02.02.1987
Neðri deild: 39. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2668 í B-deild Alþingistíðinda. (2484)

Þingstörfin og þinghaldið

Samgönguráðherra (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þessi fsp. kemur hér fram undir þingsköpum. Ég ætla ekki að fara að ræða efnislega um bankamál en það liggur ljóst fyrir að tillögur hafa verið gerðar í þessum málum af þeim sem hefur verið falið að vinna að undirbúningi þeirra og viðræður stóðu um tíma á milli Seðlabanka og tveggja einkabanka. Tveir aðrir einkabankar vildu ekki vera með í þeim viðræðum, upp úr þeim slitnaði og þá var gerð tillaga um aðra lausn samkvæmt tillögum Seðlabankans sem ég þarf ekki að gera að umræðuefni. Þær hafa verið opinberaðar og nú síðustu tvær vikur hefur þessi tillaga verið til umræðu á milli stjórnarflokkanna. Á þessari stundu hefur ekki náðst samkomulag á milli þeirra en málið verður rætt á þingflokksfundum beggja stjórnarflokka í dag og á ríkisstjórnarfundi á morgun og þá væntanlega skýrist það hvaða leið verður farin.