03.02.1987
Sameinað þing: 44. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2704 í B-deild Alþingistíðinda. (2533)

301. mál, heildarendurskoðun sóttvarnarlöggjafar

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Verkefni það sem hér er spurt um hefur vissulega verið til umræðu í heilbrmrn. í langan tíma, en formleg skipun nefndar í þessu skyni varð með bréfi 27. nóv. 1986. Nefndin fékk það hlutverk að endurskoða öll lögin sem gilda um smitsjúkdóma, þ.e. þau lög sem hér voru upptalin, farsóttarlögin nr. 10/1958, sóttvarnalögin frá 1954, ýmis sérlög er snerta sérstaka sjúkdóma, svo sem berklavarnarlögin frá 1939, lög um varnir gegn kynsjúkdómum og ýmis lög um einstaka sjúkdóma sem jafnvel voru sum hver sett um og eftir síðustu aldamót. Þetta er gert í því skyni að samræma og færa til nútíma aðstæðna alla þessa löggjöf. Í nefndina voru skipaðir þeir Sigurgeir Jónsson fyrrv. hæstaréttardómari, sem er formaður, dr. Guðjón Magnússon aðstoðarlandlæknir og dr. Haraldur Briem sérfræðingur í smitsjúkdómum. Starfsmaður nefndarinnar er Ingimar Sigurðsson yfirlögfræðingur heilbrmrn.

Svo er spurt hvað líði störfum nefndarinnar. Svo sem fram kemur af þessu hefur nefndin ekki setið að störfum svo langan tíma að fyrir liggi enn þá nein niðurstaða frá henni. Hér er um gríðarlega viðamikið og flókið mál að ræða sem þarf mjög ítarlega umfjöllun. Ég get einungis sagt að ég hygg að ekki verði þessi nefnd lengur að störfum en nauðsynlegt er þar eð hún er skipuð dugnaðarmönnum.