04.02.1987
Efri deild: 37. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2722 í B-deild Alþingistíðinda. (2555)

316. mál, flugmálaáætlun

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Af hálfu þingflokks Alþfl. lýsi ég ánægju með það að þetta frv. til laga um flugmálaáætlun og fjáröflun til framkvæmda í flugmálum skuli komið fram og minni á það að á ýmsum fyrri þingum, allar götur svo langt sem ég hef traust þingminni, hafa þm. Alþfl. einmitt flutt tillögur í mjög svipaða átt, að gerð yrði framkvæmdaáætlun, flugmálaáætlun, en þær hlutu ekki náð fyrir augum þeirra sem þá réðu og náðu ekki fram að ganga hér á hinu háa Alþingi.

Mig langar hins vegar til að segja nokkur orð við hæstv. ráðh. um vinnubrögðin við þetta. Ekki efast ég um að sú ágæta nefnd sem hér hefur að unnið hefur unnið mjög vel og samviskusamlega. Hún hefur skilað skýrslu sem raunar hefur komið út í tveimur þykkum heftum. Ég minnist þess ekki að þingflokkum hafi verið send þessi skýrsla. Ég varð mér hins vegar úti um hana eftir krókaleiðum vegna þess að mér lék hugur á að vita hvað væri í hana skrifað.

Í öðru lagi áttu ekki allir stjórnmálaflokkar aðild að þeirri nefnd sem þetta verk vann. Ég held að um þetta hefði mátt ná breiðari samstöðu ef svo hefði verið gert. Það hefðu verið æskilegri vinnubrögð. Það er auðvitað líka vel til fundið, eins og gert var í þessu tilviki, að efna til ráðstefnu eins og hæstv. samgrh. gat um. Ég minnist þess ekki að þingflokkum hafi verið boðið að senda fulltrúa á þá ráðstefnu. Hins vegar mun sjálfsagt samgöngunefndarmönnum, einhverjum a.m.k., hafa verið boðið til þessarar ráðstefnu, en sá var þó gallinn á gjöf Njarðar að hún var haldin á þingfundatíma. Það er illt að gera, þegar menn liggja öðrum þræði undir ámæli fyrir að sinna ekki þingskyldu og sækja þingfundi, að svo mikilvægar ráðstefnur, þar sem þm. vilja gjarnan láta til sín taka, heyra og skýra sín sjónarmið, eru haldnar á þingfundatíma og þetta er látið rekast á. En ég endurtek að eftir því sem ég hef haft föng á að kynna mér þessa skýrslu, sem hér hefur reyndar að hluta til verið lögð fram sem fskj. með frv. og það er vissulega af hinu góða, en ég aflaði mér skýrslunnar eftir krókaleiðum, sýnist mér að þarna hafi verið mjög vel að verki staðið og það ber að þakka. Ég held að öllum sé ljóst að flugmálin hafi verið hornreka í samgöngukerfinu og þau hafa verið það mjög lengi. Það hefur skort hér af hálfu stjórnvalda samræmda stefnu að því er varðar málefni samgöngukerfisins og áhersluþætti þar, þ.e. vegi, flugvelli og hafnir. Þarna hefur verið unnið mjög handahófskennt og með happa- og glappaaðferð oft og tíðum og án samræmingar og skort mjög á að vegið hafi verið og metið hvaða samgönguleiðir væru hentugastar og hagkvæmastar hverju sinni. Þetta stendur vonandi til bóta, en slíka flutningastefnu hefur mjög skort.

Það er auðvitað góðra gjalda vert þegar lagt er til að stórauka framkvæmdir í flugmálum og ég lýsi heils hugar stuðningi við það. Ég hef þó þann fyrirvara á að þar sem skammur tími er síðan þetta frv. til laga var lagt fram hér á Alþingi og skýrsla þeirrar nefndar sem hér um ræðir var alls ekki send þingflokkunum hefur þingflokkur Alþfl. ekki fjallað um þetta mál svo ítarlega að ég geti hér og nú skýrt frá afstöðu okkar að því er varðar fjáröflun til framkvæmda. Það er einfaldlega vegna þess að það mál er ekki fullrætt innan þingflokksins en verður að sjálfsögðu áður en þetta mál kemur til afgreiðslu úr hv. samgn. þessarar deildar.

Guð láti gott á vita, eins og þar stendur. Við höfum langtímaáætlun í vegagerð þar sem við höfum séð hvernig þau markmið sem sett voru, þ.e. um ákveðinn hluta af þjóðartekjum til vegamála, hafa skroppið saman og rýrnað ár frá ari og þar sem við höfum færst fjær og fjær því marki sem upphaflega var sett. Hér hafa menn valið þá leið að setja ekki slíkt mark inn í þetta frv. en bent er á í athugasemdum að með þál. mætti festa þessa upphæð sem ákveðið hlutfall af vergum þjóðartekjum eins og nú er gert í vegamálum.

Ég hef vissar efasemdir um ágæti þess að vinna með þessum hætti vegna þess að það hefur sýnt sig að Alþingi gengur ákaflega illa að standa við þetta og hefur reynst nauðsynlegt í hvert einasta skipti sem hér eru samþykkt lánsfjárlög að hafa þar heilan kafla þar sem hver einasta grein, kannske 10-11 talsins, byrjar á orðunum „þrátt fyrir ákvæði laga“ nr. þetta og þetta skulu framlög samkvæmt þeim ekki nema nema þessu og þessu. Þetta eru vond vinnubrögð, þetta er vond lögfræði, þetta er vond lagasmíð, vegna þess að okkur hér á hinu háa Alþingi og þeim sem ráða ferðinni í ríkisstjórnarflokkunum hefur ekki tekist að standa við þetta, og það gildir þá nokkuð einu hverjir þeir hafa verið, svo að fullrar sanngirni sé nú gætt.

Án þess, virðulegi forseti, að ég hafi þessi orð fleiri að þessu sinni þykir mér sem standa hefði mátt svolítið öðruvísi að vinnubrögðum, undirbúningi og kynningu þessa máls. Það hefði greitt fyrir framgangi þess í þinginu. Ég fagna því samt og lýsi stuðningi við þá meginstefnu sem í því felst en hef nokkurn fyrirvara, a.m.k. þangað til þingflokkur Alþfl. hefur um það fjallað, um fjáröflunarleiðir þær sem gerð er grein fyrir í II. kafla laganna.