02.02.1987
Neðri deild: 39. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2673 í B-deild Alþingistíðinda. (2491)

281. mál, orkulög

Iðnaðarráðherra (Albert Guðmundsson):

Hæstv. forseti. Á þskj. 508 er flutt frv. til laga um breyting á orkulögum, nr. 58 frá 29. apríl 1967, og fyrsti flm. er Kjartan Jóhannsson.

Eignar- og nýtingarréttur jarðhita hefur oft verið til umræðu á Alþingi, enda er um mikilvægt þjóðhagslegt mál að ræða. Reyndar hefur kostnaður einstakra hitaveitna við að afla sér jarðhitaréttinda ekki vegið þungt sem hluti af heildarstofnkostnaði. Sá vandi sem notendur jarðhita hér á landi eiga við að stríða er annar. Erfitt hefur reynst að ná samstöðu um lagabreytingar varðandi jarðhitaréttindi, en nokkrar tillögur hafa komið fram.

Ég vil þá nefna fyrst till. Alþýðubandalagsmanna sem þeir fluttu um að allur jarðhiti undir 100 metrum verði eign ríkisins. Í umsögnum einstakra lögfræðinga hefur verið dregið í efa að slík löggjöf væri samræmanleg eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Auk þess er það mín skoðun að forsendur 100 metra reglunnar séu orðnar breyttar vegna tækniframfara. Fjölmargir einkaaðilar hafa nýtt jarðhita í um og yfir 1000 metra dýpi. Mér er ljóst að Bjarni sálugi Benediktsson var fylgjandi 100 metra reglunni og rökstuddi hana hér á Alþingi 1945, en það var við aðrar forsendur en nú eru.

Annað sem ég vil nefna. Á vegum iðnrn. hefur verið unnið, eins og kom fram hjá hv. frummælanda, að frv. er byggist á þeirri forsendu að allur jarðhiti á afréttum og almenningi verði lýstur eign íslenska ríkisins. Hefur það frv. verið til umfjöllunar á vegum ríkisstjórnarinnar um alllangt tímabil, en hefur ekki hlotið nægilegan stuðning. Þess skal getið að flest helstu háhitasvæðin eru á afréttarlöndum eða í almenningum og því leysti þetta lagafrv. verulegan hluta af því máli sem frv. Alþýðuflokksmanna fjallar um.

Í þriðja lagi vil ég víkja nánar að því frv. sem hér er til umræðu. Samkvæmt frv. skal jarðhitasvæði teljast háhitasvæði ef innan þess finnst 200 gráða hiti ofan við 1000 metra dýpi. Þá er kveðið svo á um að ríkið eigi allan rétt til umráða og hagnýtingar jarðhita á háhitasvæðum. Frv. Alþfl. er því nær þeim hugmyndum sem verið hafa til athugunar á vegum iðnrn. en hugmyndir Alþýðubandalagsmanna.

Eitt virðast menn þó almennt vera á einu máli um. Það er að sveitarfélög skuli njóta tiltekinna forréttinda til nýtingar á þeim jarðhita sem þannig verður í eigu ríkisins. Telja verður þetta mikilvægt, enda eru sveitarfélögin þeir aðilar sem helst nýta jarðhita hér á landi. Helstu forsendur löggjafar af þessu tagi og eldri löggjöf eru raktar í greinargerð og þarf ég því ekki að endurtaka það hér. Hins vegar árétta ég það sem segir í niðurlagi álitsgerðar lagadeildar Háskóla Íslands í fskj. II með frv., en þar segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Niðurstaða lagadeildar er því sú, að ofangreint frv. feli ekki í sér stjórnarskrárbrot ef það verður að lögum. Hins vegar verði að gera ráð fyrir því að það geti í einstökum tilfellum haft í för með sér bótaskyldu fyrir ríkissjóð gagnvart eigendum jarðhitaréttinda.“

Samkvæmt áliti lagadeildar getur frv. því takmarkað rétt einkaaðila þó að bætur komi fyrir. Mér væri því meira að skapi ef hægt væri að ná samstöðu um þær tillögur sem ég hef áður nefnt og varða jarðhitaréttindi á afréttum og almenningum. Þær tillögur varða reyndar aðeins afrétti sem ekki eru háðir beinum eignarrétti annarra aðila. Að svo mæltu treysti ég mér ekki til að mæla með samþykkt þess frv. sem hér er á dagskrá þó að það falli nær skoðunum mínum en aðrar tillögur sem til umfjöllunar hafa verið um þetta málefni.

Ég vil geta þess að lokum að á vegum iðnrn. hefur verið unnið að því að finna enn aðrar leiðir til að ráða fram úr þessum vanda og sú vinna er í gangi.

Ég sé ekki ástæðu til þess að kynna hér frekar þær tillögur sem umrædd nefnd lagði fyrir ráðuneytið og eru nú til athugunar í ríkisstjórninni en ég sé heldur enga ástæðu til að fela þær fyrir hv. fyrsta flm. ef hann óskar eftir að fara yfir þær.