03.02.1987
Sameinað þing: 44. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2693 í B-deild Alþingistíðinda. (2518)

282. mál, hvalveiðar og hvalarannsóknir

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þessar mjög svo gagnlegu upplýsingar sem ég tel að hafi verið mjög nauðsynlegt að fá. En eftir stendur og ég vil taka undir með hv. þm. Birni Dagbjartssyni að það er ákaflega erfitt að sjá nauðsyn þess að halda þessum veiðum áfram, eins og nú er komið, í blóra við alþjóðlega samþykkt. Ég veit alveg hverju hæstv. ráðh. svarar því. Hann telur sig ekki ganga ólöglega á samninginn og hann hefur rök fyrir því. En það er alveg vitað að Íslendingar hafa sett sig í afar slæma stöðu á alþjóðavettvangi með þessum veiðum.

Nú lítur einnig út fyrir að þetta fé sem Hvalur hf. virðist hafa greitt samviskusamlega hafi farið að verulegu leyti í rannsóknir sem krefjast þess hreint ekki að eitt einasta dýr sé drepið. Eftir þá veiði sem fram fór í fyrra held ég að til hljóti að vera verulegt efni til rannsókna á dýrum sem drepin hafa verið, en menn hafi nú meiri áhuga á því að komast að stofnstærðum, telja dýrin í sjónum, jafnvel úr lofti, og annað slíkt, enda minntist hæstv. ráðh. á talningu og ljósmyndun háhyrninga sem þrjú íslensk skip verða tekin til og það gefur auðvitað auga leið að þær rannsóknir eru í engu samræmi við hvaladrápið sem hér á sér stað og mælist afar illa fyrir, því er ekki að neita.

Fyrst og fremst þótti mér þó áhugavert að heyra hæstv. ráðh. segja að þessar hvalkjötsbirgðir verði fluttar út. Ég hlýt að spyrja hann: Hvert verða þær fluttar út? Hefur verið gerður einhver samningur um sölu á þessari vöru? Það væri þá fróðlegt að heyra hvert vörurnar fara og hvenær.

Ég ætla ekki að mæla bót öfgahópum sem standa fyrir skemmdum á mannvirkjum. Með slíkt fólk verður auðvitað að fara sem aðra lögbrjóta. Það sem mér er miklu ofar í huga er að Íslendingar haldi þeirri virðingu sem þeir hafa haft varðandi alþjóðlega samninga sem við nýtum okkur þegar við þurfum á því að halda en skirrumst ekki við að fara í kringum þegar það er okkur í hag.

Til þess að draga saman spurningar mínar eru þær fyrst og fremst: Hver hefur lofað að kaupa hvalaafurðir af Íslendingum og hvenær? Og hvenær má vænta endurskoðunar eða ákvörðunar um veiðar ársins 1987?