29.01.1987
Sameinað þing: 42. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2650 í B-deild Alþingistíðinda. (2457)

138. mál, kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Það er alveg rétt, sem fram kom hjá síðasta ræðumanni, hv. þm. Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur, að þetta mál er ekkert flókið. Það er alveg nákvæmlega rétt að ályktunin hljóðar um að vinna að kjarnorkuvopnalausri Norður-Evrópu, eins og þm. margsinnis tók fram, og leita til þess allra leiða, þar á meðal að ræða um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd. Það höfum við verið að gera. Ég sé ekki að þm. hafi beint verið að halda því fram að þeir væru hræddir við embættismenn. Það er ég aldeilis ekki. En ég lýsti því yfir á síðasta þingi og það gerðu raunar fleiri, t.d. hv. þm. Páll Pétursson, formaður þingflokks Framsfl., að það væri vafasamt að færa málið af stjórnmálasviðinu, hinni stjórnmálalegu umræðu eins og fer hér fram í dag, inn í embættismannanefndir. Ég skal ekkert segja að það sé rétt, þessi vafi í mínum hug og hv. þm. Páls Péturssonar t.d. Auðvitað geta stjórnmálamenn rætt áfram og munu ræða áfram um þessi mál þó þau séu jafnframt rædd eitthvað í embættismannanefndum. En ég held að það verði dráttur á því að embættismennirnir skili áliti. Það skal fullkomlega játað að það hefur orðið dráttur á því að íslenskir embættismenn hafi getað aðstoðað utanrmn. og undirnefnd utanrmn. við að koma greinargerðum á framfæri. Þar er auðvitað um tímaskort að ræða. Það er takmarkaður mannafli í utanrrn.

Gunnar Gunnarsson, framkvæmdastjóri öryggismálanefndar, hefur skýrt mér frá því og nefndinni hve erfiðlega gangi að vinna verk hjá hans stofnun. En hins vegar minnir mig að hann hafi gert ráð fyrir því að einmitt um þetta leyti mundum við geta vænst einhvers álits frá honum og samantektar um málið. Ég ætla einmitt að ganga eftir því hvort það gæti orðið til umræðu eða framlagningar í öllu falli á fundinum á mánudaginn. Ég man ekki nákvæmlega hans tímasetningu, en það mun hafa verið um þetta leyti sem hann var að vonast til þess að geta látið okkur fá einhver skjöl í hendurnar.

Það er rétt að við ætluðum okkur á árinu 1985 að hafa greinargerð í höndum hinn 15. nóvember. Um það leyti var þessi fundur í Kaupmannahöfn og við unnum mikið að undirbúningi hans og mættum þar mörg og töluðum öll. Eins og ég sagði í fyrri ræðu minni hafa þær ræður nú allar verið gefnar út í bæklingi og eru aðgengilegar hverjum þeim sem vill kynna sér þær. Þar er það alveg ljóst að það er skoðun ómótmælt, a.m.k. okkar sjálfstæðismanna sem þar vorum mættir, að það væri verið að ræða um kjarnorkuvopnalausa Norður-Evrópu og umræðurnar um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd væru aðeins liður í því. Það gæti ekki af minni hálfu a.m.k., og enginn að íslensku fulltrúunum mótmælti því, komið til greina nein sérstök yfirlýsing um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd. Þau væru öll kjarnorkuvopnalaus og slík yfirlýsing hefði enga þýðingu aðra en þá að við værum búin að gefast upp á því að reyna að hafa eitthvert víðtækara svæði, svæði sem skilgreint var þannig að það gæti náð frá ströndum Grænlands til Úralfjalla og yfir Norður-Evrópulágsléttuna alla leið frá Norðursjó til Úralfjalla, yfir a.m.k. norðurhluta Þýskalands, Pólland og Ráðstjórnarríkin. Auðvitað er Kolaskagi þar innifalinn sem er partur af Norðurlöndum. Ef það væri skýrt markað að hann væri inni í kjarnorkuvopnalausu svæði á Norðurlöndum væri það auðvitað mikill áfangi. Það skal ég játa. Ég skyldi með glöðu geði berjast fyrir því ef það væri hægt að fella Kolaskaga þarna inn í.

En frá mínu sjónarmiði er málið ljóst. Það er verið að vinna að því. Ég held að það gangi ekkert seinna, hv. þm. Sigríður Dúna, að vinna þetta mál, ekkert mikið seinna en hjá hinum Norðurlandaþjóðunum. Við höfum fengið greinargerðir frá þeim sem eru auðvitað meiri að vöxtum og kannske einhverjar upplýsingar sem við ekki höfum fengið hér innanlands, en þessu hefur nú verið safnað saman. Auðvitað er ágreiningur þar um þetta mál og þetta hefur verið notað þar í innanlandspólitík og menn breytast nokkuð eftir því hvort þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu eins og hér hefur komið fram.

En ég held að ég fari með það mál rétt að Norðurlandaþjóðirnar allar séu að gera sér grein fyrir því að kjarnorkuvopnalaust svæði sem einangraðist við Norðurlöndin ein og þá Kolaskagi ekki meðtalinn er auðvitað tilgangslaus yfirlýsing sem hefur ekkert upp á sig. Ég held að við höfum unnið þetta mál rétt. Það hefur unnist seint. Við erum öll stolt af ályktuninni frá 1985, frá 23. maí.

Þess hefur verið getið að ritstjóri Morgunblaðsins hafi verið ósáttur með að þessar skýringar um Norður-Evrópu væru ekki í ályktuninni sjálfri heldur í greinargerð sem ég flutti af hálfu nefndarinnar með þessari ályktun í minni framsögu. Ég sé lítinn mun á því hvort skilgreiningin er í slíkri greinargerð eða yfirlýsingu eða í till. sjálfri. Mér finnst till. sjálf segja allt sem þarf að segja og ég er nákvæmlega sammála hv. síðasta ræðumanni um það að málið snýst um kjarnorkuvopnalausa Norður-Evrópu. Það má að sjálfsögðu taka það í einhverjum skrefum, en að það séu Norðurlöndin einangruð hefur ekkert upp á sig. Það yrði að ná til einhvers af öðrum NATO-löndum og Varsjárbandalagslöndum til þess að það yrði einhver árangur sem um væri talandi.