02.02.1987
Efri deild: 36. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2659 í B-deild Alþingistíðinda. (2473)

271. mál, Þróunarsjóður fyrir Færeyjar, Grænland og Ísland

Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):

Virðulegi forseti. Frv. þetta til laga um þróunarsjóð fyrir Færeyjar, Grænland og Ísland er runnið frá Norðurlandaráði. Má rekja það til vaxandi starfsemi Norðurlandaráðs á sviði atvinnu- og efnahagsmála sem m.a. hefur komið fram í Norræna fjárfestingasjóðnum.

Á undanförnum þingum ráðsins hefur allmjög verið um það rætt að eðlilegt væri að stuðla sérstaklega að atvinnuþróun á Norðvestur-Atlantshafinu. Þetta var m.a. rætt á fundi Norðurlandaráðs hér á landi 1985 og hlaut þá mjög ákveðinn stuðning. Hafa fulltrúar Íslands hjá Norðurlandaráði fylgt þessu máli mjög eftir.

Niðurstaðan varð því sú að Norðurlandaráð samþykkti að setja á fót umræddan sjóð sem má nefna eins konar byggðasjóð fyrir Norðvestur-Atlantshafið. Sérstaklega mun mikil þörf á ýmiss konar grundvallaruppbyggingu bæði á Grænlandi og í Færeyjum, en Ísland var talið eðlilegur liður þarna á milli vegna staðsetningar, enda ýmislegt sem gera þarf í þessum tveimur nágrannalöndum okkar tengt því sem hér þróast. Veldur því nálægð landanna, Færeyja við austurhluta landsins og Grænlands við vesturhlutann. Öllum má vera ljóst að á milli þessara landa þarf að vera náið samstarf á ýmsum sviðum atvinnumála.

Þetta frv. er lagt fram jafnhliða till. til þál. um staðfestingu á þessum milliríkjasamningi, en frv. er nauðsynlegt vegna þess að umræddur sjóður þarf ýmsar undanþágur frá gildandi lögum, eins og segir t.d. í 2. gr.:

„Sjóðurinn skal undanþeginn ákvæðum laga nr. 63/1979, um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála, svo og annarra laga er setja kunna hömlur á greiðslur í erlendum gjaldeyri, gjaldeyrisviðskipti eða heimildir til lántöku erlendis, að svo miklu leyti sem slík ákvæði hindra eða torvelda starfsemi sjóðsins eða efndir skuldbindinga hans.“

Sömuleiðis segir í 3. gr.: „Sjóðurinn skal vera undanþeginn aðstöðugjaldi, landsútsvari, tekju- og eignarskatti, svo og öðrum gjöldum sem lögð kunna að vera á tekjur, eignir eða veltu til ríkis eða sveitarfélaga.“

Í 4. gr.: „Lánssamningar, sem sjóðurinn er aðili að, skulu vera undanþegnir stimpilgjöldum og öðrum gjöldum til hins opinbera.“

Í athugasemdum við frv. koma fram ítarlegar skýringar á stofnsetningu sjóðsins og starfsemi hans. Sömuleiðis kemur fram í samþykktum sem fylgja með athugasemdum hvernig fjármagna skal sjóðinn. Er í fáum orðum gert ráð fyrir því að fjármagn það sem rann til Iðnþróunarsjóðs hér á landi á sínum tíma verði flutt í þennan sjóð, m.a. stofnframlag Íslands sem samsvarar 400 þús. bandaríkjadala.

Frv. þetta var flutt heldur seint því að gert var ráð fyrir að meðlimaríki staðfestu samninginn fyrir síðustu mánaðamót, sem nú er komið fram yfir, en það gat ekki orðið fyrr vegna þess að þing kom ekki saman hér fyrr en 19. jan. eins og menn þekkja. En mikilvægt er að þetta mál fái einnig í þessari hv. deild hraða meðferð eins og það fékk í hv. Nd.

Ég vil svo, virðulegi forseti, leggja til að frv. þessu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.