03.02.1987
Sameinað þing: 44. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2701 í B-deild Alþingistíðinda. (2530)

287. mál, sálfræðiþjónusta á Austurlandi

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Það kemur í ljós í svari hæstv. ráðh. að ekki gilda alhæfingar hans um sálfræðinga á hverjum fingri hjá fræðsluskrifstofunum alls staðar. Í því kjördæmi sem hann ætti allra best að þekkja til er ástandið þannig, eins og hann lýsti réttilega úr bréfi fræðslustjórans á Austurlandi, að þar er nú enginn sálfræðingur við störf heldur hefur sá sem gegndi þessu starfi áður farið í þetta í nokkurs konar íhlaupavinnu núna til að bjarga því brýnasta sem þarf að bjarga.

Ég vildi gera athugasemd við það sem hæstv. menntmrh. hefur komið inn á bæði nú og áður um mannafla á fræðsluskrifstofum. Ég álít að það sé einmitt mjög mikil nauðsyn á því að manna fræðsluskrifstofurnar sem allra best, ekki ofmanna þær á nokkurn veg heldur manna þær sem allra best þannig að þar sé komið saman þeirri þekkingu og því starfsfólki sem best veit um hvar skórinn kreppir á hinum einstöku stöðum, miklu betur, og það er ég viss um að hæstv. ráðh. samsinnir mér um þó hann hafi sagt annað í hita umræðunnar, miklu betur en starfsmenn suður í menntmrn.

Aðeins örfá orð til viðbótar í sambandi við þetta. Hæstv. ráðh. hefur gefið Austfirðingum sérstaka gæðaeinkunn fyrir það að þar hafi heldur fá börn fundist með sérkennsluþarfir. Það kann vel að vera að það sé sérstaklega til þess að hæla Austfirðingum fyrir. Ekki þykir mér það. Ég veit að bæði meðal kennara og foreldra barna sem eiga í erfiðleikum er hér um mikið áhyggjuefni að ræða, að svo skuli hafa til tekist að eingöngu er um íhlaupastarf að ræða hjá sálfræðingi, einkum þar sem það er fulljóst, og það veit hæstv. ráðh. jafnvel og ég, að könnun á högum og aðstæðum barna á þessu svæði er hvergi nærri lokið þrátt fyrir bæði gott starf Vilhelms Norðfjörðs og einnig Berit Johnsen sem hann nefndi réttilega að hefði starfað mjög mikið að þessum sérkennslumálum. Þannig er býsna mikið starf óunnið og þetta veit hæstv. ráðh. jafnvel og ég. Ég veit um mörg dæmi þess þar sem öðruvísi og betur þarf að standa að sérkennslumálum þrátt fyrir, eins og hann vitnaði til bréfs fræðslustjóra, margt það sem vel hefur verið gert og ég viðurkenni stórkostlegar framfarir frá því sem var þegar ég var í skólastjórastarfi austur þar, og þá voru erfiðleikar á ráðgjöf, greiningu og þeirri hjálp sem dygði.

Hæstv. ráðh. kom inn á námskeið varðandi sérkennslu austur þar. Það ber sérstaklega að þakka hæstv. ráðh. fyrir það. Ég dreg ekki úr því. En ég held að forsendan að gagnsemi þeirra námskeiða og þess starfs sem þeir sérkennarar eiga eftir að vinna sé einmitt trygg og örugg sálfræðiþjónusta á svæðinu því okkur Austfirðingum þætti það vissulega framför ef þar yrði ráðinn aftur maður í fullt starf þó að fræðsluskrifstofan hefði ekki sálfræðing á hverjum fingri.