02.02.1987
Neðri deild: 39. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2660 í B-deild Alþingistíðinda. (2475)

193. mál, fasteigna- og skipasala

Frsm. allshn. (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 539, nál. allshn. Nd. um frv. til l. um breytingu á lögum um fasteigna- og skipasölu, nr. 34 frá 1986, sem er 193. mál Nd.

Þetta frv. er borið fram, eins og segir í grg. þess, til þess að taka af öll tvímæli um að ákvæði nýsamþykktra laga um fasteigna- og skipasölu frá 5. maí á síðasta ári, um að fasteignasali skuli leggja fram tryggingu fyrir greiðslu kostnaðar og tjóns sem viðskiptamenn hans kunna að verða fyrir af hans völdum, skuli ná til allra þeirra sem slíka starfsemi stunda. Þar sem orðalag laganna, sem ég vitnaði til, þykir ekki nægilega skýrt í þessu efni að því er varðar þá sem hafa leyfi til fasteignasölu samkvæmt eldri lögum hefur verið valinn sá kostur að bera fram þetta frv. til breytinga á lögunum.

Allshn. hefur fjallað um málið og aflað umsagna ýmissa aðila um það og leggur nefndin til að það verði samþykkt með þeirri breytingu sem hún flytur á sérstöku þskj. Brtt. er á þskj. 540 og lýtur einungis að gildistökuákvæði frv. Í frv. er gert ráð fyrir að þær breytingar sem það fjallar um taki gildi 1. jan. 1987. Það liggur í augum uppi að sú dagsetning er ekki lengur við hæfi og brtt. nefndarinnar er að lög þessi öðlist gildi 1. júní 1987.

Aðrar breytingar gerir nefndin ekki á þessu frv., en undir nál. rita auk mín Jóhanna Sigurðardóttir, Stefán Guðmundsson, Pálmi Jónsson og Ólafur Þ. Þórðarson. Guðrún Helgadóttir og Friðjón Þórðarson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.