27.10.1986
Efri deild: 6. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 305 í B-deild Alþingistíðinda. (250)

78. mál, heilbrigðisþjónusta

Flm. (Helgi Seljan):

Virðulegi forseti. Á þskj. 78 hef ég leyft mér að flytja frv. til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu varðandi 13. gr. laganna þar sem greint er frá heilsugæslustöðvum, með hvaða hætti þær skuli vera og hvaða starfsfólk skuli vinna við hverja stöð fyrir sig, þ.e. H2-stöð, H1-stöð og H-stöð.

Breytingin er í raun og veru ekki fólgin í öðru en því að í staðinn fyrir heimild varðandi læknisráðningar til starfa við H1-stöð tímabundið til viðbótar við þann eina lækni sem þar á að starfa er nú komin skylda í 3-6 mánuði.

Í grg. segir svo, með leyfi virðulegs forseta: „Breytingin, sem lögð er til í frv. þessu, varðar H1-stöðvar, að í stað heimildar til ráðningar viðbótarlæknis komi nú skylda til ráðningar í 3-6 mánuði eftir ástæðum sem héraðslæknir og landlæknir meta. Þess skal sérstaklega getið að heilbrigðisráðuneytið hefur nýtt eina stöðuheimild til að dreifa á heilsugæslustöðvarnar til viðbótar eftir mati á þörf hverju sinni og því ekki um hreinan viðbótarkostnað að ræða að öllu leyti þótt heimildin verði gerð að skyldu.

Ein styrkasta stoð búsetuöryggis úti á landsbyggðinni er heilsugæsluþjónustan. Uppbygging þeirrar þjónustu í kjölfar laganna um heilbrigðisþjónustu frá 1973 hefur að vísu gengið hægar en efni stóðu til og m.a. hefur stórfelldur niðurskurður framkvæmda í þessum málaflokki sagt til sín á síðustu árum.

Erfiðast er hér um vik í þeim heilsugæsluumdæmum þar sem einn læknir starfar að jafnaði og hafa þó flest umdæmi búið við unandi öryggi í þessum málum. M.a. kom þar mjög til hjálpar lagabreyting eða lagabót sem gerð var við endurskoðun heilbrigðislaganna 1983 þar sem heimilað var að ráða til starfa annan lækni við H1-stöðvarnar, að vísu mjög tímabundið.

Þessi heimild hefur nokkuð verið nýtt, svo sem áður segir, til ótvíræðra hagsbóta fyrir viðkomandi umdæmi og hefur létt mjög á þeim læknum sem þar starfa einir, oft við örðug skilyrði á ýmsan veg.

Á aðalfundi Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi var gerð ákveðin ályktun um þetta vandamál og birtist hún orðrétt hér sem fylgiskjal með frumvarpinu.

Hér er sem sagt komið til móts við þessa ályktun sem áreiðanlega á hljómgrunn víða eða hvarvetna sem H1-stöðvar eru reknar. Því er frv. þetta flutt svo að reyna megi á vilja Alþingis til sjálfsagðrar leiðréttingar.“

Ályktun Sambands sveitarfélaga á Austurlandi um heilbrigðismál, sem fylgir með sem fylgiskjal, er þannig, með leyfi virðulegs forseta:

„Aðalfundur SSA, haldinn á Egilsstöðum 28. og 29. ágúst 1986, ályktar að skora á yfirvöld heilbrigðismála og Alþingi að tryggja með fjárframlögum að ráðnir verði viðbótarlæknar að eins læknis heilsugæslustöðvum í fjórðungnum sem nemur hálfu ári á stöð. Jafnframt verði tryggt að laun lækna við H1 stöð verði sambærileg við laun annarra heilsugæslulækna þar sem það á við.“

Í greinargerð með ályktuninni segir svo:

„Í einmenningshéruðum eru tíð læknaskipti og stundum læknisleysi. Skapar það öryggisleysi og torveldar uppbyggingu heilsuverndar á viðkomandi svæðum. Álag á lækna í þessum héruðum er meira en svo að þeir geti risið undir því til lengdar. Því er lagt til að nýttar verði heimildir laga nr. 59/1983, um heilbrigðisþjónustu, og ráðnir verði tímabundið ár hvert viðbótarlæknar á H1-stöðvar. Til þess að svo megi verða í fjórðungnum þarf fjárveitingar sem nemur tveim læknisstöðum.“

Eins og greinargerðin segir til um er hér um einfalda breytingu að ræða sem þó getur skipt miklu um það meginmál að tryggja örugga læknisþjónustu sem best í öllum heilsugæsluumdæmum landsins. Hlutverk læknis á H1-stöð er erfitt og víðfeðmt, og þar sem ég þekki til fer ekki milli mála að þeim er það ómetanlegt að hafa aðstoð og liðsinni annars læknis hluta úr ári, alveg sér í lagi yfir erfiðustu mánuðina til samgangna, því þá er önn þeirra oftlega mest og erfiðast um vik að rækja þjónustuna sem best.

Á móti þessu var komið við endurskoðunina 1983 þar sem við virðulegur forseti þessarar deildar áttum bæði hlut að og full eining náðist um að fram næði að ganga og fram bæri að ganga, um heimild til viðbótarráðninga við bæði H2 og H1-stöðvar. Þess ber líka að geta sem gert er í greinargerð að ráðuneyti heilbrigðismála hefur reynt að sinna þessu svo sem föng og fjármagn hafa sagt til um.

Vissulega má segja að heimildin og gildi hennar ráðist af því hverju veitt er á fjárlögum hverju sinni og því sé frekari lögfesting eða skylduákvæði af þessu tagi til lítils ef fjármagn fylgir ekki. Þetta geri ég mér dagljóst, en ég veit líka að ákveðnari lagaákvæði veita betri viðspyrnu við fjárlagagerð og auðvelda ráðuneyti og Alþingi að knýja á um frekari fjárveitingar.

Í ályktun þeirri sem ég las áðan frá SSA er beinlínis gert ráð fyrir hálfs árs starfi til viðbótar á H1-stöð. Þeir aðilar sem að þessari ályktun stóðu vita fullvel hvar skórinn kreppir og eflaust engin vanþörf á því að bæta hér við svo sem þar er lagt til. Hins vegar tel ég að það væri til mikilla bóta ef þessi áfangi næðist fram og sem raunar gerir í ýtrustu tilvikum ráð fyrir því sama og ályktunin segir til um.

Ég bæti því svo aðeins við að héraðslæknir Austfjarðahéraðs, Stefán Þórarinsson, lagði áherslu á þetta sem eitt brýnasta úrlausnarefni í heilsugæslunni þegar hann hafði framsögu um þetta mál eystra. Og ekki var síður um vert að Ingimar Sigurðsson, deildarstjóri í heilbrrn., tók mjög eindregið undir þetta sjónarmið og hljóta það að teljast býsna góð meðmæli með frv.

Ég vil svo leyfa mér að lokinni þessari umræðu að óska þess að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.