallarsannfæring mín að einhliða aðgerðir séu vonlitlar og reyndar skaðlegar og ég tel að eina leiðin sem fær er í afvopnunarmálum sé sú að lýðræðisríkin treysti samstöðu sína í þeim efnum.

Athugasemd var gerð við það að í þessari álitsgerð þingflokks Alþfl. hefði verið vitnað í greinargerð fyrir hönd fyrrv. ríkisstjórnar í Noregi. Á því er sú einfalda skýring að sú ríkisstjórn var við völd þegar greinargerðin var samin og eins og fram hefur komið, þrátt fyrir ríkisstjórnarskipti í Noregi, þá er ekki mikilla breytinga að vænta í reynd á afstöðu norsku ríkisstjórnarinnar.

Hv. 3. landsk. þm. notaði orð eins og „nesjamennsku“ og „einangrunarpólitík“, (GA: Útnesjamennsku.) „útnesjamennsku“ og „einangrunarpólitík“. Það er vandséð við hvað hv. þm. á. Sú afstaða sem öryggisstefna Íslands hefur byggst á er ekki einangrunarstefna. Hornsteinn hennar er samstaða lýðræðisríkjanna í varnarsamstarfi. Ástæðan er einföld: Ekkert eitt þessara ríkja getur séð öryggishagsmunum borgið á eigin spýtur. Hún byggist þess vegna á alþjóðlegu samstarfi ríkja sem byggja á lýðræðislegu skipulagi og hafna valdbeitingu í innri málum sínum. Hvort einhliða aðgerðir fáeinna ríkja í Norður-Evrópu eða á Norðurlöndum flokkast undir aukið víðsýni eða andstæðu við útnesjamennsku, það læt ég öðrum eftir að dæma um.

Mér kemur ekkert á óvart þótt hv. 3. þm. Reykv., formaður Alþb., og eins talsmaður Kvennalistans séu á öndverðri skoðun við mig eða okkur jafnaðarmenn í þessum málum. Það ætti ekki að koma neinum á óvart að því er Alþb. varðar. Alþb. og forverar þess hafa allan tímann verið málsvarar þeirrar stefnu að Ísland ætti að vera hlutlaust, að Ísland ætti að bjóða þegnunum upp á það öryggi sem óvopnað hlutleysi býður, væntanlega byggt á þeirri von að það hlutleysi verði virt. Alþb. er andvígt aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og það er andvígt veru varnarliðs hér í landinu. Þess vegna er það fullkomlega rökrétt út frá þessum forsendum að Alþb. styðji hugmyndir um það að Íslendingar taki upp einhliða aðgerðir sem leiði að lokum til þess að Íslendingar segi sig úr Atlantshafsbandalaginu. Það er fullkomlega rökrétt og mjög auðskilið og ekkert við það að athuga. Það mætti kannske þykja tíðindum sæta ef afstaða Alþb. væri önnur.

Að því er varðar afstöðu Kvennalistans í utanríkismálum, þá hefur mér yfirleitt virst hún vera í reynd sú hin sama hvort sem forsendur þeirra eru aðrar eða ekki.

Herra forseti. Stundum eru þessi mál rædd út frá þeim forsendum að þeir sem styðja aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu séu þar með aðilar að hernaðarbandalagi. Þeir séu þar með fylgjandi „militarisma“ eða andvígir friðarstefnu. Og þeir sem eru annarrar skoðunar kalla sig gjarnan friðarsinna eða fylgjendur friðarstefnu. Þetta mál gætum við náttúrlega rætt endalaust, en það er ástæða til að spyrja: Hvað er friðarpólitík? Hvað er friðarstefna? Er það hlutleysi? Er það einangrunarstefna? Er það einhliða afvopnun? Eða er það jafnréttmæt skoðun a.m.k. að sameiginlegt varnar- og öryggiskerfi lýðræðisríkjanna geti verið í þágu friðar? Við skulum láta að sinni nægja að vísa til reynslunnar í okkar heimshluta. Á sama tíma og 150-160 blóðugar styrjaldir hafa verið háðar í öðrum heimshlutum, þá hefur a.m.k. Vestur-Evrópa notið friðar. Ég held að það sé hafið yfir vafa ef menn skoða söguna að ein meginforsendan fyrir því er varnarsamstarf vestrænna lýðræðisríkja.

Ég leyfi mér því að halda því fram að varnarsamstarf lýðræðisríkjanna sé friðarpólitík og vísa því á bug að einhliða aðgerðir, einangrunarstefna eða hlutleysi sé líklegra til að stuðla að friði og vísa þá einnig til reynslu þeirra þjóða sem harðast hafa orðið úti í styrjöldum í öðrum heimshlutum á okkar samtíð. Þau hafa ekki notið öryggis af sameiginlegu varnarsamstarfi, þau hafa ekki getað tryggt öryggi sitt upp á eigin spýtur og þau hafa orðið fórnarlömb árásaraðila sem hafa talið sig geta komið fram valdbeitingu vegna þess að þau væru veikari aðilinn. Þetta hefur ekki leitt til friðar.

Í þeirri skiptingu heimsins sem við búum við held ég að það væri æskilegt að þær ríkisstjórnir og þær þjóðir sem styðjast við lýðræðislegt stjórnarfar reyndu að efla samstöðu sína, koma fram sameiginlega sem friðarafl, m.a. í afvopnunarmálum gegn þeim ofbeldisöflum, hvort heldur þau kenna sig við hægri eða vinstri, sem fyrst og fremst eru ógnun við friðinn í heiminum.