14.10.1986
Sameinað þing: 3. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í B-deild Alþingistíðinda. (25)

20. mál, samningur milli Íslands og Bandaríkjanna

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Samningur sá sem þessi þáltill. tekur til hefur þegar verið töluvert ræddur í utanrmn. þingsins og þar hef ég gert grein fyrir afstöðu Kvennalistans í þessu máli og vil gera slíkt hið sama hér nú.

Eins og fram hefur komið er Kvennalistinn alfarið andvígur því að Íslendingar nýti sér veru Bandaríkjahers hér á landi í fjárhagslegu ágóðaskyni. Við erum sjálfstæð þjóð í frjálsu landi og okkur finnst miklu skipta að efnahagslegu sjálfstæði okkar sé ekki á nokkurn hátt ógnað, hvorki með of nánum efnahagstengslum við herinn né með öðru móti.

Í stefnuskrá Kvennalistans er kveðið á um samskiptin við herinn og vil ég, með leyfi forseta, lesa dálítinn kafla úr stefnuskránni þar um. Þar segir, með leyfi forseta:

„Við viljum draga úr umsvifum erlends hers meðan hann er hér á landi því að aukin hernaðarumsvif hvar sem er í heiminum auka á vígbúnaðarkapphlaupið. Við viljum strangt eftirlit með starfsemi hersins. Við viljum að stjórnvöld skýri undanbragðalaust frá framkvæmdum og herbúnaði Bandaríkjahers hér. Við viljum minnka áhrif hersins í íslensku efnahagslífi svo tryggt verði að afstaða til hans mótist ekki af efnahagshagsmunum. Við viljum að íslenskt atvinnulíf sé óháð veru hersins.“

Það liggur því í hlutarins eðli að við erum ekki hrifnar af að tengja afkomu og hagsmuni íslenskra skipafélaga við veru hersins hér á landi eins og hægt er að gera samkvæmt þeim samningi sem við erum nú að ræða um. Því erum við ekki hlynntar þessum samningi. Hins vegar verður að skoða þetta mál í samhengi við önnur samskipti okkar við stjórnvöld í Bandaríkjunum undanfarin misseri. Eins og menn vita hafa þau í vor og sumar einkennst af lítilli tilhliðrunarsemi Bandaríkjamanna í okkar garð og á stundum verið þannig að um hreinan yfirgang stórþjóðar í garð smáþjóðar hefur verið að ræða. Við slíkar aðstæður skiptir miklu að við sem þjóð stöndum saman. Smáþjóð verður að treysta á sjálfa sig og hefur ekki í önnur hús að venda í viðsjárverðum heimi. Því væri æskilegt að einhvers konar samstaða gæti náðst á Alþingi Íslendinga um afstöðu okkar til þessa samnings. Við Kvennalistakonur getum ekki greitt honum atkvæði okkar, það liggur ljóst fyrir, en við munum íhuga þann kost að sitja hjá við afgreiðslu hans í því skyni að leggja okkar af mörkum til innbyrðis samstöðu Íslendinga gagnvart risanum í vestri.

Hvað efnisatriði samningsins varðar finnst mér heldur aumlegt og lítt sæmandi þeirri sjálfstæðu siglingaþjóð sem við viljum vera að hafa tekið við nokkurs konar kvótaúthlutun úr hendi Bandaríkjamanna. Svo lengi sem íslensk skipafélög bjóða í þessa flutninga eru þeim tryggð a.m.k. 35% þeirra hvernig svo sem tilboð bandarískra skipafélaga kunna að líta út. Þetta getur varla talist samkeppni á jafnréttisgrundvelli eins og hér hefur verið haft á orði. Öðrum hvorum aðilanum er fyrir fram tryggður ákveðinn hluti flutninganna og samkeppnin því ákveðnum takmörkum háð og einnig það viðskiptafrelsi sem flm. þessarar þáltill. er annars svo kært.

Jafnframt er ljóst að þessi samningur er í beinum tengslum við varnarsamstarf ríkjanna, eins og það heitir í fyrirsögn tillögunnar, og því ljóst að hér er ekki um óháðan viðskiptasamning að ræða. Hernaðarhagsmunir Bandaríkjanna eiga hér óumdeilanlega hlut að máli. Slíkum viðskiptasamningum kunnum við Kvennalistakonur illa og er það ásamt því sem ég hef þegar nefnt, herra forseti, ástæða þess að við munum ekki geta greitt honum atkvæði okkar.