03.02.1987
Sameinað þing: 44. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2703 í B-deild Alþingistíðinda. (2532)

301. mál, heildarendurskoðun sóttvarnarlöggjafar

Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Á síðasta þingi var lagt fram frv. til l. um breytingar á kynsjúkdómalögum vegna þess nýja skæða sjúkdóms, alnæmis eða eyðni, sem komið hefur til sögunnar á s.l. árum. Umfjöllun um þetta frv. gaf tilefni til að gaumgæfa lög um varnir gegn kynsjúkdómum frá 1978 svo og önnur gildandi lög sem taka til smitsjúkdóma, en þau eru orðin býsna gömul. Má sem dæmi nefna lög um varnir gegn holdsveiki frá 1898 og 1909, berklavarnalög frá 1939, lög til varnar gegn fýlasótt frá 1940, sóttvarnalög frá 1954, farsóttarlög frá 1958, lög um ónæmisaðgerðir og lög um varnir gegn kynsjúkdómum frá 1978.

Nú hefur skilningi manna og þekkingu á eðli smitsjúkdóma fleygt fram á síðustu áratugum. Rannsóknaraðferðir við greiningu þeirra, meðhöndlun með lyfjum eða varnir gegn þeim með bóluefnum hafa tekið miklum stakkaskiptum frá því að lög um þá voru sett. Eru því mörg ákvæði laganna orðin úrelt. Það er þess vegna bæði eðlilegt og reyndar löngu tímabært að endurskoða þau til samræmis við nútímaþekkingu og starfshætti. Einnig er eðlilegt að líta á smitsjúkdóma sem heild við lagasetningu þannig að heildstæð löggjöf nái til allra smitsjúkdóma en frávik og sérstaða verði mörkuð með reglugerðum.

Um þetta fluttu þingkonur Kvennalistans ásamt öðrum þingkonum stjórnarandstöðu svohljóðandi till. til þál. á síðasta þingi sem ég ætla að lesa, með leyfi forseta.

„Alþingi ályktar að skora á heilbrmrh. að láta fara fram svo fljótt sem unnt er endurskoðun og samræmingu á þeim lögum sem taka til smitsjúkdóma. Lagt verði fram frumvarp þar að lútandi eigi síðar en á næsta þingi.“

Í umræðum um þessa þáltill. 27. febr. fyrir tæpu ári upplýsti hæstv. heilbrmrh. að tekin hefði verið ákvörðun um að endurskoða sóttvarnalöggjöfina í heild sinni. Sú ákvörðun var tekin í desember 1985, sagði hún. Hún taldi mjög nauðsynlegt að vanda til endurskoðunarinnar þar sem um væri að ræða flókna löggjöf sem fjallaði um réttindastöðu manna og heimildir yfirvalda til að skerða þann rétt. Hún sagðist því leggja mikið upp úr því að hafa með í starfi að endurskoðuninni menn sem hafa mikla reynslu af sjálfri framkvæmdinni. Hins vegar sagði hún einnig að þeir aðilar sem hún hefði ætlað að fela þetta verkefni væru ekki tiltækir fyrr en um vorið 1986 og teldi hún skynsamlegt að doka við eftir því.

Nú vil ég spyrja hæstv. heilbrmrh. á þskj. 533:

„1. Hvenær skipaði heilbrigðisráðherra nefnd til að endurskoða og samræma löggjöf um smitsjúkdóma og sóttvarnir?

2. Hvað líður störfum nefndarinnar?"