03.02.1987
Sameinað þing: 44. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2695 í B-deild Alþingistíðinda. (2523)

282. mál, hvalveiðar og hvalarannsóknir

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Ég held að ástæðulaust sé að vera með mjög mikil stóryrði í sambandi við þetta mál eða bera mönnum á brýn að þeir séu að brjóta lög eða alþjóðasamþykktir eða samþykkt þá sem Alþingi gerði í sambandi við hvalveiðar. Ég held hins vegar að það sé full ástæða til þess að vekja athygli á að því miður hefur það ekki tekist sem meginhluti þm. mun hafa ætlast til, að hægt væri að sinna vísindaveiðum á nokkuð trúverðugan hátt, sinna þeirri stefnu sem hæstv. ráðherra hefur haldið fram að við værum að gera á þann veg að þeir sem um þessi mál fjalla tryðu því að við værum að gera þetta fyrst og fremst á vísindalegan hátt. Ég tel að ráðherra hafi ekki staðið sig þarna sem skyldi og komið of mikið fram sem pólitískur leiðtogi og pólitískur málsvari þessa máls fremur en að vísindamenn hafi verið látnir túlka þann málstað sem við höfum verið að berjast fyrir, þ.e. að nýta okkar eðlilegu náttúruauðlindir. Þetta hefur verið rekið meira og minna á pólitískum vettvangi og fyrst og fremst á ráðherravettvangi en ekki á vísindalegum vettvangi.