03.02.1987
Sameinað þing: 44. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2680 í B-deild Alþingistíðinda. (2501)

298. mál, ávana- og fíkniefni

Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Framkvæmdanefnd ríkisstjórnarinnar til að samhæfa aðgerðir í baráttunni gegn útbreiðslu og notkun ávana- og fíkniefna hefur á undanförnum mánuðum unnið að söfnun upplýsinga og ábendinga víðs vegar að. Eins og nefndinni var gert í skipunarbréfi hefur hún leitað samstarfs við opinbera aðila og stofnanir, félög og áhugamannasamtök og einstaklinga sem sýnt hafa hug á að starfa að þessum málum. Alls hefur nefndin leitað til 28 opinberra aðila eða stofnana, átt fundi með 23 félögum eða áhugamannasamtökum auk nokkurra einstaklinga sem hafa sérþekkingu á hinum ýmsu sviðum sem nefndinni er ætlað að fjalla um. Nefndarmenn hafa sem fulltrúar síns ráðuneytis haft milligöngu um upplýsingaöflun frá ráðuneytinu eftir því sem tök hafa verið á.

Erlendir sérfræðingar hafa einnig komið á fund nefndarinnar. Fundir hafa verið haldnir nokkuð reglulega eftir því sem við hefur verið komið. Auk þess hafa óformlegir fundir verið margir. Þeim verkefnum sem nefndinni hefur verið ætlað að vinna má skipta í eftirfarandi þætti:

1. Fræðslu þar sem lögð er áhersla á einstaklinginn en ekki efnin og skaðsemi þeirra. Samkvæmt nýjustu rannsóknum sérfræðinga á þessu sviði hefur hin svokallaða „fræðsluaðferð“, þar sem fíkniefnin og afleiðing neyslu þeirra hafa verið þungamiðjan í fræðslunni, ekki haft tilætluð áhrif. Slík fræðsla getur jafnvel haft þveröfug áhrif, vakið forvitni og ýtt undir neyslu að mati þeirra sérfræðinga sem við hefur verið rætt. Fræðsla telst til 1. stigs forvarnar.

2. Félagslegar forvarnir, t.d. á vegum barnaverndarnefndar, skóla og sveitarfélaga. Undir þennan lið heyra einnig tómstunda- og félagsstörf ýmiss konar.

3. Áróður og kynning til foreldra og almennings. Þáttur fjölmiðla er mjög mikilvægur í þessu sambandi. Hefur nefndin fjallað um hvaða leiðir mætti nota til þess að áhrifamáttur fjölmiðla nýttist sem best í baráttunni gegn fíkniefnum.

4. Tollgæsla. Á þessu sviði hefur nefndin t.d. kynnt sér sérstaklega hvernig framkvæmd tollgæslu mun verða háttað í nýju flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli.

5. Löggæsla og löggjöf. Undir þennan þátt heyrir löggjafarsvið ávana- og fíkniefnamála, refsiframkvæmd við brotum á lögum um ávana- og fíkniefni og fangelsismál svo að eitthvað sé nefnt. Fíkniefnadeild lögreglunnar og starfssvið hennar hefur einnig verið til umfjöllunar undir þessum lið.

6. Meðferð og meðferðarúrræði. Telst sá þáttur til 3. stigs forvarnar. Hefur nefndin orðið þess áskynja í viðræðum við hina ýmsu aðila að meðferðarúrræði vanti fyrir ákveðinn hóp ungra fíkniefnaneytenda. Fjöldi ábendinga og tillagna hefur safnast á sviði meðferðarúrræða almennt.

Þá eru talin upp þau sex svið sem nefndin flokkar starfsemi sína undir.

Nefndin hefur talið að ekki væri rétt að skila einstökum tillögum sínum til ríkisstjórnarinnar fyrr en heildarmynd lægi fyrir undir lok starfs nefndarinnar. Þó gerði nefndin eina undantekningu þar á. Lagði hún til við ríkisstjórnina í desember 1986 að kennsluverkefni, Lions Quest, á ensku, yrði kennt til reynslu á ensku í þremur skólum. Lionsumdæmið á Íslandi hafði snúið sér til nefndarinnar og boðið íslenskum yfirvöldum þetta námsefni til kennslu í skólum landsins. Leitaði nefndin álits skólaþróunardeildar og ýmissa annarra sérfróðra aðila á þessu kennsluefni og hefur það fengið mjög jákvæðar viðtökur. Er það í anda nýjustu hugmynda um fyrirbyggjandi fræðslu á þessu sviði þar sem lögð er áhersla á að styrkja einstaklinginn til sjálfstæðra skoðana og auka hæfileika hans til þess að standast hópþrýsting. Þessar tillögur voru ræddar í ríkisstjórninni og var einróma samþykkt að standa að þeim og tók menntmrh. að sér framkvæmd tillagnanna, en menntmrn. annast að sjálfsögðu alla framkvæmd tilraunakennslunnar sem ráðgert er að hefjist nú í febrúar. Þrír kennarar sem kenna munu efnið hafa þegar sótt námskeið erlendis, en þriggja daga námskeið kennara er skilyrði fyrir því að kenna þetta Lions-námsefni. Auk þess hafa fulltrúar skólaþróunardeildar og Námsgagnastofnunar sótt sama námskeið. Gert er ráð fyrir að tilraunakennslan standi yfir út þetta ár og mun þá verða tekin nánari ákvörðun um þýðingu og staðfærslu í ljósi þeirrar reynslu sem fæst. Sem stendur vinnur nefndin að tillögugerð á þeim sviðum sem áður hafa verið upp talin. Munu þær tillögur fylgja lokaskýrslu nefndarinnar sem er vel á veg komin og þess er vænst að verði lögð fram fyrir lok þessa mánaðar.

Ég vil taka það fram út af orðum hv. fyrirspyrjanda að ég tel það vera mikinn misskilning að ekki sé töluvert unnið að þessum málum. Þessi umrædda nefnd hefur fengið allt það fjármagn sem hún hefur beðið um. Það hefur ekki staðið á því á nokkurn máta. Mér er kunnugt um að þeir sem í nefndinni sitja vinna að þessu máli af mjög miklum áhuga og er það sannarlega vel því að hér er um mikinn vágest að ræða. Ég a.m.k. vænti því mikils af störfum nefndarinnar og hef lagt á það áherslu að nefndarmenn taki þann tíma sem þeir þurfa til að skila góðu og ítarlegu yfirliti sem á megi svo byggja. Ég tel vel að verki staðið í því mikla starfi sem þarna er unnið að skila heildarskýrslu fyrir lok þessa mánaðar.