03.02.1987
Sameinað þing: 45. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2712 í B-deild Alþingistíðinda. (2541)

255. mál, fjarkennsla á vegum Háskóla Íslands

Flm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Á þskj. 312 flyt ég till. til þál. um fjarkennslu á vegum Háskóla Íslands. Tillagan er þess efnis að Alþingi feli Háskóla Íslands að stofna og starfrækja fjarkennsludeild, opinn háskóla, sem geri nemendum sínum kleift að stunda háskólanám í heimahúsum með aðstoð útvarps og sjónvarps, myndbanda og tölvutækni. Nám þetta geti allir stundað sem vilja án tillits til búsetu eða fyrri menntunar.

Hér er sem sagt gerð till. um nýjan skóla. Þessi skóli yrði þó ekki sjálfstæð stofnun, hann yrði starfræktur á vegum Háskóla Íslands og í honum yrði boðið upp á ýmiss konar háskólanám í beinum tengslum við það nám sem nú er stundað í Háskóla Íslands. Í till. er áhersla lögð á það að æðri menntun verði gerð aðgengileg fyrir alla, óháð aldri, búsetu eða fyrri menntun.

Það eru í raun og veru tvö efnisatriði í till. sem mestu máli skipta. Í fyrsta lagi það sem felst í orðinu „fjarkennsla“, að menn geti stundað nám fjarri skólastað og þurfi ekki að sækja skóla reglulega, og svo aftur hitt atriðið að inntökuskilyrði í skólann sé óháð aldri eða fyrri menntun eða öðrum þeim skilyrðum sem almennt eru sett fyrir háskólanámi hér á Íslandi.

Fyrra atriðið er það sem nefnt hefur verið fjarnám eða fjarkennsla. Um það hafa verið bornar fram ýmsar tillögur og það mál hefur verið til umræðu á opinberum vettvangi aftur og aftur án þess að málið hafi komist á framkvæmdastig. Síðara atriðið má helst kenna við opinn háskóla, þ.e. að háskólanámið og aðgangur að því sé óskilyrt og menn geti stundað námið án tillits til fortíðarafreka eða árangurs.

Í till. er tæknin nefnd sem nú einkennir mikla fjölmiðlabyltingu sem gengur yfir veröldina og þar eru nefnd tækin útvarp, sjónvarp, myndbönd og tölvan. Allt eru þetta tæki sem geta komið að mjög góðu gagni við skipulagningu fjarkennslu og í raun og veru opna þessi tæki og þessi tækni nýjar og óþekktar leiðir og kennsluaðferðir sem gera kleift að framkvæma það sem felst í þessari till.

Um útvarp og sjónvarp er það að segja að það hefur verið rætt um það í áratugi að nota þennan fjölmiðil meira í þágu almennings til menntunar en miklu minna orðið af því en efni standa til og er það mál út af fyrir sig. En það er rétt að leggja á það áherslu að útvarp og sjónvarp er ekkert aðalatriði í þessu samhengi. Ég tel að hin nýrri tækni með tilkomu myndbanda og tölvubúnaðar sé kannske enn mikilvægara í þessu sambandi því þá opnast þeir möguleikar að nýta sjónvarpstæknina þó að um sé að ræða skóla sem kannske er meira í líkingu við bréfaskóla en sjónvarpsskóla eða útvarpsskóla. Ég fjölyrði ekki frekar um þennan þátt málsins en bendi á ágæta grein sem dr. Jón Torfi Jónasson, formaður fjarkennslunefndar Háskólans, ritaði í Morgunblaðið ekki alls fyrir löngu þar sem hann gerir einmitt grein fyrir möguleikunum sem eru að opnast á fjarkennslu hjá Háskóla Íslands með tilkomu hinnar nýju tækni.

Eins og hér kom fram hefur Háskólinn og forráðamenn hans sýnt þessu máli mikinn velvilja og áhuga og það hefur verið uppi mikill áhugi í Háskólanum að koma á stofn skóla af því tagi sem ég er hér að lýsa. Það vantar því ekki að áhuginn sé fyrir hendi hjá þeim aðilum sem eiga að koma þessari tillögu til framkvæmda. Hitt vantar að Alþingi lýsi yfir vilja sínum að þetta verði gert og ríkisstjórnin taki sig til og komi málinu á leið.

Ég vil í þessu sambandi vekja athygli á því að í grg. till., sem flutt var í fyrsta sinn í fyrra hér á Alþingi nokkurn veginn í svipuðum dúr og till. er nú, er að finna umsagnir um till. bæði frá útvarpsráði og frá Bandalagi kennarafélaga og þessar umsagnir eru mjög jákvæðar. Báðir aðilar telja till. athyglisverða og hvetja eindregið til þess að kannaðir verði allir möguleikar á framkvæmd hennar.

Nú er það svo að nokkrum mánuðum eftir að þessi till. var flutt hér á Alþingi ákvað menntmrh. að skipa nefnd til að athuga þetta mál frekar. Nú er bráðum ár liðið síðan þessi nefnd var skipuð án þess að nokkuð hafi til hennar heyrst og hæstv. menntmrh. hefur ekki gert þjóðinni neina grein fyrir því hvar þessi mál eru niðurkomin síðan hann mætti á fjölmennum fundi á Hótel Borg þar sem þessi mál voru til umræðu á s.l. vetri. Tel ég því alveg tímabært að hann geri grein fyrir því hér við umræðuna hvernig þessi mál standa og vil spyrja hann að því hvenær megi vænta að álit nefndarinnar komi fram og hvenær hugsanlegt sé að það komi til framkvæmda.

Herra forseti. Ég vísa að öðru leyti til grg. sem fylgir frv. og legg til að að lokinni þessari umræðu verði þessu máli vísað til hv. félmn.