03.02.1987
Sameinað þing: 44. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2700 í B-deild Alþingistíðinda. (2529)

287. mál, sálfræðiþjónusta á Austurlandi

Menntamálaráðherra (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég upplýsti í umræðu utan dagskrár að á fræðsluskrifstofunum hefði - hvað eigum við að segja, á 10 eða 12 ára starfstímabili fræðsluskrifstofanna - mannafli vaxið menntmrn. yfir höfuð sem næmi um þremur stöðugildum. Þetta var það sem ég upplýsti og lét þess reyndar getið að víða væru þeir vel settir með sálfræðiþjónustuna til að mynda, en hún kom þar sérstaklega til umræðu og sérkennsla og stuðningskennsla. Af því sem svo undarlegt það er og fágætt í lögum eru grunnskólalögin útbúin með þeim hætti að um þá þjónustu sérstaklega er tekið fram að hún skuli fara eftir því sem fjárlög ákveða hverju sinni. Ekki nóg með að reglugerðin sé þannig útbúin heldur lögin sjálf. Á þetta er minnt sérstaklega vegna þess að menn hafa látið svo sem afgreiðslur fjárlaganna til þessara þarfa megi hafa að engu.

En ég hef fengið svar frá fræðsluráði Austurlandsumdæmis vegna fsp. hv. þm. og er svar við fyrri lið fsp. á þessa leið:

Vilhelm Norðfjörð sálfræðingur sagði starfi sínu lausu 1. ágúst s.l. Enginn hefur sótt um stöðuna þrátt fyrir auglýsingar í útvarpi og blöðum.

Svar við síðari lið fsp. er á þessa leið:

Vilhelm var ráðinn í hlutastarf frá 1. sept. 1986 til 30. apríl 1987. Sinnir hann ákveðnum málum í samráði við fræðsluskrifstofuna og hlutaðeigandi skóla.

Berit Johnsen uppeldisfræðingur starfar sem sérkennslufulltrúi í fullu starfi og hefur gert frá 1979. Hún vinnur nú m.a. að því að undirbúa tveggja ára nám í sérkennslu fyrir austfirskra kennara.

Fræðsluskrifstofan hefur greitt ferðakostnað kennara sem hafa farið til Reykjavíkur til að kynna sér kennslu fatlaðra, t.d. heyrnarskertra barna svo og athuganir félagsráðgjafa o.fl.

„Ég hef lagt áherslu á það“, segir í bréfi fræðslustjórans, „að fræðsluskrifstofan er reiðubúin að greiða götu þeirra barna sem að dómi skólanna þurfa á sérstakri athugun að halda, enda þótt sálfræðingur sé ekki eins og er í fullu starfi við skrifstofuna.“