03.02.1987
Sameinað þing: 44. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2688 í B-deild Alþingistíðinda. (2511)

299. mál, hjálparstöð fyrir börn og unglinga

Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):

Hæstv. forseti. Eins og kom fram í svari mínu áðan vinnur framkvæmdanefnd ríkisstjórnarinnar, sem starfar á þessu sviði, að lokatillögum sínum og gerir ráð fyrir að skila þeim í lok mánaðarins. Nefndin hefur í starfi sínu kynnt sér starfsemi Rauðakrosshússins og hef ég fengið staðfest frá formanni nefndarinnar að það starf er talið þýðingarmikið. Get ég tekið undir hvert orð sem hv. fyrirspyrjandi sagði um það. Ég veit að það er álit nefndarinnar. Nefndin hefur hins vegar tekið þá ákvörðun að gera heildartillögur og gerði aðeins eina undantekningu, sem ég gat um áðan, með námsefnið. Mér er tjáð að í þeim tillögum sem væntanlegar eru frá nefndinni í lok mánaðarins megi treysta því að tekið verði á þeim vanda sem hér um ræðir. Mér er kunnugt um að einhverjar umræður hafa verið um það hvort sveitarfélög eiga að koma inn í þetta ásamt ríkinu.

Ég tel að treysta megi því að í lok mánaðarins liggi fyrir tillaga um afgreiðslu á því erindi sem nefndinni hefur borist frá Rauða krossinum í þessu sambandi og ég endurtek að fullur skilningur er á að þessari starfsemi verður að halda áfram og reyndar að auka.