03.02.1987
Sameinað þing: 44. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2690 í B-deild Alþingistíðinda. (2515)

282. mál, hvalveiðar og hvalarannsóknir

Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Það skal tekið fram vegna orðalags 1. tölul. fsp. að samningur sá sem vitnað er til, er gerður var í því skyni að auka vísindalega þekkingu á ástandi hvalastofna hér við land og skapa nauðsynlegan grundvöll til endurmats á áhrifum veiðistöðvunar fyrir árið 1990, er milli Hafrannsóknastofnunarinnar, Reykjavík, annars vegar og Hvals hf., Miðsandi, Hvalfjarðarstrandarhreppi, hins vegar.

Vík ég þá að a-lið 1. liðs. Vegna endurskoðunar áætlunarinnar og nokkurrar óvissu um framtíð rannsóknanna fyrri hluta s.l. árs var nokkru hægar farið af stað en mögulegt hefði verið. Að öðru leyti má segja að áætlun hafi staðist miðað við það sem gert var ráð fyrir í upphafi. Í fyrstu var varið verulegum tíma í endurskoðun áætlunarinnar þar sem tekið var tillit til gagnrýni og ábendinga á einstaka þætti hennar. Niðurstöður þeirrar endurskoðunar voru birtar í maí 1986. Jafnframt var unnið að öðrum undirbúningi rannsóknanna, svo sem öflun húsnæðis fyrir hina auknu starfsemi og ráðningu starfsfólks. Til bráðabirgða var fengin á leigu aðstaða í húsnæði ríkissjóðs við Sölvhólsgötu 13 en rannsóknirnar munu flytja að Skúlagötu 4 við endurskipulagningu húsnæðis Hafrannsóknastofnunar. Á árinu voru þrír starfsmenn fastráðnir til að starfa við þessar rannsóknir, auk þeirra þriggja sem fyrir voru. Auk þess voru 15 lausráðnir starfsmenn við störf að afmörkuðum verkefnum um skemmri tíma.

Um b-lið er það að segja að í samræmi við samning við Hval hf. og 8. gr. stofnskrár Alþjóðahvalveiðiráðsins var sérhver hvalur nýttur til fullnustu. Vinnsla afurðanna var miðuð við nýtingu til manneldis eftir því sem kostur var. Í samræmi við 4. gr. framangreinds samnings hefur Hvalur hf. greitt um 16 millj. kr. á árinu 1986 til Hafrannsóknastofnunar sem á s.l. ári varði rúmlega 8 millj. kr. til rannsóknanna. Mismuninum verður varið til rannsókna þessa árs. Endanlegt reikningsuppgjör liggur ekki fyrir. Reynist andvirði afurða hærra en framangreind upphæð að viðbættum rekstrarkostnaði Hvals hf. vegna útgerðar hvalveiðiskipa, rekstri vinnslustöðvar og geymslu og sölu afurða skal það sem umfram er renna óskipt í sérstakan hvalrannsóknasjóð í vörslu sjútvrn. Kostnaðaráætlun vegna rannsóknanna 1987 gerir ráð fyrir heildarrekstrarútgjöldum að upphæð 25,5 millj. kr. Stærsti útgjaldaliðurinn í ár verður vegna umfangsmikilla hvalatalninga sem ég mun fjalla nánar um undir 4. lið fsp. og er skipaleiga vegna þessa verkefnis áætluð nema 16 millj. kr. Gert er ráð fyrir að óráðstafað fjármagn í árslok 1987 muni verða u.þ.b. 1 millj. kr.

2. liður: Samkvæmt nýjustu upplýsingum frá Hval hf. hafa verið seld á innlendan markað samtals 130 tonn af hvalkjöti og rengi af framleiðslu hvalveiðivertíðarinnar árið 1986. Engar afurðir hafa enn þá verið fluttar á erlendan markað af þessari framleiðslu en útflutningur mun hefjast innan tíðar og verður flutt út það magn sem stjórnvöld hafa heimilað útflutning á, þ.e. 49% kjöts og 49% annarra afurða.

3. liður: Rannsóknaráætlunin gerir ráð fyrir veiðum á 80 langreyðum, 40 sandreyðum og 80 hrefnum árlega út rannsóknartímabilið. Endanleg ákvörðun hefur ekki verið tekin um hrefnuveiðar þar sem m.a. er beðið eftir rannsóknarniðurstöðum úr talningum frá s.l. ári. Engin áform eru uppi um breytingu á langreyðar- og sandreyðarveiðum.

4. liður: Eins og öll áætlunin gerir ráð fyrir hafa rannsóknirnar fyrst og fremst beinst að öflun upplýsinga um stofnstærðir hvala hér við land, um veiðiþol þeirra og þátt þeirra í lífkeðjunni í hafinu.

Söfnun nýrra gagna í Hvalfirði:

Í tengslum við veiðarnar í Hvalfirði voru sem fyrr gerðar athuganir á viðkomu og aldri allra veiddra dýra. Ítarlegum gögnum var safnað um fæðuval og ástand hvalanna, einkum með tilliti til orkubúskapar þeirra. Jafnframt voru gerðar mælingar og tekin fæðusýni á hvalamiðunum til samanburðar. Markmið þessara athugana er að auka þekkingu okkar á þætti hvalanna í fæðukeðjunni og áhrifum umhverfisþátta á lífsskilyrði þeirra. Einnig var tæpur helmingur hvalanna vigtaður í sama tilgangi en slíkt er aðeins unnt með sérstökum tilfæringum í vinnslu hvalsins. Gerðar voru ýmsar mælingar á efnainnihaldi vefja og líffæra. Þá var haldið áfram lífefnafræðilegum athugunum á erfðamörkum hvala, m.a. með nýjum aðferðum sem ætlað er að varpa ljósi á greiningu stofnanna í Norður-Atlantshafi.

Þegar áætlunin var endurskoðuð í fyrra var erlendum vísindamönnum boðin þátttaka í rannsóknum og boðin aðstaða til að starfa að eigin verkefnum. Á árinu 1986 komu 20 erlendir vísindamenn og nýttu sér aðstöðu til vettvangsrannsókna í Hvalfirði. Vísindamennirnir komu frá 15 háskólum eða rannsóknastofnunum í sex löndum, tveir komu frá Kanada, þrír frá Bretlandi, fimm frá Vestur-Þýskalandi, einn frá Svíþjóð, einn frá Spáni og síðast en ekki síst komu átta vísindamenn frá Bandaríkjunum. Erlendu vísindamennirnir unnu að athugunum er snerta ýmsa þætti líffræði hvala. Helstu viðfangsefnin voru: Athuganir á tíðni sjúkdóma, eðlis- og orkufræði hreyfingar hvala, flutningur næringarefna og beinþroskun, líffæra- og vefjafræði, leiðni hljóðs í eyra hvals, mengun í vefjum og líffærum og lífeðlisfræði æðakerfisins.

Söfnun nýrra gagna í leiðöngrum:

Herra forseti. Hér er um nokkuð umfangsmikla fsp. að ræða og vildi ég mega nota síðari hluta tíma míns til þess að ljúka svarinu.

Ljóst er nú að umfangsmikil flugtalning á hrefnu bar góðan árangur. Talningin náði til alls íslenska strandsvæðisins í júní og júlí s.l. sumar. Lokaúrvinnsla fer nú fram og verða niðurstöður lagðar fyrir vísindanefnd Alþjóðahvalveiðiráðsins í júní n.k. Reglubundnar talningar og rannsóknir úr hvalveiðiskipum fóru fram í júní, júlí og ágúst. Í fyrra voru gerðar ýmsar breytingar á athugunum í samanburði við fyrra ár sem miða að því að gera gögnin betur fallin til mats á fjölda hvala á tilteknu svæði, þ.e. beinna magnmælinga. Þess má geta að skráning og aðrar athuganir á hvalskipum s.l. sumar útheimta að sjálfsögðu mun meiri þátttöku og árvekni sjómanna en áður hefur tíðkast við venjulegar veiðar.

Í október og nóvember var unnið að ljósmyndun og öðrum athugunum á háhyrningum austanlands en niðurstöður sýndu verulegan fjölda dýra á síldarmiðunum. Búist er við að frekari úrvinnsla gagna gefi nýjar upplýsingar um greiningu háhyrninga í stofna á Norður-Atlantshafi og áreiðanlegra mat á fjölda dýra hér við land en nú er til. Líklegt er þó að nauðsynlegt verði að halda rannsóknunum áfram í ár og næsta ár.

Úrvinnsla og skipulagning:

Unnið var að skipulagningu ýmissa þátta rannsóknanna, einkum fyrirhugaðra hvalatalninga á þessu ári. Það er umfangsmesta verkefni sem ráðist verður í á rannsóknartímabilinu þar sem a.m.k. þrjú íslensk skip verða við athuganir samtímis. Gert er ráð fyrir þátttöku annarra landa í talningunum. Reiknað er með þremur skipum frá Noregi, einu frá Færeyjum og einu sem styrkt er af norrænu ráðherranefndinni. Einnig er vonast eftir að Danir leggi til skip til hvalatalninga við vesturströnd Grænlands. Gangi þetta eftir mun það verulega auka gildi talninganna og jafnframt verða mesta átak í hvalatalningum sem framkvæmt hefur verið á Norður-Atlantshafi.

Haldið er áfram reiknifræðilegum athugunum á stofnum hvala, m.a. með tilliti til bættrar stjórnunar veiða. Sömuleiðis var unnið við úrvinnslu líffræðilegra sýna frá s.l. ári og frá fyrri árum en það felst m.a. í skoðun sýna, tölvuvæðingu gagnagrunns og útreikningum á niðurstöðum. Hafa ber í huga að mörg verkefnanna eru hluti langtímarannsókna sem ekki skila árangri fyrr en að nokkrum árum liðnum. Stefnt er þó að birtingu allra niðurstaðna eftir því sem þær liggja fyrir strax á þessu ári og að samantekt um rannsóknirnar verði birt í lok rannsóknartímabilsins 1989.