03.02.1987
Sameinað þing: 44. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2675 í B-deild Alþingistíðinda. (2494)

260. mál, snjómokstursreglur

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 343 hef ég leyft mér að bera fram svohljóðandi fsp. ásamt hv. 5. þm. Austurl. Hjörleifi Guttormssyni til hæstv. samgrh.:

„1. Er þess að vænta að snjómokstursreglur Vegagerðar ríkisins verði endurskoðaðar á næstunni?

2. Hverjar eru líkur á rýmkun reglna um ruðningsdaga um Oddsskarðsveg og Fjarðarheiði?" Ekki þarf að orðlengja um eðlilegar kröfur fólks sem við vissa einangrun býr varðandi snjómokstur og einnig meiri sveigjanleika varðandi ruðningsdaga. Ég minni á samþykkt bæjarstjórnar Neskaupstaðar, senda hæstv. samgrh. í byrjun desember, þar sem býsna fast er að orði kveðið um þörf úrbóta þar sem það er m.a. talið til sjálfsagðra mannréttinda að snjó sé rutt af Oddskarðsvegi þegar þess er kostur. Orðrétt segir þar, með leyfi forseta:

„Það hljóta að teljast sjálfsögð mannréttindi að íbúar þessa stærsta byggðarlags á Austurlandi sitji við sama borð og nágrannabyggðirnar, m.a. með tilliti til sívaxandi samskipta þeirra á milli, svo sem á heilbrigðis-, mennta-, félags- og viðskiptasviði. Þá er það gjörsamlega óþolandi að það skuli margendurtaka sig að fólk kemst ekki leiðar sinnar um Oddsskarð vegna þess að smáfarartálmar loki veginum.“

Í síðari hluta fsp. okkar er einnig vikið að öðru byggðarlagi eystra, álíka settu, sem er Seyðisfjörður. Þaðan hafa oftlega borist óskir svipaðs eðlis.

Þá kemst ég ekki hjá því að vekja athygli á bréfi til hæstv. ráðherra frá Breiðdalsvík, dags. 15. janúar s.l., sem kemur beint inn á endurskoðun reglugerðar um snjómokstur. Vikið er þar að mögulegum mjólkurflutningum úr Breiðdal í Egilsstaði vegna breyttra aðstæðna á því svæði. Orðrétt segir svo, með leyfi forseta, um Breiðdalsheiði:

„Breiðdalsheiði er ekki eins bagaleg og af er látið. Breiðdalshreppur lét opna heiðina 19. desember s.l. og er hún fær jeppum enn í dag, 15. janúar. Með tilliti til ofanritaðs ítrekar undirritaður tilmæli til ráðherra um að hann breyti reglugerð um snjómokstur á þjóðvegum, Breiðdælingum og nærliggjandi sveitarfélögum til hagsældar.“ Undirritað af sveitarstjóranum í Breiðdalshreppi.

Hér er aðeins að þrem stöðum vikið en fleiri staðir koma vissulega inn í myndina hvað Austurland snertir. Það er því von að víða sé spurt hvort von sé breytinga á snjómokstursreglum í rýmkunarátt og því er þessi fsp. fram borin.