02.02.1987
Neðri deild: 39. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2670 í B-deild Alþingistíðinda. (2487)

Þingstörfin og þinghaldið

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég vil leggja áherslu á og taka undir þær fsp. sem hafa komið fram hjá hv. 3. þm. Reykv. um að þau mál sem nauðsyn er að þetta þing ljúki afgreiðslu á komi fram sem fyrst og þá ekki síst þau stóru mál sem okkur hafa nú aðeins verið kynnt. Mér er reyndar sama þó þau séu vélrituð eins og fram kom í máli hv. 3. þm. Reykv. en mér er ekki sama um það hversu hrá þau eru látin í hendur okkar. Ég er eiginlega alveg gáttuð á sérfræðingum ríkisstjórnarinnar að láta málin frá sér fara svona hrátt unnin. Ekki nema það komi til að stjórnarandstöðunni sé ætlað að hafa áhrif á gang mála og koma með tillögur á þessu frumstigi.

Hins vegar hafa bæði ráðherra og hv. 3. þm. Reykv. talað um að stutt væri eftir af þessu þinghaldi en það veit í raun og veru enginn hversu langt þetta þinghald á að vera. Það veit í raun og veru enginn fyrir víst hvenær verður kosið. Það gengur eins og munnmælasaga milli manna að það verði 25. apríl og það gengur líka eins og munnmælasaga milli manna að þinginu ljúki um miðjan mars. En hér sitjum við sem vinnum á þessum stað og við vitum ekki hvenær störfum okkar á að ljúka. Þess vegna vil ég koma með fsp. til hæstv. ráðherra sem hér sitja: Hvenær er áætlað að kosningar verði og hvenær er áætlað að þessu þingi muni ljúka? Við verðum öll að taka þátt í þeirri vinnu sem hér verður unnin áður en þingi lýkur og það er lágmarkskrafa að við getum vandað vinnubrögð okkar og það gerum við ekki nema við skipuleggjum þau.