03.02.1987
Sameinað þing: 45. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2714 í B-deild Alþingistíðinda. (2543)

255. mál, fjarkennsla á vegum Háskóla Íslands

Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir þær upplýsingar sem fram komu hjá honum. Ég tel að það hafi verið mjög gott að fá þessar upplýsingar fram. Ég vissi það ekki fyrr, og ég veit ekki til að það hafi komið fram opinberlega, að nefndin hafi skilað af sér störfum og gert þessa tillögu. (Menntmrh.: Bráðabirgðaskýrslu.) Bráðabirgðaskýrslu, já já bráðabirgðaskýrslu. Ég hef ekki orðið var við það að sagt hafi verið frá því í fjölmiðlum að þessi skýrsla hafi komið fram, þó hún heiti að vísu enn bráðabirgðaskýrsla, en ég fagna því að hæstv. ráðh. lýsti sig reiðubúinn til að senda þm. þessa bráðabirgðaskýrslu og sérstaklega vil ég hvetja hann til þess að senda hv. félmn. Sþ. skýrsluna því að ég tel að undirtektir ráðherrans og þær upplýsingar sem hann gaf hér áðan um jákvæða niðurstöðu nefndarinnar hvetji Alþingi mjög eindregið til að samþykkja þá till. sem hér liggur fyrir. Ég get hins vegar vel skilið það að til þess að koma málinu fram þarf fjárveitingu á fjárlögum og kannske var þess ekki að vænta, ef málið var það seint á ferðinni að stutt var eftir af afgreiðslutíma fjárlaga, að stór upphæð fengist í þessu skyni núna í haust fyrir þetta ár. En við verðum þá að reyna að taka saman höndum um það í næsta sinn að undirbúa stærra átak á næsta ári.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.