23.10.1986
Sameinað þing: 7. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í B-deild Alþingistíðinda. (248)

64. mál, málefni Nikaragúa

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér till. til þál. um stuðning við yfirlýsingu Alkirkjuráðsins um málefni Nikaragúa. Með mér eru flm. að þessari till. hv. þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir og hv. þm. Haraldur Ólafsson. Till. er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að styðja yfirlýsingu Alkirkjuráðsins í september 1986 um Nikaragúa og felur ríkisstjórninni að beita áhrifum sínum þannig að koma megi í veg fyrir efnahagslega og hernaðarlega íhlutun gegn Nikaragúa.“

Í grg. með till. er vísað til þess að á aðalfundi Alkirkjuráðsins, sem haldinn var í Reykjavík 15.19. september s.l., var m.a. fjallað um málefni Nikaragúa og efnahagslega og hernaðarlega íhlutun Bandaríkjastjórnar gegn landinu. Alkirkjuráðið samþykkti af þessu tilefni yfirlýsingu sem birt er sem fskj. með till. þessari í íslenskri þýðingu. Með því að samþykkja þessa þáltill. tæki Alþingi undir þessa yfirlýsingu og þá hvatningu Alkirkjuráðsins að ríkisstjórnir beiti áhrifum sínum til að binda enda á þessa íhlutun og í stað hennar þyrftu að koma aukin viðskipti og aðstoð við landið.

Herra forseti. Ég tel ekki þörf á að hafa mjög mörg orð um þessa till., en vil þó leyfa mér að vitna í yfirlýsingu Alkirkjuráðsins, nokkur atriði sem þar koma fram sem draga upp þau sjónarmið sem að baki samþykktar Alkirkjuráðsins liggja. Þar segir í upphafi:

„Fullveldi Nikaragúa er í hættu. Gerðar hafa verið árásir á landið og ráðist gegn sjálfsákvörðunarrétti þjóðarinnar. Reynt er að hindra að hún fái að ráða eigin örlögum. Fólkið má nú þola sársauka og þjáningar. Þjóðin hrópar á hjálp til að ná friði og réttlæti.

Blygðunarlausar tilraunir ríkisstjórnar Bandaríkjanna til að koma ríkisstjórn Nikaragúa á kné urðu öllum ljósar þegar Bandaríkjaþing samþykkti 100 millj. dala aukafjárveitingu til svokallaðra contraskæruliða. Samþykkt þessi kemur í kjölfar þess að Bandaríkjastjórn neitaði að fallast á niðurstöðu Alþjóðadómstólsins um að stuðningur Bandaríkjanna við uppreisnaröflin í Nikaragúa væri brot á alþjóðalögum. Fjölmennir hópar Bandaríkjamanna, þar á meðal innan kirkjunnar, hafa lýst yfir andstöðu sinni gegn stefnu stjórnvalda varðandi Nikaragúa.

Í sambandi við nýafstaðna heimsókn stjórnarnefndar heilbrigðismáladeildarinnar til Nikaragúa og fund deildarinnar, sem þar var haldinn og fjallaði um þátttöku kirkjunnar í þróunarstarfsemi, veittist fulltrúum Alkirkjuráðsins á ný tækifæri til að hlýða á rödd fólksins í Nikaragúa og heyra um árangur þess, sérstaklega á sviði menntamála og heilsugæslu, svo og um vandamál þjóðarinnar. Báðir aðilar lögðu áherslu á að nauðsynlegt væri að ítreka stuðning hinnar almennu kristnu kirkju við Nikaragúa á þessum miklu þrengingartímum. Enn fremur var skýrt frá áhrifum efnahagslegra refsiaðgerða og hernaðaríhlutunar Bandaríkjanna í Nikaragúa.“

Alkirkjuráðið gerði síðan tillögu framkvæmdanefndar ráðsins að sinni þar sem m.a. segir: „Alkirkjuráðið skorar á aðildarkirkjurnar að hvetja ríkisstjórnir landa sinna til að beita áhrifum sínum þannig að koma megi í veg fyrir efnahagsleg afskipti af Nikaragúa og hernaðaríhlutun í landinu og að auka viðskipti og aðstoð við þjóðina.“

Undir þessa áskorun Alkirkjuráðsins vænti ég að hv. Alþingi geti tekið einhuga. Þó við séum hér aðeins fulltrúar þriggja þingflokka sem berum þetta mál fram trúi ég ekki öðru en hv. Alþingi eigi eftir að standa sameinað að undirtektum við áskorun Alkirkjuráðsins varðandi málefni Nikaragúa. Hér er um smáríki að ræða á mælikvarða heimsins, smáríki sem hefur leitast við að móta sjálfstæða stefnu um sín efni en hefur orðið fyrir freklegri íhlutan varðandi sín málefni. Það er auðvitað von allra, sem fylgjast með málefnum Mið-Ameríku og víðar í löndum hins svokallaða þriðja heims, að þjóðirnar þar megi einar og án íhlutunar utan frá, hernaðaríhlutunar utan frá fá ráðið málum sínum, náð að þróa efnahag sinn og stjórnarfar, helst í lýðræðisátt, og fái einnig efnahagslegan stuðning svo sem eðlilegt er frá þeim sem betur mega sín í heiminum. Það ætti ekki að vera ofætlan okkur Íslendingum að veita málstað þessarar þjóðar liðsinni og taka undir þá stefnu og mat sem fram kemur í yfirlýsingu Alkirkjuráðsins.

Ég legg til, herra forseti, að till. þessari verði að lokinni umræðu vísað til hv. utanrmn.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.

1