02.02.1987
Neðri deild: 39. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2666 í B-deild Alþingistíðinda. (2481)

280. mál, kosningar til Alþingis

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Eins og kunnugt er hefur þingið fjallað um kosningalög oft undanfarin ár með því að kosnar hafa verið sérstakar kosningalaganefndir hér í Nd. eftir að hæstv. dómsmrh. hefur lagt fram frv. til l. um breytingu á gildandi kosningalögum.

Frv. dómsmrh. felur í raun og veru í sér óhjákvæmilegar tæknilegar lagfæringar sem alltaf hefur legið fyrir að gera þyrfti þannig að um þær þarf svo sem ekki að hafa nein orð. Ef menn hefðu talið þær breytingar sem hæstv. dómsmrh. hefur lagt til í frv. ríkisstjórnarinnar, sem er í raun og veru samkomulagsfrumvarp allra flokka hér í þinginu, þ.e. þeirra flokka sem hafa fjallað um þetta mál á undanförnum árum, nægilegar væri málið löngu afgreitt.

Niðurstaðan hefur hins vegar orðið sú í kosningalaganefndinni að það væri óhjákvæmilegt að taka þarna til athugunar fleiri atriði. Það er ekki nokkur vafi á því að allir nefndarmenn, hver fyrir sig, hefðu gjarnan viljað taka ýmis atriði kosningalaganna til verulegrar endurskoðunar að ekki sé fastar að orði kveðið. Málið dróst hins vegar svo úr hömlu að það var sett þing í haust án þess að þessi mál hefðu verið ákveðin, flokkarnir höfðu stillt upp sínum framboðslistum allt í kringum landið með tilliti til gildandi kosningalaga, eins og þau voru samþykkt árið 1983-1984, og þess vegna var það auðvitað alveg fráleitt að ætla sér að gera á þessum lögum verulegar breytingar vegna þess að með þeim hætti hefðu menn í rauninni verið að koma aftan að því fólki sem hefur verið að ganga frá framboðslistum þúsundum saman allt í kringum landið núna síðustu mánuði.

Þess vegna var niðurstaðan sú, eins og hv. þm. Páll Pétursson gerði grein fyrir áðan, að það væru aðeins teknar tæknilegar lagfæringar sem samkomulag gæti náðst um. Ég vil upplýsa það hér að þingflokkur Alþb. hefur þegar fyrir tveimur vikum veitt nauðsynleg umboð af sinni hálfu í þessu máli og ég tel að þetta mál liggi þannig að það eigi að vera hægt að afgreiða þetta í kosningalaganefndinni strax í þessari viku enda gangi þeir flokkar sem eftir eiga að fjalla um málið frá viðeigandi umboðum til sinna manna á þingflokksfundum í dag. Meðal þeirra breytinga sem ég tel líklegt að geti orðið samkomulag um eins og staðan er núna, án þess að ég vilji fara út í það alveg í smáatriðum, ég tel það ekki viðkunnanlegt á þessu stigi, er veruleg breyting á úthlutun jöfnunarsætanna að því er varðar úthlutun þeirra í annarri umferð jöfnunarsætaúthlutunar. Hún gengur núna þannig fyrir sig að það er byrjað á að úthluta fyrst í minnsta kjördæminu og síðan koll af kolli en í þeim hugmyndum sem ræddar hafa verið hefur verið gert ráð fyrir því að kjördæmin keppi um úthlutun jöfnunarsætanna á grundvelli þingsætishluta án tillits til stærðar kjördæmanna en þó með tilliti til þess sem gerst hefur í fyrstu umferð úthlutunarinnar, þ.e. hvort flokkur hefur fengið úthlutun á 0,8 þingsætishlutum eða ekki.

Mér sýnist að þetta ásamt fleiri atriðum sem horfa til einföldunar og skýringa stefni allt í þá átt að samkomulag eigi að geta tekist. Ég satt að segja hef unnið þannig í nefndinni fyrir hönd Alþb. að reyna að stuðla þarna að sem víðtækustu samkomulagi. Ég geri mér ljóst eins og ég sagði í upphafi að það er óánægja með þessi kosningalög að mörgu leyti. Þó held ég að þegar menn hafa kosið eftir grundvallarreglum þessara laga í eins og 50 ár eða svo verði menn jafnánægðir með þau og gömlu kosningalögin og sáttir við þau þegar menn eru búnir að læra á þetta kerfi. Þetta kerfi er í grundvallaratriðum tiltölulega mjög glöggt og rökrétt og skýrt og það er held ég mikið einfaldara en margur hefur viljað vera láta í umræðum um kosningalögin að undanförnu og gefst vonandi tækifæri til að fara yfir það efnislega í umræðum þegar málið kemur til meðferðar.

Ég endurtek: Ég hef skilið það svo, eins og hv. 2. þm. Norðurl. v., að það væri að nást samkomulag í þessari kosningalaganefnd og með tilliti til þess þá hef hvorki ég né aðrir þm. Alþb. farið að flytja tillögur um einstakar breytingar á frv. eins og það kom frá hæstv. dómsmrh.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.